Hvernig stendur á þessu ruggi á bátnum?

frettinErlent, Geir Ágústsson, Innlent, Pistlar3 Comments

Geir Ágústsson skrifar:

Mikil og hávær mótmæli, og í sumum tilvikum óeirðir, hafa nýlega gengið yfir Bretland. Allt auðvitað vegna rangupplýsinga og í boði nýnasista, en svona er það.

Það stefnir í að Bandaríkjamenn ætli að kjósa Trump aftur í embætti forseta. Allt auðvitað þrátt fyrir endalausar lygar hans og stórhættulegar fasistaskoðanir, en svona er það.

Nýlega sópuðust inn á Evrópuþingið fulltrúar úr öfgahægriflokkum hvaðanæva að úr álfunni. Allt einhverjir lýðskrumarar sem vilja henda öllu lituðu fólki úr álfunni, en svona er það.

Á Íslandi sópa nú að sér fylgi þeir flokkar sem vilja hægja á stjórnlausum innflutningi útlendinga inn í íslenska velferðarkerfið. Stórhættulegur uppgangur útlendingafælni og rasisma, en svona er það.

Fyrir þá sem fylgjast með fréttum, en fáu öðru, hlýtur heimurinn að líta sífellt drungalegri út. Fasistar á hverju götuhorni að sópa að sér fylgi og stuðningsmönnum. Nýnasistar að leiða fjöldahreyfingar í vestrænum lýðræðisríkjum. Trúðar að hafa sigur á þeim sem fjölmiðlarnir elska.

En lof mér að róa niður allar áhyggjur. Það er ástæða fyrir því að forfeður okkar ákváðu að kosningar væru góð hugmynd og að mótmæli almennra borgara ættu að fá að eiga sér stað. Málfrelsið átti að vera ósnertanlegt til að forðast ritskoðanir kónga og einræðisherra. Það hefur tekið langan tíma fyrir almenning að átta sig á þeirri vegferð - þeirri helferð - sem yfirvöld hafa í langan tíma leitt okkur á og núna er einfaldlega verið að bregðast við - spyrna við fótum.

Það tók 2-3 ár fyrir almenning að sjá í gegnum ásetning yfirvalda á veirutímum, sem var þó augljós nánast frá upphafi, og 20-30 ár að sjá í gegnum innflytjendastefnuna, loftslagsrausið og eyðileggingu gjaldmiðlanna, en fleiri og fleiri eru að komast þangað. Hömlulausar lygar veirutíma hröðuðu ferlinu hjá mörgum, og eyðilegging velferðarkerfa og gjaldmiðla eru að vekja aðra.

Mótmælin í Bretlandi eru skiljanleg afleiðing margra ára glórulausrar stefnu í innflytjendamálum þar á bæ. Yfirvofandi endurkjör Trump í embætti forseta Bandaríkjanna eru viðbragð almennings gegn hatri yfirvalda á lífsstíl og skoðunum venjulegs fólks. Kosningaúrslit til Evrópuþings eru táknræn skilaboð frá vaxandi hluta almennings um að Evrópusambandið sé að seilast of langt í völdum. Skoðanakannanir á Íslandi gefa til kynna að jafnvel íslenskur almenningur, sem lætur gjarnan allt yfir sig ganga, sé orðinn langþreyttur á rotnandi velferðarkerfi nema fyrir þá sem borga ekkert í það.

Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af almenningi. Miklu meiri áhyggjur þarf að hafa af yfirvöldum sem stjórna ennþá umræðunni í gegnum verktaka sína hjá fjölmiðlunum. Gott ráð er að leita annars staðar að fréttum um stöðu mála. Það er sem betur fer hægt, ef þú nennir.

3 Comments on “Hvernig stendur á þessu ruggi á bátnum?”

  1. Krónan hverfur ekkert neitt á næstunni. Hún er framtíðar gjaldmiðill Íslands.

  2. Las fréttina og sá að hún er um óeirðirnar í Bretlandi, en ekki um krónuna sem gjaldmiðil. Biðst hér með innilega velvirðingar á þessum leiðu mistökum.

Skildu eftir skilaboð