Viðreisn hverfur fyrr en krónan

frettinBjörn Bjarnason, Innlent1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Lausn Viðreisnar felst í margra ára ferli sem hefst ekki fyrr en tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsókn og viðræður hefur verið samþykkt á alþingi.

Forystumenn í stjórnmálaflokknum Viðreisn skrifa almennt sömu greinina hver um sig. Stefið er alltaf það sama. Þeir tala niður íslensku krónuna. Tilbrigðin við stefið eru mismunandi.

Sunnudaginn 11. ágúst birtir Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, grein um krónuna á vefsíðunni Eyjunni. Hann segir þýska ferðamenn undir leiðsögn sinni um landið „orðlausa“ þegar þeir sjái verðið á bjórnum hér. Það sé allt að fjórfalt hér miðað við Þýskaland. Mesta athygli þeirra veki þó „himinháir vextir á húsnæðislánum“ hér.

„Einn þýskur viðmælandi minn var furðu lostinn þegar hann heyrði þetta og sagði að ef þessir vextir væru í Þýskalandi myndi það leiða til byltingar í landinu. Enginn Þjóðverji myndi sætta sig við þessa okurvexti,“ segir Thomas og er ekki í neinum vafa um að krónan, gjaldmiðill okkar, sé „aðalorsök hárra vaxta hér á landi“.

Lausnin er einföld að mati Thomasar: „Það sem þarf að gera er að taka upp alvöru stöðugan gjaldmiðil á Íslandi. Það gerist með inngöngu landsins í ESB og upptöku evru í kjölfarið.“

Sé þetta svona einfalt, hvers vegna hefur þetta ekki gerst fyrir löngu? Önnur spurning er hvort Thomas veki athygli Þjóðverjanna á að lífskjör hér, í Noregi og í Sviss, Evrópulöndum utan ESB og án evru, séu betri en í Þýskalandi.

Sé leitað upplýsinga um þetta hjá gervigreindarforriti fæst þetta svar:

Land VLF á mann (USD) Atvinnuleysi % Gini
Noregur 84,900 2.9 25.9
Ísland 76,000 2.4 26.1
Sviss 88,300 2.2 31.8
Þýskaland 49,500 3.1 31.9

VLF: Verg landsframleiðsla. Gini: tekjuójöfnuður

Háir vextir hér á landi ráðast af ákvörðunum Seðlabanka Íslands um að hafa stjórn á verðbólgu. Þetta er lögbundið hlutverk bankans án afskipta stjórnmálamanna sem geta þó að sjálfsögðu breytt lögum og tekið þetta ákvörðunarvald í eigin hendur. Þarna eiga lögmál hagfræðinnar að ráða ákvörðunum sem taka mið af hagstærðum. Séu þær skoðaðar hér er strax staldrað við hækkun launa og áhrif hennar á verðbólguna.

Lausn Viðreisnar felst í margra ára ferli sem hefst ekki fyrr en tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsókn og viðræður hefur verið samþykkt á alþingi. Enginn meiri hluti er fyrir slíkri tillögu á alþingi. Viðreisn verður horfin sem stjórnmálaflokkur á undan krónunni.

Eins máls flokkur eins og Viðreisn lifir ekki lengi. Hann kemst ekki til áhrifa því aðrir fallast ekki á skilyrðið um að eina málið fái forgang. Forystumenn flokksins tóku feilspor árið 2016 og lentu í öngstræti.

One Comment on “Viðreisn hverfur fyrr en krónan”

  1. Björn Bjarnason, ég segi það enn og aftur að það er ransóknardæmi hvernig þú gast setið á alþingi í marga áraugi á sínum tíma, því ekki varst þú að vinna fyrir þjóðina, bara fyrir vini þína sem kostuðu þig til endurkjörs og það allt of mörgum sinnum. Þessi grein þín er svo mikið bull að það hálfa væri nóg!

    „Forystumenn í stjórnmálaflokknum Viðreisn skrifa almennt sömu greinina hver um sig. Stefið er alltaf það sama. Þeir tala niður íslensku krónuna. Tilbrigðin við stefið eru mismunandi.“

    Já Björn, enn er þetta ekki fyrrum samstarfsfólk þitt sem er að skrifa sömu greinarnar?
    Auðvitað villt þú halda í krónuna óbreytta og flótandi til að tryggja afkomu þeirra ríku til að verða ríkari, það er megin stefna þín og skósveina þinna. Þessir aðilar sem eru um þann bil 2% þjóðarinna elska krónuna því hún tryggir þeim mikinn gróða af útflutningi afurða sem þeir fengu upp í hendurnar hjá mönnum eins og þér Björn Bjarnason með því að gefa þessum aðilum auðlindirnar á silfurfati.

    Ég get nú ekki annað enn hlegið af gerfigreindaforritinu þínu Björn Bjarnason sem er sennilega panntað af yfirboðurðum þínu til að skreyta ástandið.

    Hér eru réttu tölurnar um kaupmátt á Íslandi
    https://www.dv.is/eyjan/2024/07/10/lifskjor-kaupmattur-islandi-mun-laegri-en-hja-nagrannathjodum-thridjungi-meiri-faereyjum/

    Björn Bjarnason þú ættir að heimsækja hann Ole Anton Bieltvedt og læra hvernig hin rétti raunveruleiki er, þá kannski er möguleiki að þú myndir í fyrsta skipti á ævinni komast í nálægð við það sem blasir við almenningi enn ekki bara það sem þú og þínir eru búnir að mylja undir auðvaldið í landinu.

    Mín skoðun er sú að við eigum ALDREI að ganga í ESB, í rauninni eigum við að segja upp ESS samningunum og það strax.
    ESB er einungis mafía svona svipuð og NATO og við eigum ekki að koma nálægt slíku.
    Við þurfum að festa íslensku krónuna við gengi á stórum gjaldmiðli, svo einfallt er það. Íslenska krónan er minnsti fljótandi gjaldmiðill í heimi sem er glæpur fyrir almenning á Íslandi. Þessi gjaldmiðill hefur alið af sér versta kerfi í heiminum sem mjólkar samfélagi út í hið óendanlega, þetta kerfi hefur alið af sér rotinn húsnæðis og leigumarkað sem þekkist ekki annarstaðar í sólkerfinu.

    Svo mín skoðun er sú að Björn Bjarnason fær FALLEINKUNN fyrir framlag sitt til samfélagsins

Skildu eftir skilaboð