Björn Bjarnason skrifar:
Auðvitað má ræða þessi opinberu útgjöld í þágu grunnskólastarfs eins og önnur. Að halda öðru fram er skinhelgi.
Í kjarasamningum sem gerðir voru í mars var samið um að öllum grunnskólabörnum yrðu tryggðar fríar skólamáltíðir. Í grunnskólum Reykjavíkurborgar voru skráðir 14.755 nemendur árið 2023. Ríkið greiðir 75% af kostnaði gjaldfrjálsra skólamáltíða en sveitarfélögin afganginn. Í Heimildinni sagði 11. mars að áætlað væri að kostnaður við þessa aðgerð mundi í heild nema um fimm milljörðum króna á ári. Í Reykjavík mundi aðgerðin „kosta ríkið og Reykjavíkurborg um 1,7 milljarða króna á ári“.
Um þessa aðgerð ríkti sátt þeirra sem stóðu að kjarasamningunum sem gerðir voru til fjögurra ára. Þórdís Kolrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var fjármála- og efnahagsráðherra á þessum tíma og lagði blessun sína yfir að ríkið legði fram 80 milljarða króna til að greiða fyrir að kjarasamningarnir næðust. Naut hún til þess stuðnings flokks síns.
Auðvitað má ræða þessi opinberu útgjöld í þágu grunnskólastarfs eins og önnur. Að halda öðru fram er skinhelgi. Þá er ekki heldur bannað að ræða hvort sjálfsagt sé að opinberir aðilar standi straum af kostnaði við allt nema skólatöskur þegar kemur að fjármögnun grunnskólastarfs.
Stundum má ætla, ekki síst af fréttum ríkisútvarpsins, að ekki skuli ræða opinber útgjöld nema til að nöldra yfir því að þau séu ekki nógu há. Sé vakið máls á hvort útgjöld renni til þess sem brýnast birtast þeir sem kvartsárastir eru.
Það liggur fyrir að mennta- og barnamálaráðherra sætir ámæli, meðal annars frá umboðsmanni barna, um hvernig að innri málefnum grunnskólans er staðið. Árum saman hefur ráðherrann dregið að gefa alþingi skýrslu um grunnskólann. Þá er allt á huldu um hvernig staðið skuli að því að mæla árangur grunnskólanemenda. Ráðherrann hyggst leggja fram lagafrumvarp til að bjarga því á síðustu stundu að ekki taki á ný gildi lög sem skylda yfirvöld til að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur.
Þörfin fyrir þessa „reddingu“ stafar af því að ekkert hefur verið að marka áform um innleiðingu á svonefndum matsferli, nýju, heimasmíðuðu verkfæri til að nota á grunnskólanemendur án þess að nokkur viti enn hvernig það virkar, hverju það skilar eða hvenær það kemur til sögunnar.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, leitar allra leiða til að komast hjá því að ræða efnislega um leiðir til að losa grunnskólann úr þeirri kreppu sem þar ríkir. Hann lætur eins og fyrir liggi áætlun til 2030 þegar enginn veit hvað gerist 1. janúar 2025.
Ráðherrann fær að sjálfsögðu tíma hjá fréttastofu ríkisútvarpsins til skammast út í sjálfstæðismenn fyrir vekja máls á opinberum útgjöldum til grunnskólans.
Á ruv.is er 14. ágúst haft eftir ráðherranum: „Foreldrar ættu ekki að þurfa að fara með betlistaf til skólastjórnenda að biðja um niðurfellingu gjalda.“ Hver er að tala um þetta? Ekki sjálfstæðismenn þótt ráðherrann gefi það í skyn.
Hvers vegna bregst ráðherrann ekki við óskum um meiri upplýsingar um hvaða árangri fjármunirnir til grunnskólans skila? Hvaða staf þarf að beita til að hann sjái til þess að birtar séu upplýsingar um árangur í skólastarfinu? Eða hann sinni lögbundinni skyldu til skýrslugjafar á alþingi?