Dagur B. ekki í orlofi

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Dagur átti samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi á ári, þau tíu ár sem hann gegndi starfi borgarstjóra. Hann hafði ekki tök á að nýta sér orlofsstundirnar.

Dagur B. Eggertsson lét af störfum sem borgarstjóri í Reykjavík 16. janúar 2024 og var á biðlaunum í sex mánuði en jafnframt formaður borgarráðs. Þegar biðlaunatíminn rann sitt skeið um miðjan júní var frá því skýrt að auka þyrfti fjárheimildir skrifstofu borgarstjóra um 25 milljónir króna vegna borgarstjóraskiptanna.

Vaknaði spurning um hvort þetta þýddi að Dagur B. hefði verið á tvöföldum launum. Hann birti þessa færslu á Facebook–síðu sinni 21. júní:

„Alveg finnst mér einstakur óþarfi af Hildi Björnsdóttur og Mogganum að gefa til kynna að ég sé á tvöföldum launum þann tíma sem ég er á biðlaunum sem borgarstjóri. Það er í raun réttara að segja að ég vinni frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum, sem er bara hið besta mál. Fyrir nú utan hvað mörg biðlaun hafa sparast með því að skipta ekki sífellt um borgarstjóra þau tíu ár sem ég var í embætti…“

Ráðhús Reykjavíkur.

Rétt er að rifja upp að Hildur Björnsdóttir sagði í samtali við Morgunblaðið 21. júní að í tilefni af borgarstjóraskiptunum hefði meirihlutinn að baki Degi B. fullyrt „að kostnaðurinn við borgarstjóraskiptin myndi eingöngu nema mismuninum á launum Dags sem formanns borgarráðs og launum hans sem borgarstjóra“ sex biðlaunamánuðina, 25 milljón talan stemmdi ekki við þær fullyrðingar. Hefði hún því óskað nánari upplýsinga um málið, það væri mjög alvarlegt ef Degi B. yrðu greidd full borgarstjóralaun ofan á laun formanns borgarráðs. Þá benti hún á að þessar greiðslur hefðu aldrei komið til kynningar í borgarráði heldur hefði upplýsingum um þær verið „laumað gegnum borgarstjórn í gagnapakka sem ekki var sérstaklega til umræðu né kynningar“.

Eins og þarna sagði óskaði Hildur eftir skýringum á því hvað stæði að baki þessum tölum og birtast þær á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Auk 9,6 milljóna í biðlaun greiðir borgin Degi B. Eggertssyni 9,7 milljónir í orlofsuppgjör vegna síðastliðinna tíu ára. Í svari borgarritara vegna fyrirspurnar Hildar kemur fram að Dagur átti samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi á ári, þau tíu ár sem hann gegndi starfi borgarstjóra. Hann hafi ekki haft tök á að nýta sér orlofsstundir í starfi sínu og þess vegna flytjist þær milli ára. Þetta sé í samræmi við orlofsuppgjör æðstu starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Í Morgunblaðinu í dag segir Hildur Björnsdóttir að í kjarasamningi milli borgarinnar og Sameykis komi fram að ekki sé heimilt að fresta orlofsgreiðslum milli ára nema um sérstakar kringumstæður sé að ræða eins og við fæðingarorlof eða þá að yfirmaður hafi krafist þess vegna verkefna sem þyrfti að ljúka. Finnst henni þetta ekki eiga við að því er varðar aðstæður Dags B.

Laun borgarstjóra fylgdu til ársins 2017 launum forsætisráðherra en hafa síðan verið „á pari“ við þau. Katrín Jakobsdóttir fór á biðlaun forsætisráðherra 7. apríl. Skyldi hún fá greitt uppsafnað orlof frá því að hún varð forsætisráðherra árið 2017? Eða Guðni Th. Jóhannesson sem nú er á biðlaunum eftir átta ár sem forseti Íslands?

Skildu eftir skilaboð