Dagur B. á valdi örlaganna

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Aumari verður málsvörn arftaka Dags B. ekki. Oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur stendur þannig að verki að óverjandi er.

Hér var sagt fimmtudaginn 15. ágúst: „Laun borgarstjóra fylgdu til ársins 2017 launum forsætisráðherra en hafa síðan verið „á pari“ við þau. Katrín Jakobsdóttir fór á biðlaun forsætisráðherra 7. apríl. Skyldi hún fá greitt uppsafnað orlof frá því að hún varð forsætisráðherra árið 2017? Eða Guðni Th. Jóhannesson sem nú er á biðlaunum eftir átta ár sem forseti Íslands?“

Tilefnið var frétt um að Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, hefði fengið 9,7 m. kr. í orlofsgreiðslur vegna starfa sem borgarstjóri þegar hann hætti í janúar 2024, hann hefði ekki tekið sér fullt orlof í 10 ár.

Í dag (17. ágúst) segir frá því á forsíðu Morgunblaðsins að við starfslok ráðherra sé áunninn orlofsréttur þess orlofsárs gerður upp en ekki uppsafnað ónýtt orlof frá fyrri árum. Þetta sé enn skýrara hjá forsetaembættinu, óteknir orlofsdagar forseta Íslands eru einfaldlega ekki taldir og því síður greiddir við afsögn.

Þegar samið var um núverandi meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur lá fyrir að Einar Þorsteinsson, Framsóknarflokki, myndi taka við af Degi B. Eggertssyni, Samfylkingu, sem borgarstjóri um mitt kjörtímabilið sem hófst 2022. Uppgjör vegna starfsloka Dags B. kom engum á óvart. Hann bar sem borgarstjóri ábyrgð á öllu sem að því sneri. Nú segir hann við Morgunblaðið að ferlið sé „sjálfvirkt“ og gildi um alla starfsmenn. Hann ætli ekki að endurgreiða neitt enda sé um að ræða „hefðbundið orlofsuppgjör við starfslok“.

Dagur B. réð Diljá Ragnarsdóttur, kosningastjóra Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmann sinn frá og með ársbyrjun 2023 þegar fyrir lá að hann sæti aðeins í um ár sem borgarstjóri. Við afsögn Dags B. fékk kosningastjórinn fyrrverandi um 6 m. kr. í biðlaun og 1.574 þúsund kr. fyrir ótekið orlof.

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði Einar Þorsteinsson borgarstjóra í þættinum Spurmál sagðist hann hafa „hrokkið aðeins við“ vegna orlofsgreiðslnanna til Dags B. en spyrja yrði Dag B. um þær, hann ætlaði ekkert að hafa skoðun á því hvort þær væru eðlilegar. Þegar Einar var spurður um það sem sneri að Diljá, aðstoðarmanni Dags B., sagðist hann ekki vilja „tjá sig um málefni einstakra starfsmanna borgarinnar“ (Morgunblaðið, 17. ágúst.).

Aumari verður málsvörn arftaka Dags B. ekki. Oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur stendur þannig að verki að óverjandi er.

Dagur B. vildi slá sig til riddara árið 2017 þegar hann ætlaði sko ekki að njóta lögboðinnar launahækkunar sem þá varð hjá forsætisráðherra. Af því átti að draga þá ályktun að hann nyti verri kjara en ráðherrann. Það reynist rangt.

Í júní 2024 ætlaði Dagur B. að slá Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, út af laginu með því að ráðast á hana persónulega þegar hún undraðist að það kostaði um 25 milljónir króna að skipta um borgarstjóra. Dagur B. veittist einnig að Morgunblaðinufyrir að flytja um þetta fréttir. Tilraunin til þöggunar mistókst og enn eitt dæmið um tilraun til blekkingar og óráðsíu við opinbera fjármálastjórn á ábyrgð Dags B. opinberast – nú í hans eigin þágu og kosningastjóra hans.

Einar Þorsteinsson segist ekki ætla að gera neitt, það verði bara að ræða við Dag B. Það er hins vegar til einskis, snúist málið um eitthvað sem kann að koma honum illa. Þá er vísað á aðra, hann sé bara á valdi örlaganna.

Skildu eftir skilaboð