Regnbogafáninn snýr aftur

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Á þessum árstíma fara gleðigöngurnar fram í borgum og bæjum. Þar fögnum við fjölbreytileikanum - því að við erum öll mismunandi, hneigjumst að mismunandi kynjum, veljum okkur mismunandi bólfélaga og lífsförunauta, klæðumst mismunandi og svona mætti lengi telja, en erum svo í raun bara fólk. Mismunandi fólk.

Lengi vel var regnbogafáninn tákn þessa fjölbreytileika. Hann er auðvelt að skilja. Litir regnbogans eru hvítt ljós sólar brotið upp í alla frumlitina. Regnbogafáninn táknar þannig mannkynið í öllum sínum fjölbreytileika.

En skyndilega var þetta ekki nóg. Allt í einu fóru einstaka litir fánans að tákna einhvern ákveðinn hóp kynhneigðar eða smekks á klæðaburði og þá runnu litirnir hratt út enda er fjölbreytileikinn nánast óendanlegur - í raun nær hann alveg niður í hvern og einn einstakling (við erum öll einstök, ekki satt?). Þá þurfti að flækja málin og búa til nýja fána með þríhyrningum og einhverjum táknum krotuðum á hann. Úr varð eitthvað afskræmi sem enginn skilur. Ekki nóg með það - þeir sem flögguðu einhverju öðru en nýjustu útgáfunni af fánanum fengu skammir í hattinn. Myndin við þessa færslu er vitnisburður um það (tekin í fyrra).

En núna er eins og regnbogafáninn sé tekinn við aftur sem megintáknmynd fyrir fjölbreytileika mannsins. Er það ímyndun í mér? Furðulegi fáninn með þríhyrningunum er undantekningin frekar en reglan þar sem ég hef séð til. Gafst einhver upp á því að útskýra ekki-regnbogafánanna? Völdum við að snúa aftur til regnbogans því hann segir í raun allt sem segja þarf, og gerir það með einföldum hætti?

Ef svo er þá fagna ég því. Regnboginn rúmar alla, líka miðaldra gagnkynhneigða hvíta karlmenn eins og mig. Hann inniheldur allt litrófið, líka liti sem sjást varla með berum augum. Hann hefði aldrei átt að víkja fyrir fánum sem eiga að þýða eitthvað en þýða í raun ekkert.

Velkominn aftur, regnbogafáni!

Skildu eftir skilaboð