Hatur Samfylkingar og VG

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

VG kann árið 2025 að lenda í sömu stöðu og Samfylkingin í kosningunum árið 2016 þegar Logi Einarsson varð eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins.

VG efndi til flokksráðsfundar laugardaginn 17. ágúst og miðað við fréttir af honum hefði kjörorð hans átt að vera: Að duga eða drepast.

VG kann árið 2025 að lenda í sömu stöðu og Samfylkingin í kosningunum árið 2016 þegar Logi Einarsson varð eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins og tók með sér tvo uppbótarþingmenn.

Samfylkingarfólk sýnir stöðu VG ekki mikla samúð núna megi marka það sem Magnús Skjöld, varaþingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, skrifaði á FB-síðu sína sunnudaginn 18. ágúst.

Magnús segist ekki vona að VG nái vopnum sínum. Samfylkingin hafi reynt að vera í ríkisstjórn með VG „og það var nú ekki góð reynsla skal ég segja ykkur,“ segir Magnús um samstarf VG og Samfylkingar undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu, 2009 til 2013. Hann hnykkir á þeirri skoðun með þessum orðum:

„Eintóm svik, bakstungur og undirferli. Engin tryggð. Engin staðfesta. Og þeim tókst að eyðileggja besta tækifærið sem þessi þjóð hefur haft til að losna undan kúgun íslensku forréttindastéttarinnar sem hagnast á krónuhagkerfinu, Evrópusambandsumsóknina.“

Kveðjan er sem sagt ísköld og Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrv. gjaldkeri Samfylkingarinnar, tekur undir hana í athugasemd þar sem hann segir að ekki megi „gleyma villiköttum VG sem stórskemmdu ríkisstjórnarsamstarfið 2009-2013 og veiktu verulega möguleika stjórnarinnar til að koma umbótum í gegn“.

Þetta fólk hafi virst „tilbúið að trúa áróðri Moggans gegn stjórninni og hafði ekki bein í nefinu til að standa af hugrekki með erindi þessarar sögulegu ríkisstjórnar, þegar á reyndi“.

Innan Samfylkingarinnar glittir þannig víða í hefndarhug í garð VG vegna glataðra tækifæra í einu „hreinu vinstristjórninni“ í 80 ára sögu íslenska lýðveldisins. Í sögulegu ljósi er þessi heiftarmálflutningur vegna flokksráðsfundar VG er athyglisverðari en að þar hafi verið kvartað undan því að þáv. utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, frestaði greiðslu til UNRWA, Palestínuflóttamannahjálparinnar.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor lagði út af UNRWA-ályktun VG á mjög dramatískan hátt í Vísi mánudaginn 19. ágúst. Hún sýndi „gríðarlega misklíð“ og það væru „bara eldglæringar“ á milli VG og Sjálfstæðisflokksins og væntanlega yrði „stál í stál allan næsta vetur“, líf ríkisstjórnarinnar héngi „á bláþræði“, stjórnarflokkarnir myndu ekki starfa saman eftir næstu kosningar, eina sem ekki væri vitað nákvæmlega væri hvenær kosið yrði. Alþingi yrði „nokkuð stíflað“ sæti ríkisstjórnin fram til vors 2025. Það myndi „þýða biðstöðu í þjóðmálum“.

Við blasir og hefur gert frá 2017 að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um allt, það hefur ekki breyst og ekki heldur áform þeirra um að starfa saman að framgangi umsaminna mála. Ágreiningur er og verður um menn og málefni.

Á milli Samfylkingar og VG ríkir hins vegar hatur.

Skildu eftir skilaboð