Sigríður Dögg: byrlun, bruðl og skattsvik

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, þá fréttamaður á RÚV, var frambjóðandi RSK-miðla til formennsku Blaðamannafélags Íslands vorið 2021. Hún fékk sigur. RSK-bandalagið, RÚV, Stundin og Kjarninn, réðu ferð íslenskra fjölmiðla. Ferðalagið er markað lögbrotum og siðleysi.

Sigríður Dögg fékk kjör í lok apríl 2021. Fáeinum dögum síðar hófst byrlunar- og símastuldsmálið. Það er framhald af Namibíumálinu, ásökunum RSK-miðla að Samherji hafi stundað stórfelldar mútugjafir í Afríkuríkinu. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað í byrjun maí, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV. Stundin og Kjarninn birtu 21. maí skáldskap með vísun í gögn skipstjóra Samherja.

Sigríður Dögg, nýkjörinn formaður Blaðamannafélagsins, fékk það hlutverk að ljá herferð RSk-miðla trúverðugleika. Þrem vikum eftir að Stundin og Kjarninn birtu falsfréttirnar um ,,skæruliðadeild" Samherja hélt Sigríður Dögg norrænt málþing um fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Ein meginspurning málþingsins var eftirfarandi:

Hafa blaðamenn á hinum Norðurlöndunum upplifað viðlíka árásir á fréttamenn og Samherji hefur ástundað?

Samherja gerði aldrei eina eða neina árás á fjölmiðla. Úr slitrum í síma Páls skipstjóra bjuggu blaðamenn til tröllasögur. Samræmdur málflutningur RSK-miðla bjó til þá ímynd að Samherji hefði öll ráð fjölmiðla í hendi sér. Veruleikinn var allur annar. Samherji var skotmark RSK-miðla. Á málþinginu voru heiðraðir tveir RSK-liðar, Helgi Seljan og Þórður Snær Júlíusson. 

Ef eitthvað væri hæft í ásökunum um að Samherji væri gerandi á fjölmiðlamarkaði, eða sæti færis að gera blaðamönnum skráveifu ættu að liggja fyrir heimildir um það. Að frátöldum RSK-uppspuna er engin heimild til um að Samherji stundi ,,árásir á fréttamenn." En sé logið nógu oft með samræmdum hætti á nokkrum fjölmiðlum verður til frásögn sem stór hluti almennings trúir. Til að auka trúverðugleikann eru manneskjur eins og Sigríður Dögg þénugt verkfæri, sama gildir um þingmenn Pírata og Samfylkingar.

Byrlunar- og símastuldsmálið felldi ekki Sigríði Dögg sem fréttamann RÚV. Tilfallandi fékk upplýsingar sumarið 2023 um að Sigríður Dögg hefði verið staðin að skattsvikum. Heimildin var traust en fór fram á nafnleynd. Fyrsta bloggið um skattsvik Sigríðar Daggar birtist 4. júlí. Ritstjórn Morgunblaðsins fékk áhuga á fjármálum formanns Blaðamannafélagsins tveim mánuðum síðar og birti frétt 11. september 2023. Í framhaldi játaði Sigríður Dögg skattsvik. En hún neitaði að tjá sig frekar, sagði sín skattsvik einkamál.

En skattsvik eru óvart opinbert fréttamál eins og fjöldinn allur af fréttum fjölmiðla um stærri og smærri skattaundanskot vitna um. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ræddi við Sigríði Dögg í september 2023. Í framhaldi var ákveðið að hún léti af störfum á fréttastofu RÚV um áramótin síðustu. Látið var heita að fréttamaðurinn þyrfti að sinna betur formennsku Blaðamannafélags Íslands. Í raun þurfti Sigríður Dögg nýtt starf. RÚV treysti sér ekki til að hafa skattsvikara á launaskrá. Kemur frekar illa út að ríkisfjölmiðill fjármagnaður með skattfé sem með á mála fréttamann af sort Sigríðar Daggar. Kallar RÚV þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.  Tilfallandi blogg frá 12. janúar í ár útskýrir:

Stefán gæti hafa sagt eitthvað á þessa leið við Sigríði Dögg: Eins og þú veist er fréttamönnum sjaldnast sagt upp þegar staða þeirra er faglega óverjandi. Það kemur illa út í fjölmiðlaumræðunni að fréttamenn séu reknir. Þá er í leiðinni viðurkennt að RÚV hafi orðið á mistök. Það viljum við ekki. En vegna skattsvikamálsins vil ég að þú takir þér til fyrirmyndar Rakel, Helga og Þóru sem tóku pokann sinn þegar öllum var ljóst að faglega var ótækt að þau störfuðu áfram á fréttastofu sem vill halda í trúverðugleika sinn.

Hafi Stefán sagt eitthvað á þessa leið varð Sigríður Dögg að leita sér að starfi. Ekki gat hún orðið blaðamaður á öðrum fjölmiðli með óuppgert skattsvikamál á bakinu. Ekkert fyrirtæki eða stofnun gæti gert hana að talsmanni sínum af sömu ástæðu. Sigríður Dögg hafði áður starfað sem almannatengill.

Hvað var þá eftir?

Jú, staða framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands. Eitt vesen þó. Fyrir á fleti er Hjálmar Jónsson. Í fyrradag var málið leyst. Sigríður Dögg rak Hjálmar úr starfi og settist sjálf í volgan stólinn og fær strax beinan aðgang að fjármunum félagsmanna. Sér til halds og trausts við brottreksturinn hafði Sigríður Dögg varaformann sinn, Aðalstein Kjartansson, sakborning í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Hjálmur Jónsson átti að baki tveggja áratuga flekklausan feril sem framkvæmdastjóri og áður formaður Blaðamannafélagsins. Hvernig gat Sigríður Dögg réttlætt að víkja honum úr starfi? Jú, hún fór í smiðju RSK-miðla og skáldaði ávirðingar á Hjálmar. Til að gera ávirðingarnar trúverðugar keypti formaðurinn þjónustu lögfræðinga og endurskoðenda. Fjármunum félagsins var bruðlað til að réttlæta tilhæfulausan brottrekstur Hjálmars. Sigríði Dögg er ekkert heilagt, ekki frekar en öðrum RSK-liðum.

Fríða Björnsdóttir blaðamaður og félagi í Blaðamannafélaginu í 62 ár, já sextíu og tvö ár, gjörþekkir félagið. Hún er í fyrirsvari 26 félagsmanna sem vilja ekki láta gott heita að Sigríður Dögg fari með stéttafélag blaðamanna eins og skattsvikin; þetta er mitt einkamál.

Í viðtengdri frétt er haft eftir Sigríði Dögg að hún vilja ,,tryggja að vel sé hugsað um eign­ir fé­lags­manna og að sjóðir þeirra séu sjálf­bær­ir." Skattsvikarar eru auðvitað best til þess fallnir að gæta fjár annarra.

Þorri blaðamanna lætur sér vel líka að skattsvikari sé formaður þeirra. Aðeins tveir fjölmiðlar segja fréttina af andófi Fríðu Björnsdóttir og félaga. Morgunblaðið, samanber viðtengda frétt, og Mannlíf. Aðrir fjölmiðlar ljúga með þögninni.

Skildu eftir skilaboð