Páll Vilhjálmsson skrifar:
Tapi Úkraína stríðinu gegn Rússum fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember næstkomandi nær tæplega kjöri Kamala Harris frambjóðanda Demókrataflokksins. Harris er sitjandi varaforseti, ber ábyrgð á stjórnarstefnunni, sem er að halda Úkraínu gangandi. Líklegur úkraínskur ósigur má ekki raungerast fyrir forsetakosningarnar í byrjun nóvember er viðkvæðið vestra.
Stjórnvöld í Washington kappkosta að Úkraína haldi í horfinu næstu tvo mánuði. Tap í Úkraínu fyrir kosningar yrði reiðarslag fyrir Harris og demókrata. Selenskí og félagar í Kænugarði eru vel læsir á stöðu mála vestra. Eftir 60 daga er óvíst hvort Úkraína fái áfram bandarískan stuðning. Keppinautur Harris, Trump, segist ætla að binda endi á stríðið með hraði, nái hann kjöri.
Stríðsbloggarinn Military Summary segir grunsamlegt hve Úkraínuher hörfi hratt á austurvígstöðvunum síðustu daga, í Suður-Donbass. Tilgáta bloggarans er að Selenskí og félagar séu með ráðnum hug að sýna Washington fram á að óvíst sé að úkraínski herinn hafi úthald næstu tvo mánuði. Nema, auðvitað, að vesturveldin stórauki stuðninginn við Kænugarð, í reiðufé og vopnum og afnemi að auki kvaðir um að nota ekki vestræn vopn langt að baki víglínunnar.
Hér er um að ræða lítt dulda fjárkúgun, sem hvorki verður sönnuð né afsönnuð. Langsótt samsæriskenning, gætu sumir sagt.
Tilfellið er að stríðsbloggarar eins og Military Summary og fleiri eru betur með puttana á púlsinum en meginstraumsmiðlar.
Fyrir hálfum mánuði sagði tilfallandi frá tilgátu stríðsbloggara að Rússar hefðu gefið Úkraínuher færi á Kúrsk-aðgerðinni, að færa stríðsátökin á rússneskt land. Tilgátan virtist fjarstæðukennd. En fyrir þrem dögum gaf meginstraumsmiðillinn CNN meintri samsæriskenningu undir fótinn. Pútin gæti hafa séð í gegnum fingur sér í Kúrsk-héraði, til að sannfæra rússneskan almenning að Úkraínustríðið sé dauðans alvara, móðurlandið sé undir árás.
Úkraínustríðið, líkt og þorri nútímastríða, er háð á tvennum vígstöðvum. Í einn stað á sjálfum vígvellinum en í annan stað á vettvangi fjölmiðla og stjórnmála.
Vegna viðkvæmrar stöðu í bandarískum stjórnmálum eru stjórnvöld í Kænugarði með spil á hendi, að ekki sé sagt tromp. Það er eitt. Annað er að hanna atburðarás á vígvelli til að hræða bandarísk yfirvöld. Stríð lýtur eigin lögmálum. Skipulagt undanhald getur fyrr en varir orðið óskipulagt.
Nú í morgunsárið segir stríðsbloggið War in Ukraine að ástandið í Suður-Donbass, svæði sem kallast Selidovo-Pokrovsk, sé katastórfa fyrir Úkaraínu. Bloggarinn er hlynntur málstað Úkraínu og með þeim raunsærri sem fjalla reglulega um stríðið.
Samkvæmt War in Ukraine er lítil hreyfing á allri víglínunni, Kúrsk meðtalin. Í Selidovo-Pokrovsk er aftur í uppsiglingu algert afhroð Úkraínuhers. Haldi fram sem horfir eru líkur á að Rússar komist fljótlega að Dnjepr-fljóti. Þar með er Úkraína klofin í tvennt.
War in Ukraine segir innanlandsástand Úkraínu þannig að hermenn í vaxandi mæli telji ekki þess virði að berjast.
F-16 orustuþoturnar, sem Selenskí gortar af í viðtengdri frétt, eru algjört aukaatriði. Bandaríkin geta áfram veitt aðstoð til Úkraínu. En sé baráttuþrek hersins gengið til þurrðar þarf ekki að spyrja að leikslokum. Hvort þau leikslok verði fyrir eða eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum er opin spurning.