Hreinsanir í Blaðamannafélaginu

frettinFjölmiðlar, InnlentLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands stendur að tillögu um að taka atkvæðisréttinn af hluta félagsmanna. ,,Ég kaus Sigríði Dögg sem formann," segir gamalreyndur blaðamaður, ,,það er það versta sem ég hef gert félaginu." Tillaga Sigríðar Daggar er á dagskrá framhaldsaðalfundar BÍ í næstu viku.

Sigríður Dögg játaði skattsvik fyrir ári en hefur neitað að gera nánari grein fyrir umfangi og fjárhæðum, segir skattsvikin einkamál. Hún var látin fara frá fréttastofu RÚV eftir að upp komst um undanskotin frá samneyslunni. Margir blaðamenn telja ófært að skattsvikari stjórni félaginu. Til að koma ár sinni betur fyrir borð í sjóðsstreymi stéttafélagsins rak Sigríður Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra BÍ um síðustu áramót og tók sér fullt starf í félaginu. Formennska í BÍ var áður hlutastarf.

Sigríður Dögg tilheyrir hópi blaðamanna sem kenndur er við RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn, sem heita nú Heimildin). Hópurinn hefur ráðið ferðinni í stéttafélaginu síðustu ár. Fimm blaðamenn á RSK-miðlum eru með stöðu sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu. Formaður BÍ hefur lagt sig í líma að taka undir ófrægingarherferð sakborninga gagnvart lögreglu, sem rannsakar alvarleg afbrot, byrlun og símastuld. Eins og formaðurinn segir, þá er það einkamál, en ekki opinbert mál, þegar blaðamenn komast í kast við lögin.

Andspyrna er gegn vegferð Sigríðar Daggar og RSK-liða. Trúverðugleiki stéttarinnar er í húfi. Fyrir skemmstu sendu 26 félagar í BÍ fyrirspurnir til formannsins um útgjöld sem stofnað var til að hrekja Hjálmar Jónsson úr starfi framkvæmdastjóra og hirða af honum mannorðið í leiðinni. Í hópnum eru eldri blaðamenn, flestir ef ekki allir komnir á eftirlaun.

Sigríður Dögg hugsar blaðamönnum með múður þegjandi þörfina. Áður hefur hún úthýst hópnum úr húsnæði BÍ en þar höfðu eldri blaðamenn vikulega fundi til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Hópurinn flutti fundi sína í Gunnarshús, húsnæði Rithöfundarsambandsins.

Nú lætur Sigríður Dögg kné fylgja kviði, hyggst með lagabreytingu svipta blaðamenn á elli- og örorkulífeyri atkvæðisrétti á félagsfundum. Núgildandi lagagrein er eftirfarandi:

2.3. Félagsmaður, sem kominn er á eftirlaun og er ekki lengur í fullu starfi eða býr við örorku, skal vera undanþeginn greiðslu félagsgjalda. Hann skal þó sem áður njóta félagsréttinda.

Tillaga Sigríðar Daggar er að lagagreininni verði breytt. Nýja útgáfan hljómar svona: 

Félagsmanni, sem hættir störfum vegna aldurs eða örorku, skal vera heimilt að vera áfram félagi hafi hann greitt félagsgjöld til félagsins næstliðna 6 mánuði áður en hann lét af störfum. Hann skal eftir það vera undanþeginn greiðslu félagsgjalda og hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en ekki atkvæðisrétt. (leturbr. pv)

Rökstuðningur formannsins er að ekki sé tilhlýðilegt að örorku- og ellilífeyrisþegar fari með atkvæðisrétt í félagi sem þeir þó hafa, margir hverjir, átt aðild að mestan hluta starfsævinnar. Fremur kaldar kveðjur frá formanni Blaðamannafélags Íslands til eldri félagsmanna og þeirra sem glíma við örorku. Atkvæðisréttur í stéttafélagi er hliðstæður kosningarétti í þjóðfélaginu. Að taka réttinn af fólki til að greiða atkvæði er félagslegt ofbeldi.

,,Fyrst var rænt úr félaginu, nú á að ræna félaginu," sagði sami blaðamaður, og vitnað er í að ofan, í samtali við tilfallandi.

Skattsvikarinn í formennsku stéttafélags blaðamanna lætur ekki að sér hæða. Framhaldsaðalfundurinn, sem tekur afstöðu til lagabreytinganna, er 4. september, haldinn í húsnæði sem ekki er (enn) komið í svarta Airbnb-útleigu.

Skildu eftir skilaboð