Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Áhugaverð lesning. Eftir situr að þeir sem hafa fjallað um menntamál á síðum Morgunblaðsins tala í allt aðra átt en formaður KÍ, Magnús Þór Jónsson og formaður Félags grunnskólakennara Mjöll Matthíasdóttir.
Formaður Fg er svona hrifin af því sem ráðherra menntamála er að gera að hún virðist ekki halda vatni yfir því. Lesa má umsögn hennar í Samráðsgátt. Mjög líklegt er þau bæði hafi haft puttana í því sem ráðherra leggur fram.
Hermundur hefur mikið til síns máls þegar hann talar. Hann hefur rannsakað menntamál lengi. Velta má upp þeirri spurningu af hverju sauðirnir í Kennarahúsinu hlusti ekki meira á hann.
Hér má sjá brot af því sem sagt hefur verið um menntamálin.
„Málskilningur og orðaforði er hlutur sem þarf að vinna með allt frá fæðingu og þar til barnið fer út úr framhaldsskóla. Það virðist líka vera ábótavant, þessi orðaforði og skilningur.“
„Við erum eina landið fyrir utan Portúgal sem hefur fimm ára kröfu um leikskólakennaranám. Við verðum að minnka aftur námið niður í þrjú ár. Við verðum að setja kröfu um íslenskukunnáttu fyrir þá sem vinna í leikskólum landsins.“
„Á sama tíma og Brynhildur kallar eftir því að tekið verði á símanotkun í kennslustundum, leggur hún til að samdæmdu prófin verði aftur lögð fyrir nemendur. Hún segir mikilvægt að hafa mælieiningar til að meta árangur milli ára og sjá hvað þarf að bæta."
Að mati bloggara var það mikil afturför að lengja kennaranámið enda kemur það á daginn að fáir sæki inn í það. Fimm ár er langur tími fyrir ekki meiri laun en raun ber vitni. Að auki bætist sjaldan í sérhæfingu kennara með meistaragráðunni.
Öðruvísi kennaramenntaðir einstaklingar koma inn í skólakerfið. Nú koma þeir með bakkalárnám í öðru fagi, taka M.Ed. og verða kennara. Þá vantar alla undirstöðu í því sem kennaranámið (B.Ed.) býður upp á. Þetta er ekki sama kennaramenntunin og ef fólk fer í B.Ed. og síðan M.Ed. Það vantar undirstöðurnar í menntunina hjá þessum einstaklingum.
Höfundur er kennari.
One Comment on “Kennaraforystan talar ekki á þessum nótum”
Svíkjast um að kenna börnunum að lesa. Svíkjast síðan um að leggja próf fyrir börnin til þess að fyrri svikin komist ekki upp. En taka samviskusamlega við kaupinu sínu. Oj.