Neyðarréttargrundvöllur svo árum skipti

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

„Eftir því sem tíminn líður þá breytist staðan og við gerum meiri kröfur til þess að löggjafinn grípi inn í og málin fari í eðlilegt ferli. Við viljum ekki að landinu sé stjórnað á neyðarréttargrundvelli svo árum skipti. Á þetta er bent í barnabannsmálinu, að þetta getur verið í skamman tíma en ef þetta á að vera viðvarandi ástand þá eiga mál að fara í eðlilegan stjórnskipulegan farveg. Og það er Alþingi sem á að fjalla um viðvarandi skerðingar eða íþyngjandi reglur gagnvart borgurunum.“

Svona mælir fráfarandi umboðsmaður Alþingis og hefur lög að mæla, bókstaflega.

En því miður fara orð hans inn um eitt og út um hitt. Að stjórna á neyðarréttargrundvelli er hinn æðsti draumur yfirvalda. 

Við lifum til dæmis á tímum hamfarahlýnunar. Þetta er viðvarandi neyðarástand sem verður notað og nýtt í mörg ár til að taka af fólki bílinn, aðgengi að vegum, flugmiðana, kjötið og innfluttan varning. Ferlið er komið vel á veg og mun ekki stöðvast ef almenningur spyrnir ekki við fótum.

Það er víst í gangi einhver svakaleg bylgja fordóma og haturs gegn fullorðnu fólki sem kýs að skilgreina sig á annan hátt en líffræðin. Það þarf að bregðast við því neyðarástandi með því að taka af konum búningsklefana, salernin, íþróttirnar og jafnvel sjálfan móðurtitilinn. 

Eins og alltaf eru einhver átök í gangi í heiminum sem leysa úr læðingi flóttamenn. Þeir fá hvergi athvarf í nágrannaríkjunum og þurfa að koma í milljónatali til Evrópu og renna þar inn í velferðakerfið. Þetta er endalaust neyðarástand sem ríkið þarf að grípa inn í með því að yfirbjóða leiguverð til að koma nýja fólkinu að, og auðvitað beina velferðarkerfinu að því fólki frekar en skattgreiðendunum sem borga fyrir það.

Fólki fjölgar og bílunum með, en vegirnir haldast óbreyttir. Lausnin er auðvitað sú að bæta sköttum ofan á skatta til að koma efnaminna fólki út úr bílunum og í strætisvagna. Þetta neyðarástand mun vara að eilífu.

Vissulega eru í gangi allskyns neyðarsjóðir, varasjóðir, tryggingar og álíka. En þar með er ekki sagt að það séu í raun til úrræði þegar áin flæðir yfir bakka sína, sprungan leysir hraun í læðingi eða skriða fer af stað. Allt þetta, og fleira til, sem skellur reglulega á íbúum eldfjallaeyju. Nei, allir sjóðir eru tómir og eina ráðið að sækja enn einn yfirdráttinn og lýsa yfir neyðarástandi.

Neyðarréttargrundvöllur svo árum skipti. Áratugum. Að eilífu. 

Því annað er svo mikið vesen, fyrir yfirvöld.

Skildu eftir skilaboð