Páll Vilhjálmsson skrifar:
Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélagsins dregur tilbaka fyrri játningu um skattsvik. Á heimasíðu BÍ er eftirfarandi yfirlýsing frá henni:
Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur aldrei gerst sekur um skattalagabrot né gert sátt við skattyfirvöld. Ásakanir um annað eru tómur uppspuni og rógburður.
Hér er komist afgerandi að orði, ekkert skattalagabrot og engin sátt. En samt skattaundanskot og endurálagning.
Skattmál Sigríðar Daggar komust á dagskrá eftir tilfallandi blogg í fyrravor. Lengi vel þagði formaðurinn en sagði loks í Facebook-færslu í september fyrir ári:
Við hjónin fengum endurálagningu opinberra gjalda vegna útleigutekna fyrir nokkrum árum og greiddum þá skatta.
Endurálagning felur í sér að framteljandi hafi ekki talið rétt fram, skotið undan skatti. Í daglegu tali er það kallað skattsvik. Sigríður Dögg stundaði umfangsmikla útleigu á Airbnb. Hún gaf ekki upp leigutekjur til skatts.
Eftir Facebook-færsluna í september í fyrra neitaði formaðurinn að tjá sig frekar um skattamálin. Um áramótin flæmdi hún Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra og fyrrum formann BÍ úr starfi. Í frétt Mannlífs voru skattamál Sigríðar Daggar rædd. Við Mannlíf í janúar s.l. sagði formaður BÍ:
Eins og ég hef sagt opinberlega, þá fékk ég endurálagningu gjalda eftir að það voru gerðar athugasemdir um framtal mitt og ég ætla ekki að fara í það eitthvað efnislega af því að ég var ekki til rannsóknar hjá Skattinum, ég fékk enga sérmeðferð og er ekki sek um það sem ég er sökuð um þarna. Og þess vegna finnst mér ég ekki bera nein skylda til þess að veita upplýsingar um mín persónulegu fjármál.
Skattsvik eru samkvæmt skilgreiningu opinbert mál. Það er ekki ,,persónulegt" mál að telja rangt fram til skatts. Sigríður Dögg gegnir trúnaðarstöðu í samfélaginu. Fyrir hönd blaðamanna kemur hún fram gagnvart stjórnvöldum. Hún gerir kröfu um að peningar skattborgara séu teknir og færðir fjölmiðlum til að greiða blaðamönnum laun. En sjálf stundaði hún skattaundanskot. Tvöfeldni formanns Blaðamannafélagsins er augljós. Almenningur á að borga skatta til að blaðamenn fái laun en sjálf stingur hún undan skatti.
Það voru ekki smápeningar sem Sigríður Dögg kom sér undan að greiða í sameiginlegan sjóð landsmanna. Blaðamaður Viðskiptablaðsins hlustaði í janúar á viðtal við formanninn á Samstöðinni. Þar sagði Sigríður Dögg eftirfarandi um skattsvikin:
„Þetta voru alveg stórar upphæðir, ég viðurkenni það.“
Hvers vegna leggur Sigríður Dögg ekki spilin á borðið? Útskýrir fjárhæðirnar sem hún stakk undan skatti og á hve löngum tíma; hvað henni var gert greiða og með hvaða álagi.
Ef Sigríður Dögg kann eitthvað fyrir sér í blaðamennsku ætti hún að vita að enginn með mannaforráð kemst upp með að segja eitt í dag og annað á morgun um opinbert málefni. Skattamál Sigríðar Daggar verða fréttamál á meðan hún er formaður Blaðamannafélagsins og gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum. Formaður félags blaðamanna stórskaðar stéttina sem hann í orði kveðnu þykist vinna fyrir. Blaðamenn geta ekki krafið aðra sagna um opinber mál ef formaður þeirra segir það einkamál að fara á svig við lög og rétt.