Sigríður Dögg: 14 m. kr. til að réttlæta brottrekstur Hjálmars

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands missti starf sitt sem fréttamaður RÚV um síðustu áramót. Tilfallandi bloggaði í janúar í ár:

Víst er að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ræddi við Sigríði Dögg eftir að hún játaði á sig skattsvik með færslu á Facebook 11. september sl. haust. Faglegar spurningar vakna ef fréttamaður er uppvís að skattsvikum. Trúverðugleiki fréttastofu RÚV er í húfi. Er ríkisfjölmiðillinn í stakk búinn að fjalla um skattsvik annarra ef fréttamenn komast upp með að svíkja undan skatti án frekari umfjöllunar? Eru skattsvik fréttamanns einkamál en skattsvik annarra fréttamál?

Í fundi stjórnar RÚV 27. september síðast liðinn viðurkennir Stefán Eiríksson að hafa rætt við Sigríði Dögg eftir að hún játaði á sig skattsvik. Stefán hafði ekki frumkvæðið að upplýsa stjórnina heldur var hann inntur eftir máli fréttamannsins af stjórnarmanni. Fundargerðin er loðin um samtalið sem útvarpsstjóri átti við undirmann sinn. Þar stendur:

Útvarpsstjóri var spurður um umfjöllun í fjölmiðlum um starfsmann félagsins þar sem komu fram ásakanir á hendur viðkomandi. Útvarpsstjóri kvaðst hafa rætt við starfsmanninn og taldi ekki þörf á því að málið yrði skoðað nánar.

Orðalagið ,,taldi ekki þörf á að málið yrði skoðað nánar" er afhjúpandi. Útvarpsstjóri hefur fyrir sið að losna við fréttamenn, sem ekki eru húsum hæfir á Efstaleiti, en án þess að reka þá.

Frá áramótum var Sigríður Dögg svo gott sem launalaus. Hún hafði tekið sér hlutalaun sem formaður, áður var formennskan launalaus, en þurfti stórum meira enda með skattskuld á bakinu eftir svarta Airbnb-útleigu sem upp komst. Til að hækka eigin laun varð Sigríður Dögg að reka Hjálmar Jónsson sem á að baki langan og farsælan feril sem formaður og síðar framkvæmdastjóri. Sem hún gerði.

Til að réttlæta brottreksturinn ásakaði Sigríður Dögg Hjálmar um misferli í starfi. Ásakanir í garð brottrekins framkvæmdastjóra þurfti að undirbyggja. Sigríður Dögg keypti í því skyni þjónustu endurskoðenda og lögfræðinga upp á 14 milljónir króna. Ekkert saknæmt fannst og engin kæra lögð fram. Skattsvikarinn hélt samt áfram að ata auri heiðarlegan Hjálmar. Sérstakt eintak af manneskju, hún Sigríður Dögg.

Árstekjur Blaðamannafélagsins, félagsgjöld blaðamanna, eru um 40 milljónir kr. Herkostnaðurinn gegn Hjálmari, 14 milljónir kr., vegur þungt. Enn þyngra vegur þó stóraukinn launakostnaður eftir að Sigríður Dögg setti sjálfa sig á jötuna.

Heildarlaunakostnaður félagsins nam 36,5 milljónum króna árið 2022. Núna er launakostnaðurinn kominn yfir 50 milljónir króna, segir fyrrum framkvæmdastjóri.

Dæmið gengur ekki upp. Tekjur eru 40 milljónir en yfir 50 milljónir í launakostnað. Þá er ótalinn herkostnaðurinn gegn Hjálmari og almennur rekstur skrifstofu. Einnig er ótalin misheppnuð ímyndarherferð formannsins sem var andvana fædd í mars og enginn man eftir í apríl. Eina leiðin til að fjármagna óráðsíuna er að ganga á eigur BÍ. Þær eru um einn milljarður króna. Félagsmenn sem hafa byggt upp eignastöðuna síðustu áratugi hafa mótmælt hertöku Sigríðar Daggar og félaga. Svar formannsins er að svipta eldri félaga atkvæðisrétti á félagsfundum.

Sigríður Dögg rústar Blaðamannafélagi Íslands, bæði fjárhagslega og faglega.

One Comment on “Sigríður Dögg: 14 m. kr. til að réttlæta brottrekstur Hjálmars”

  1. Sá á blogginu að það var fundur hjá blaðamannafélaginu í gær þar sem Sigríður Dögg var að verjast vantrausti sem formaður einhverjar frekari fréttir af því?

Skildu eftir skilaboð