Ímam dæmdur fyrir að hafa gefið út fötvu og bandaríska dómsmálaráðuneytið sker upp herör gegn Hamas

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Rithöfundurinn Salman Rushdie er væntanlegur hingað til lands til að taka á móti verðlaunum kenndum við Halldór Laxness fyrir framlag sitt til heimsbóknenntanna, þar með talda hina marglofuðu bók Miðnæturbörn. Þekktastur er hann þó fyrir að Ruhollah Khomeini æðstiklerkur dæmdi hann til dauða árið 1989 fyrir guðlast. Með bók sinni Söngvar Satans átti Rushdie að hafa móðgað fylgendur Múhammeðs og síðast fyrir tveim árum var reynt að drepa hann með hnífi í New York. Núverandi æðstiklerkur Ali Khamenei lætur dauðadóminn standa og allar götur frá 1989 virðast menn hafa litið á það sem fullkomlega eðlilegan hlut að trúarleiðtogar í einu landi gætu dæmt ríkisborgara annars lands (Bretlands) til dauða fyrir að fjalla um eigin menningu eða öllu heldur menningarheima sína tvo í anda töfraraunsæis. Af hverju kemst Íransstjórn upp með þetta?

Annar þekktur maður er þurft hefur að lifa með dauðadóma leiðtoga múslima yfir höfði sér í ein 20 ár, Geert Wilders, hefur snúið vörn í sókn og tilkynnti á X hinn 9. september að hollenskur dómstóll hefði dæmt tvo pakistanska menn er höfðu kallað eftir drápi hans til fangelsisvistar, annan til 14 ára en hinn til 4 ára. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að sá gjörningur að teikna Múhammeð gæti ekki talist guðlast samkvæmt hollenskum lögum og því fullkomlega ólöglegt að kalla eftir drápi Wilders á þeim grundvelli. Samkvæmt Al Jazeera er það ímaminn Muhammed Ashraf Jalali, 56 ára, sem fékk 14 ára dóm fyrir að lofa fylgendum sínum ríkulegri umbun í Himnaríki þeim er kæmi Wilders yfir móðuna miklu og Saad Hussain Rizvi leiðtogi stjórnmálaflokksins Tehreek-e-Labbaik sem mun einnig kallað eftir aftöku hans. Trúlega fékk ímaminn þyngri dóm fyrir að hafa fötvu sína alþjóðlega (á ensku). Báðir er þessir menn að vísu öruggir í Pakistan en Wilders kallar eftir alþjóðlegri handtökuskipan á hendur þeim enda er hann loksins kominn til valda í hollenskum stjórnmálum, fékk 23.5% atkvæða í síðustu kosningum og varð flokkur hans þá stærstur á þingi.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hugsar sér einnig til hreyfings og hefur ákært sex leiðtoga Hamas fyrir að skipuleggja og styðja innrásina í Ísrael hinn 7 október síðastliðinn þar sem fleiri en 40 bandarískir ríkisborgarar voru drepnir en öðrum rænt og síðar drepnir í gíslingu, svo sem hinum 23 ára Hersh Goldberg-Polin. Samkvæmt skjölum dómsins er Harakat al-Muqawamah al-Islamiyya (oftast nefnt Hamas) erlend hryðjuverkasamtök og hafa verið skráð sem slík í Bandaríkjunum frá 1997. Frá stofnun 1987 hafi það verið yfirlýst markmið samtakanna að leggja Ísraelsríki undir sig með heilögu stríði, eða jíhad. Hamas hafi einnig hvatt til árása gegn BNA og borgurum þess í meira en tvo áratugi og drepið eða sært tugi Bandaríkjamanna á þeim tíma í vegferð sinni á braut ofbeldis og hryðjuverka. Þessi ákæra gegn leiðtogum Hamas sé sé bara byrjunin.

Í ákærunni eru tilgreind þau tilfelli þar sem Hamas hefur orðið bandarískum ríkisborgurum að bana. Þar á meðal eru sjálfsmorðsárásirnar í Jerúsalem 1996, sjálfsmorðsárásin á pízzustaðnum 2001 og sprengjuárásin í hebreska háskólanum 2002. Í henni er útlistað hvaða þátt sexmenningarnir hafa átt í hryðjuverkum gegn bandarískum ríkisborgurum. Þrír af þessum sex, Ismail Haniyeh, Mohammed Deif og Marwan Issa eru reyndar ekki lengur taldir meðal vor, Ísraelsher mun hafa séð fyrir því, en Yahya Sinwar hefur stjórnað á Gasa síðustu árin og er talinn halda sig þar neðanjarðar í gangakerfinu, Khaled Meshaal heldur sig í Katar og stjórnar aðgerðum utan Vesturbakkans og Gasa og Ali Baraka sem er sagður hafa verið fulltrúi Hamas í erlendum samskiptum hefur bækistöðvar sínar í Líbanon.

Wilders mun vera ánægður með að hafa loksins virkjað hollenska dómskerfið sér í hag. Auðvitað eiga ímamar eða ajatollar ekki að geta gefið út aftökufyrirmæli sem gilda fyrir allan heiminn og dómsmálaráðuneytið bandaríska virðist ætla að beita sér gegn Hamas sem hefur að sjálfsögðu ekki rétt til að drepa Bandaríkjamenn eða alla aðra sem standa í vegi þeirra í hinu heilaga stríði sínu undir merki Allah.

Skildu eftir skilaboð