Læsi er Leiðin til Lífs-Löngunar

frettinInnlent2 Comments

Kristinn Sigurjónsson skrifar:

Ástæðan fyrir þessum titli er að í dag, 10. sept er forvarnardagur gegn sjálfsvígum. Í aðdraganda hans er gulur september sem er til fræðslu um geðraskanir. Nú er ég enginn sérfræðingur í geðröskunum en veit að þunglyndi eykur líkur á sjálfsvígi og er Ísland með eina mestu notkun þunglyndislyfja í heiminum. En það eru fleiri ástæður fyrir því að fólk tekur líf sitt. Ég hef áður nefnt nokkrar þeirra eins og tálmun frá börnum sínum og/eða búa við tálmun frá foreldri sínu.

Blindgata skólanna

Á síðustu árum hefur mikið verið talað um ólæsi og sérstaklega drengja en ekkert gert. Prófessor í sálfræði við Háskólann í Þrándheimi þurfti að berjast nokkuð fyrir því að fá skóla til að innleiða kennslu sem kæmi betur á móts við hreyfiþörf nemendanna sem einkennir aðallega drengi. Eftir nokkra eftirgangsmuni fékk hann inni í einum skóla. Eftir heil þrjú ár, þegar það var búið að koma í ljós að árangurinn var framar öllum vonum, þá fékk hann inni hjá aðeins einum öðrum skóla.

Margar nefndir hafa verið skipaðar og síðast var fenginn gagnafræðingur, Tryggvi Hjaltason og faðir drengja, til að skoða málið. Það var mjög athyglisverður punktur í skýrslunni sem er að ef drengir fengu áhugavert verkefni þá skorti ekki ákafann og viljann til að leysa það en drengirnir sáu ekki tilganginn með náminu. Eina umræðan sem varð um þessa skýrslu var að hann væri ekki fagmaður, þótt við séum búin að horfa upp á það í áratugi að fagfólkið væri algjörlega búið að eyðileggja menntakerfið og hitt umræðuefnið var kostnaðurinn við skýrsluna, eins og það væru bein laun hans. Þessi umræða bæði af fagaðilum og fjölmiðlum er algjörlega í samræmi við árangur kennslunnar og í samræmi við vanhæfi umfjöllunaraðilanna. Það er ljóst að þessi niðurferð á sér margar skýringar, eins og t.d. „skóli án aðgreiningar“ þar sem ólíkum nemendum er blandað saman. Síðustu árin hafa snjallsímar og samskiptaforrit fangað athygli nemendanna.

Úrræðaleysi skólanna

Við þessu hefur ekki verið brugðist og því á myndefni greiða leiða til nemendanna. Myndefnin eru gerð til að fanga athyglina án þess að nemandinn þurfi nokkuð að setja sig inn í málið, heldur er verið að búa til eftirsóttarverða ímynd.  Fyrir drengi er þetta gjarnan hver er mesti töffarinn og harðasti naglinn en hjá stúlkum hver er fallegust og með mesta glamúrinn.  Viðkomandi lítur alltaf í lægra haldi gagnvart þessum samanburði, og kemst þá út í lífið ólæs og vanmáttugur sem veldur mikilli vanlíðan.

Fjölmiðlar einblína bara á ofbeldið, sem er birtingarmynd drengjanna, en ekki á hvernig einelti og ögrun sem er birtingarmynd stúlkna, allt til að upphefja sig til fyrirmyndanna á samfélagsmiðlunum. Fyrir þau sem ekki hafa andlegan styrk til að ná ekki þessum sýndarofurmönnum og konum, en eru bara venjulegir unglingar, þá verður þetta þrautinni þyngri og hætta á að viðkomandi annaðhvort ánetjist geðlyfjum eða taki sitt eigið líf.

Markmið leiða lífslöngun

Það er gríðarlega mikilvægt hverjum einstaklingi að hafa tilgang í lífinu, markmið til að keppa að, og ef það er ekki til staðar, þá er hvorki fótfesta né kjölfesta í lífinu. Markmiðin geta verið hvað sem er, drengir heillast meira af líkamlegri virkni eins og fjallaklifri eins og hjá leiðsögumönnum og björgunarsveitum slökkviliðsstörfum, aðrir af tækni, konur hafa önnur áhugamál, þótt þau skarist nokkuð.  Lykilatriði til að tileinka sér áhugamálið er læsi og aftur læsi. Þótt hægt sé að sjá mjög mikið á myndskeiðum eins og Youtube þá er ólæsi gríðarlegur þröskuldur í að leita og tileinka sér áhugavert efni.

Það skiptir því gríðarlega miklu máli í upphafi að börnin „læri til stafs“ og nái grunnlæsi. Mikið er til af myndskreyttum bókum til þess og Tryggvi sagði á Facebook síðu sinni frá nýju forriti, lestölvuleiknum Graphogame, sem hefur slegið í gegn og er komið á íslensku.  Þegar börnin nálgast unglingastigið þá byrjar keppnin við samfélagsmiðlana.  Þá verður skólinn að gera sér grein fyrir að kynin eru mismunandi og kennarar verða að höfða til mismunandi nemenda.  Fyrir nokkrum áratugum var líka til fyrirtæki, Kennsluforrit, sem gaf út forrit til að kenna börnum reikning með myndrænum leikjum í tölvum.  Það var enginn áhugi fyrir þessu og við erum að sjá afleiðingarnar, nemendur geta hvorki lesið né reiknað.

Hvað er til ráða?

Læsi er ekki nóg til að auka lífslöngunina, það þarf líka að vekja áhuga nemendanna á verkefnum sem þeir geta leyst.  Hér kemur munur kynjanna inn.  Í gegnum tíðina hefur verið reynt að fá drengi til að hugsa eins og stúlkur, þeir eiga að vera kurteisir í orði, þeir mega ekki slást, kynjafræði sem fjallar um feðraveldið og að karlmenn séu vondir ofbeldismenn og svo eiga þeir að kynna sér kynlífsfræði sem er skrifuð af konum, kennd af konum á forsendum kvenna og nú síðast er það 3. vaktin sem bíður drengjanna.

Kennarasamfélagið er hissa á því að drengir nenni ekki að tileinka sér þetta, heldur hafa þeir áhuga á fjallferðum, mótorhjólum og öðrum vélbúnaði eins og í skipum, gröfum, jarðgangagerð og orkumálum svo fátt eitt sé nefnt.  Í þessum er hafsjór hugmynda sem drengir hafa áhuga á, en þá þarf að hafa kennara sem hefur möguleika á að tengja þetta við skólabækurnar.  Það vakti því athygli mína að núna í haust auglýsti Kennarasambandið mjög að það vantaði kennara, en það var ekki minnst einu einasta orði á að það væri nauðsynlegt að fá karlmenn í kennslu. 

Það er ekki farið leynt með þetta kynjaójafnvægi þegar stúlkum er boðið í kynningarferð í tæknideildir háskólanna og drengirnir niðurlægðir með því að láta þá sitja eftir í skólanum og leiðast.  Niðurlæging drengja á sér engin takmörk, við verðlaunaafhendingar eru stúlkurnar skipaðar á sviðið en drengirnir sitja niðurlægðir úti í sal samanber fréttina: Strákarnir fengu að fylgjast með verðlaunaafhendingunni. Nú í haust var HÍ að veita styrk til nemenda og það voru nánast eingöngu stelpur. Er nema von að drengir sjái engan tilgang í náminu, kennslukonurnar ná ekki til þeirra og skilja þá ekki og þegar þeir svo eldast án þess að hafa notið nokkurrar menntunar lenda þeir í tilvistarkreppu.   Þeir sem eru sterkari á geðsviðinu en ekki í bókvitinu leiðast út í ofbeldi en þeir sem eru það ekki verða frekar fyrir einelti og leiðast út í óreglu eða taka sitt eigið líf. 

Nú í haust var viðtal við Tý sem rak Götusmiðjuna og hann sagði frá því hvernig þessir drengir lenda á götunni en svo var fótunum líka kippt undan honum eins og drengjunum í skólakerfinu.  Það var áhugavert viðtal við forstöðumann Fjölsmiðjunnar skömmu seinna þar sem hann var með þessa drengi sem skólakerfið hafði snúið bakinu við.  Hann sagði hvernig þessir drengir (og líka stúlkur) hefðu fundið sig þegar þeir voru í líkamlegri vinnu, höfðu hlutverk og tilgang en þurftu ekki að sitja kyrrir tímum saman á skólabekk og hlusta á efni sem þeir höfðu engan áhuga á.

Miðað við það sem ég heyri í fjölmiðlum þá óttast ég að sama fólkið og hefur séð um þessi mál síðustu áratugina muni halda áfram, og halda marga fundi til að ræða málin og það mun ekkert breytast.

Höfundur er kennari til áratuga, bæði í framhaldsskóla og háskóla.

2 Comments on “Læsi er Leiðin til Lífs-Löngunar”

  1. Skepnurnar sem eru allra skyldastar okkur líffræðilega (já, við vitum hverjar þær eru) skiptast eðlilega í karlkyn og kvenkyn. Allskonar leikföng mannanna barna voru skilin eftir handa þeim í skógarrjóðri. Þegar dýrin (sem eru langskyldust okkur líffræðilega) þorðu niður úr trjánum hrifsuðu kvendýrin dúkkurnar en karldýrin vélarnar. Þessi tilraun hefur verið margendurtekin. Niðurstaðan er ævinlega sú sama. Er hún afleiðing ,,innrætingar feðraveldisins?“ Ónei.

  2. Mikil speki og vísdómur í þessum pistli. Man ekki betur en Margrét Pála hjá Hjallastefnunni hafi líka talað svolítið á þessum nótum líka. En eitt er alveg morgunljóst að þessi stefna að allir eigi að vera eins, óháð kyni og getu, hefur gegngið sér til húðar og við sitjum uppi með afleiðingarnar. Það er nauðsynlegt að mæta unga fólkinu á þeirra stað og sviðum og virkja þau þar sem áhugasviðið og hæfileikar þeirra eru. Þeir sem eiga auðvelt með að læra í barnaskóla venjast á að þurfa ekkert að hafa fyrir náminu og og beinlínis kunna ekki að „læra“ þegar námsenfið verður flóknara. Hafa aldrei þurft þess, og fá ekki efni sem reynir á. Þeir sem þurfa mest að hafa fyrir náminu fá ekki þá aðstoð og útskýrirngar sem þeir þurfa því einn kennari í 20-25 nema hóp er upptekinn einhvars staðar í miðjunni.
    Stefnan nú virðist vera að koma öllum gegnum stúdendspróf og í háskóla í stað þess að nýta áhugasvið og getu í verklegum greinum í t.d. iðnnámi. Of margir af allt of mörgum lögfræðingum í ráðherrastöðum gera sér enga grein fyrir hverslu mikilvægt iðnnámið er hverri þjóð. Nú virðist stefnan vera að afnema í sem flestum greinum þau réttindi sem iðnámið hefur veitt með tilheyrandi auknu fúski.

Skildu eftir skilaboð