Páll Vilhjálmsson skrifar:
Sakborningarnir í byrlunar- og símastuldsmálinu kynna að líkindum nýja útgáfu af sakleysi sínu næstu daga. Þeir hittust á framhaldsaðalfundi Blaðamannafélags Íslands í síðustu viku að bera saman bækur sínar. Það veit á tíðindi úr þeirra herbúðum. Frá í sumar, þegar Þórður Snær birti færslu um að hann væri leiður, hefur ekkert heyrst frá sakborningum.
Nú er tekið að hausta og má búast við sprikli. Sakborningar eru fimm, svo vitað sé: Þórður Snær Júlíusson fyrrum ritstjóri Kjarnans/Heimildar; Þóra Arnórsdóttir á RÚV, nú Landsvirkjun; Aðalsteinn Kjartansson, var á RÚV en hóf störf á Stundinni þrem dögum fyrir byrlun Páls skipstjóra, nú á Heimildinni; Arnar Þór Ingólfsson, Kjarninn/Heimildin og Ingi Freyr Vilhjálmsson Stundin/Heimildin, nú á RÚV. Sjötti blaðamaðurinn, Helgi Seljan, er viðriðinn málið en ókunnugt er um réttarstöðu hans.
Þórður Snær er hvað liprastur sakborninga að skálda frásagnir og er óopinber talsmaður hópsins. Hann kvaðst hafa verið handtekinn af sveit eyfirskra lögreglumanna og færður í járnum norður yfir heiðar. Sigríður Dögg formaður BÍ var hjálpleg með skáldskapinn. Þau fengu danska blaðamanninn Lasse Skytt til að selja frásögnina til útlendra miðla. Ekki fór það vel, raunar afar illa.
Vegferð Þórðar Snæs um lendur dómstóla, til að þagga niður í tilfallandi, endaði í síðustu viku með úrskurði hæstaréttar.
Er tilfallandi hóf frásögnina af byrlunar- og símastuldsmálinu, haustið 2021, skrifaði Þórður Snær breiðsíðu: Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Eftir að ritstjórinn varð sakborningur, í febrúar 2022, taldi hann lögreglu vilja upplýsingar um heimildarmann blaðamanna. Lögreglan vissi í upphafi hver heimildarmaðurinn var, andlega veika konan sem byrlaði og stal. Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af réttarstöðunni sýnir Þórður Snær á spilin:
Að sama skapi furðar hann [Þórður Snær] sig á því að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks sé einnig í hópi þeirra [sakborninga] í ljósi þess að það voru fyrst og fremst Kjarninn og Stundin sem greindu frá þessum gögnum.
Kjarninn og Stundin birtu fyrstu fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans samtímis morguninn 21. maí 2021. Einhver sá um að skipuleggja þessa ,,tilviljun". Í frétt Þórðar Snæs og Arnars Þórs í Kjarnanum segir að gögn hafi borist frá þriðja aðila. Einhver er þessi þriðji aðili.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021 samkvæmt skipulagi. Þóra Arnórsdóttir á Kveik var búin að kaupa Samsung-síma, sem notaður var til að afrita síma skipstjórans, áður en byrlun fór fram. Skipulagið gekk út á að stela, afrita og skila tilbaka símanum á sjúkrabeð Páls.
Sakborningar fá fyrstir vitneskju er lögreglurannsóknin kemst á næsta stig. Kallaðir til skýrslutöku verða þeir er hæfir þykir að bregðist við nýjum gögnum. Boðað er til yfirheyrslu með 2 til 5 daga fyrirvara. Stundum er fyrirvarinn lengri. Næst þegar sakborningar láta í sér heyra má gera ráð fyrir að einhverjir þeirra hafi verið boðaðir. Tilfallandi lesendur geta borið saman nýjustu útgáfu sakaborninga við það sem þeir hafa áður sagt, yfirleitt með Þórð Snæ sem talsmann.
Eina útgáfan sem sakborningar hafa ekki reynt að setja á flot er sannleikurinn um atburði vorsins 2021. Óneitanlega yrði tilbreyting að sjá og heyra blaðamenn segja satt.