Lygasaga fyrir nýnazita

frettinBjörn Bjarnason1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Skoski sagnfræðingurinn, rithöfundurinn og prófessorinn Niall Ferguson birti nýlega langa grein á bandarísku vefsíðunni Free Press undir fyrirsögninni: History and Anti-History – Sagnfræði og andsagnfræði.

Hann segir að í hlaðvörpum sé ekki blásið nýju lífi í söguna eins og oft sé fullyrt nú á dögum. Flest hlaðvörp séu að drukkna í blaðri sem einkennist í besta falli af óvandvirkni en í versta falli af lygi.

Tilefni langrar greinar Fergusons er samtal bandaríska sjónvarpsmannsins og Trump-aðdáandans Tuckers Carlsons, fyrrverandi stórstjörnu Fox News, við mann að nafni Darryl Cooper sem Carlson kynnti sem „mikilvægasta alþýðusagnfræðing Bandaríkjanna um þessar mundir“.

Ferguson segist aldrei hafa heyrt um Cooper fyrr en nú í byrjun september og hann hafi ekki orðið neins vísari þegar hann leitaði að bókum eftir hann – hann hafi ekki gefið út neinar. Á Wikipediu sé sagt að Cooper hafi skrifað leiðarvísi um hvernig megi nota Twitter en Carlson hafi sagt að Cooper nýtti sér miðla eins og Substack, netvettvang þar sem hver sem er getur birt efni sbr. t.d. blog.is, X og hlaðvörp.

Ferguson blöskrar réttilega það sem Cooper segir „opinbera sögu“ um leið Hitlers til valda. Hún er í stuttu máli þessi: Einu sinni var Þýskaland „margbrotið, menningarlegt risaveldi“. Síðan gerðist það eftir fyrstu heimsstyrjöldina og Weimar-lýðveldið að „þeir breyttust allir í djöfla í nokkur ár og nú eru þeir aftur í lagi“.

Ferguson segir að samtal þeirra Carlsons og Coopers sé ekki sagnfræði heldur andstæða hennar. Darryl Cooper beri á borð alls kyns furðuskoðanir sem eigi næstum ekki við neinar sögulegar staðreyndir að styðjast og geti aðeins vakið áhuga þeirra sem viti svo lítið um fortíðina að þeir telji hann hugrakkan endurskoðunarsinna í stað þess að ýta undir hreyfingu nýnazista. Cooper endurskoði ekki söguna heldur spinni lygasögu.

Sir Winston Chiurchill.

Illmennið í sögu Coopers er ekki Hitler heldur Winston Churchill sem varaði af eldmóði við hættunni af Hitler og leiddi Breta og bandamenn til sigurs á honum.

Ferguson segir í lokin að það megi líta á það sem fagleg mistök eftir þriggja áratuga skrif, kennslu og fyrirlestra um sögu 20. aldarinnar að hafa náð svo litlum árangri að kvikindislegt smámenni sem taki málstað nazista eins og Darryl Cooper skuli ná til milljóna hlustenda. Það gerist hins vegar greinilega þegar hlaðvörp komi í stað bóka og andsagnfræði í stað sagnfræði. Hann hryllti við tilhugsuninni.

Í The Telegraph í dag (10. september) er lýst viðbrögðum við hlaðvarpi þeirra Tuckers og Coopers sem dró að sér tugi milljóna áhorfenda á X. Elon Musk, eigandi X, lýsti velþóknun sinni en fjarlægði færsluna síðar. Talsmaður Bandaríkjaforseta kenndi boðskapinn við sadisma og sagði hann fyrirlitlegan.

Max Hasting, höfundur ævisögu Churchills og sögu annarrar heimsstyrjaldarinnar, sagði að Darryl Cooper vissi ekkert um Churchill eða heimsstyrjöldina. Hann vildi aðeins verða frægur með endemum eins og margir í hlaðvörpum og besta svarið væri að hundsa þá.

One Comment on “Lygasaga fyrir nýnazita”

  1. Churchill hvað, þsð voru augljoslega Sovetmenn sem sigruðu nasista…

Skildu eftir skilaboð