Sigríður er hlutdræg í máli Helga Magnúsar

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson4 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir sér til málsbóta í Helga máli Magnússonar vararíkissaksóknara að hún starfi eftir ,,einkunnarorðum ákæruvaldsins um óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi."

Nei, í máli Helga Magnúsar er Sigríður hlutdræg og er staðin að óheilindum. Enn síður er hún sjálfstæð heldur fangi orðræðu sem í eðli sínu er pólitískur aktívismi. Lítum nánar á málsatvik.

Helga mál Magnúsar byrjar með kæru Semu Erlu sem rekur einkafélagið Sólaris. Sjálf er Sema Erla til rannsóknar vegna mútugjafa. Kjarni kæru Semu Erlu Sólaris til ríkissaksóknara er eftirfarandi:

Sam­tök­in [Sólaris] telja að um­mæl­in feli meðal ann­ars í sér róg­b­urð og smán­un vegna þjóðern­is­upp­runa eða þjóðlegs upp­runa, litar­hátt­ar, kynþátt­ar eða trú­ar­bragða sem og ærumeiðing­ar sam­kvæmt al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um.

Sema Erla er aðgerðasinni, ekki hlutlaus eða óhlutdrægur aðili. Hún er til rannsóknar vegna mútugjafa á erlendri grund. Múturnar voru greiddar embættismönnum í Egyptalandi til að veita frjálsa för Palestínuaraba sem Sema Erla og Sólaris fluttu til Íslands án þess að hafa til þess nokkra heimild. Múhameð Kourani, ofbeldismaður sem Helgi Magnús gagnrýndi að héldi landvist eftir afbrotasögu, er skjólstæðingur Semu Erlu.

Hvað gerir Sigríður ríkissaksóknari? Jú, hún tekur kæru Semu Erlu góða og gilda og sendir ósk til dómsmálaráðherra um að Helgi Magnús verði leystur frá störfum. Engin rannsókn, enginn rökstuðningur. Túlkun aðgerðasinna á orðum Helga Magnúsar er tekin góð og gild. Fáheyrð er handvömm æðsta handhafa ákæruvaldsins.

Ekki þarf djúpa lögskyggni til að átta sig á hvers vegna Sigríður leggur ekki fram neinar lögskýringar í málinu. Ekki heldur tefla opinberir málsverjendur Sigríðar fram lagarökum um meint afbrot Helga Magnúsar, t.d. Róbert Spanó. Sigríður, Spanó og líkt þenkjandi láta sér nægja að hneykslast að hætti aktívistatepru. Móðgunarréttlæti er af sama stofni og múgsefjun.

Kæra Semu Erlu vísar ekki í tiltekna lagagrein. Orðalagið, sjá hér að ofan, er þó bein vísun í afar umdeilda lagagrein sem ýmsir sérviskuhópar og lífsskoðunarfélög, t.d. Samtökin 78, vilja breyta til að auðveldara sé að svipta menn æru og atvinnu sem gagnrýna pólitískan rétttrúnað, öðru nafni vók.

Umrædd lagagrein er nr. 233 a. í almennum hegningarlögum:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Sigríður ríkissaksóknari hefur gert tilraunir með þessa lagagrein, sem stundum er kennd við hatursorðræðu, en yfirleitt farið bónleið til búðar í réttarsal. Hér er um að ræða lagalegt jarðsprengjusvæði. Lagagreinin er hlaðin huglægum viðmiðum. Hæðni, rógur og smánun eins er réttmæt gagnrýni annars. Andspænis lagagreininni stendur skýlaus réttur borgaranna, varinn í stjórnarskrá, að tjá hug sinn um menn og málefni.

Lagagreinin er skilgetið afkvæmi gamalla laga um guðlast, sem felld voru úr gildi 2015 eftir að hafa verið marklaus í áravís. Pólitíski rétttrúnaðurinn, sem byggir í besta falli á sérvisku en oftast fávisku, reynir að fá lagavernd líkt og steingeld trúarbrögð. Málefni sem ekki þola gagnrýna umræðu eru einatt ruslahrúga hindurvitna, andlegur afturúrkreistingur.

Allt þetta veit Sigríður ríkissaksóknari enda á fagsviði hennar, gott ef ekki persónulegt áhugamál. Þess vegna rökstuddi hún ekki ósk sína til ráðherra um að víkja Helga Magnúsi úr embætti. Í staðinn gerði Sigríður orð Semu Erlu að sínum. Sema Erla er sjálfskipaður réttlætisriddari með fullan munn af staðleysu. Áfall er fyrir almenning í landinu að ákæruvaldið sé í höndum einstaklings sem kann ekki skil á froðu og haldbærum rökum, kastar sér dómgreindarlaust út í nornapott aktívista.

Ríkissaksóknari stendur ekki undir einkunnarorðum embættisins um óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi.

4 Comments on “Sigríður er hlutdræg í máli Helga Magnúsar”

  1. Það er fátt ef ef þá eitthvað sem skrifað er í fjölmiðla skemmtilegra en það sem kemur frá Páli Vilhjálmssyni. Þar að auki kemur alltaf á daginn að það er allt rétt.

  2. Sammála þér Viktor .. Fyrsta sem ég geri á hverjum morgni er að skoða bloggið hans.. Gott að byrja daginn með rödd skynseminar þó maður sé ekki alltaf 100% sammála honum þá virðist hann alltaf segja sem þarf að segja en engin segir það.

  3. Sammála þeim Viktori og Trausta hér að ofan. Páll er langbeittasti penninn á landinu. Það kemst enginn „starfandi blaðamaður“ með tærnar þar sem hann hefur hælana. Ekki nálægt því, má raunar sega að þar vanti heilu fótsporin á milli, svo myndlíkindin séu útfærð.
    Það var mikill missir fyrir nemendurna í Garðabæ að missa svona þjóðfélagsrýni úr lærifeðrahópnum.

  4. Vel skrifuð grein hjá Páli, ég tek undir með mönnunum hér að ofan!

    Það er nú reyndar sorgleg staðreynd að menn þurfa ekki að leggja mikið á sig til að skrifa betri greinar enn almennir stjörnu blaðramenn íslenskra fjölmiðla, þeir eru sennilega með skítugusta rassgatið á samfélaginu og lánglíklegastir að fá saursíkingu í heila vegna nálægðar hans við stjörnuna.

    Helgi Magnússon er réttu megin borðsins, Sigríður Friðjónsdóttir er búin að veikja embætti ríkissagsóknara með þessari árás á vara ríkissagsóknara, það á að vikja henni úr starfi fyrir þessi afglöp, svona framkoma sem er byggð á eingum heilbrigðum rökstuðningi á ekki að líðast!

    Hér er eitt gott dæmi um lögleysuna í bananalíðveldinu Íslandi!
    https://www.visir.is/g/20242622088d/land-spitalinn-telur-heimildir-log-reglu-ekki-hafnar-yfir-allan-vafa

    Mig skal ekki undra að allt þetta helvítis aktivismalið nái sínu fram, þessi óværa er búin að taka yfir landið!

    SVEIATTANN!!!

Skildu eftir skilaboð