Vill Djúpríkið Trump feigan?

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Það var aftur reynt að myrða Donald Trump, nú í Flórída þar sem hann hugðist stunda golf sér til heilsubótar. Mbl.is er með ítarlega umfjöllun um það mál. Ríkisstjóri Flórída segir að fylkið muni setja á stofn sérstaka rannsóknanefnd til að komast að því hvernig annar byssumaður komst í skotfæri við forsetaframbjóðandann á stuttum tíma. Hinn 13 júlí var gerð við Trump morðtilraun er hann var á kosningafundi í Butler, Pennsylvaníu. Skotmaður skaut átta skotum af þaki byggingar í um 75 metra fjarlægð og hitti í eyra Trump en drap einn fundargesta og særði aðra.

Leyniþjónustan hefur legið undir ámæli um slæleg vinnubrögð og þurfti forstjóri hennar, Kimberly Cheatle, að segja af sér í framhaldinu en hún var sögð höll undir DEI ráðningar og konurnar sem settar voru í að verja Trump þóttu bæði lítt þjálfaðar og allt of smávaxnar til að nýtast sem vörn gegn byssukúlum. Sett hefur verið upp rannsóknanefnd og hefur Fox News eftir Richard Blumenthal öldungadeildarþingmanni demókrata að er frumskýrslan um morðtilræðið komi út þá muni hún bæði hneyksla Bandaríkjamenn og ganga fram af þeim.

Níu punkta aðgerðaáætlun
  1. Trump hefur verið óspar á yfirlýsingar um að komist hann aftur til valda þá muni hann hreinsa til í Washington, "drain the swamp" eins og hann orðar það; núna viti hann hvar óvinir liggi á fleti fyrir. Newsmax segir frá því að á kosningafundi í Wisconsin hafi hann lagt fram níu punkta aðgerðaáætlun:
  2. Efst er þar á lista að taka á misbeitingu dómskerfisins gegn pólítískum andstæðingum, svo sem kristnum sem hafi verið fangelsaðir fyrir að biðja á almannafæri. Komist hann aftur til valda þá skuli Dómsmálaráðuneytið beita sér gegn glæpagengum og hryðjuverkamönnum en hætta að ofsækja republikana, eins og hann sjálfan. Næst kemur að endurvekja málfrelsi í landinu. Búrókratar er staðið hafi fyrir þöggun verði reknir.
  3. Í þriðja lagi vill hann losna við stríðsmangarana og hreinsa til í hergagnaiðnaðinum. "Við höfum fólk sem vill stöðugt fara í stríð" sagði hann. Menn viti af hverju - flaugarnar kosti jú skildinginn og sagði að sjálfur hafi hann ekki staðið fyrir neinum stríðum.
  4. Fjórða mál á dagskrá væri að draga úr valdi búrókrata alríkisins. Hann myndi að tillögu Elon Musk setja á stofn nefnd er meta skyldi frammistöðu (m.a. fjárhagslega) mismunandi sviða alríkisins.
  5. Fimmti þátturinn væri að taka menntamálin í gegn og hætta innrætingu nemenda. Leggja skyldi Menntamálaráðuneytið niður og færa stjórn skólamála til fylkjanna.
  6. Liður númer sex er að leggja af jafnaðarpólitíkina sem mismuni Bandaríkjamönnum á grundvelli litarháttar og/eða kyns. Taka skuli gömlu hæfniviðmiðin upp aftur.
  7. Sjöundi liður gengur út á að vinna með Robert Kennedy við að taka á spillingu í stofnumum tengdum heilsu manna, svo sem Matvælaeftirlitinu og WHO. Þeir muni kalla til færustu sérfræðinga til að komast að því hvað valdi bágbornu heilsufarsástandi þjóðarinnar, þar með töldum sjálfsofnæmissjúkdómum, einhverfu, offitu, ófrjósemi og fleiru.
  8. Atriði númer átta felst í að biðja þingið að setja reglur sem kæmu í veg fyrir að stjórnmálamenn gætu misnotað stöðu sína til að herja út fé hjá erlendum ríkisstjórnum eins og Biden fjjölskyldan hefði gert.
  9. Að lokum vill hann endurbætur á 25. viðauka stjórnarskráinnar í þá vegu að ef varaforseti taki þátt í samsæri um að hylma yfir vangetu forseta til að valda starfi sínu þá útiloki það hann frá embætti.

Það er margt í aðgerðaáætlun Trump sem gæti komið illa við meðlimi Djúpríkisins. Engin stríð er martröð fyrir hergagnaframleiðendur, vókistarnir vilja að sjálfsögðu halda áfram að boða sína hugmyndafræði í skólunum og þjóð sem verður heilbrigðari skilar ekki jafn miklu til lyfjarisanna. Já, það eru margir valdamenn sem hafa góða ástæðu til að vilja hann feigan.

One Comment on “Vill Djúpríkið Trump feigan?”

  1. Það er ekki nýtt í sögunni að menn vilji drepa þá sem gott vilja gjöra. Það var reynt að drepa Krist skömmu eftir fæðingu, og nánast allir lærisveinar hans aflífaðir á hryllilegann hátt. Hörmulegt að illskan skuli ekkert hafa minnkað í 2000 ár. Er mannkynið að þróast ? Held varla.

Skildu eftir skilaboð