Páll Vilhjálmsson skrifar:
Bloggið í gær, RÚV vegur að nýlátnum manni, er það mest lesna í 20 ára sögu Tilfallandi athugasemda. Viðbrögðin eru öll á einn veg. Fólk skilur ekki hvað RÚV gengur til með rætnum athugasemdum í andlátsfregn. Frétt RÚV birtist í morgunsárið á fimmtudag og var flutt í hádegisfréttum sama dag. Strax um morguninn höfðu vinir og ættingjar Benedikts heitins Sveinssonar samband við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóra.
Tilfallandi fékk leyfi til að birta dæmi um tölvupósta sem kurteist en ákveðið benda á að hér hafi RÚV farið yfir öll velsæmismörk. Enginn tölvupóstanna er frá kjarnafjölskyldu Benedikts heitins. Persónugreinanlegar upplýsingar eru felldar út.
Stefán Eiríksson og Heiðar Örn Sigurfinnsson
Ég get ekki orða bundist yfir lágkúru Ríkisútvarpsins í fréttaflutningi af andláti [ættingja] míns, Benedikts Sveinssonar. Að fréttastofan skuli tilkynna andlát hans og í sömu andrá nefna barnaníðing til sögunnar er með ólíkindum. Annað hvort stafar þetta af lélegum vinnubrögðum fréttamannanna Brynjólfs Þórs Guðmundssonar og Markúsar Þ. Þórhallssonar eða af getuleysi þeirra til að skilja á milli pólitíkur og starfa sinna. Hvort sem er þá eigið þið, Stefán og Heiðar, að hafa manndóm til að biðja fjölskyldu Benedikts Sveinssonar opinberlega afsökunar á þessari framkomu fyrir hönd RÚV. Þar breytir engu þótt búið sé að breyta fréttinni á vef RÚV enda var upprunaleg útgáfa hennar lesin í hádegisfréttum.
Virðingarfyllst
Ágæti Útvarpsstjóri
Frétt um andlát Benedikts Sveinssonar í hádegisfréttum í dag finnst mér vera svo ósmekkleg og svo langt fyrir neðan virðingu Útvarps allra landsmanna að engu tali tekur.
Að kasta rýrð á látinn mann á meðan hann hefur ekki einu sinni fengið greftrun er ekki siðaðra manna háttur. Það er ósmekklegt í meira lagi.
Ég hef verið hlustandi RÚV í hartnær 80 ár og verð að viðurkenna að ég minnist tæplega svona lágkúru og að viðeigandi fréttamenn hugi ekki örlítið að virðingu við látinn sómamann, fjölskyldu hans og vini og það innan við tveimur dögum eftir andlátið.
Mér finnst augljóst, að þú, sem æðsti maður Útvarpsins, biðjist afsökunar fyrir hönd fréttamanna og/eða fréttastofunnar.
Með virðingu
Góðan dag Stefán og Heiðar Örn.
Oft hef ég furðað mig, og stöku sinnum hneykslast en nú get ég ekki orða bundist yfir umfjöllun fréttastofu RÚV - að þessu sinni yfir umfjöllun í hádegisfréttum útvarps um andlát Benedikts Sveinssonar. Einhverra hluta vegna þótti fréttaskrifara Ríkisútvarpsins fara vel á því í örstuttri - kannski 40 sekúndna langri umfjöllun um andlát Benedikts að spyrða hann við dæmdan kynferðisafbrotamann. Það þykir mér óviðeigandi og ómaklegt.
Við [nafn fellt út], eiginkona mín, hlustuðum á þetta í forundran og veltum fyrir okkur hversu langt pólitísk óvild einstakra manna á Ríkisútvarpinu í garð Sjálfstæðisflokksins, og ekki síst í garð Bjarna Benediktssonar, getur dregið menn í foraðið. Býsna langt greinilega.
Ef málið tengdist mér persónulega - ef hér væri um að ræða föður minn - myndi ég fara fram á opinbera afsökunarbeiðni.
Fyrir utan hvernig umfjöllun Ríkisútvarpsins lítilsvirðir minningu nýlátins manns og skapar að ósekju hugrenningatengsl hjá hlustendum Ríkisútvarpsins milli Benedikts Sveinssonar og "dæmds kynferðisafbrotamanns" - nokkuð sem nær ómögulegt er að verjast eða leiðrétta jafnvel þótt raunveruleg málsatvik fengju einhverja umfjöllun - ýtir þess háttar framferði Ríkisútvarpsins undir það eitraða andrúmsloft sem við búum við í opinberri umræðu og fælir marga hæfa einstaklinga frá því að taka þátt og gefa kost á sér í pólitísk embætti. Allt er þetta í litlu samræmi við hlutverk og tilgang Ríkisútvarpsins.
Virðingarfyllst.
Þrátt fyrir tölvupóstana lét RÚV ekki segjast og hélt til streitu að ríkisfjölmiðlinum væri i sjálfsvald sett að fjalla um nýlátinn mann á þann hátt sem lagt var upp með á fimmtudag. Heiðar Örn skrifaði staðlað svarbréf við þessum tölvupóstum, og öðrum, og varði gjörninginn, sjá blogg gærdagsins. Stefán útvarpsstjóri svarar ekki.
Á Efstaleiti er ekki allt í lagi.