Geir Ágústsson skrifar:
Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, nemi við Háskóla Íslands, segir þó nokkuð bera á fordómum á Íslandi. Hún segist ítrekað hafa verið kölluð api og fólk jafnvel gelt eða urrað á hana úti á götu.
Þetta var leitt að lesa, en kemur ekki á óvart. Miðað við lítið viðtal við Hrafnhildi þá er þarna á ferð dugleg, metnaðarfull, drífandi og klár ung kona sem á skilið virðingu og hrós. Fólk sem kallar annað fólk apa ætti að líta í spegil, svo það sé sagt.
Eitt er það svo sem Hrafnhildur segir sem mér finnst athyglisvert:
„Mér finnst ég ekki biðja um mikið þegar ég óska eftir því að fólk tali á íslensku á Íslandi,“
... og er hún væntanlega að meina þá sem hyggjast búa og starfa á Íslandi í einhvern tíma, jafnvel varanlega, en ekki ferðamenn og ráðstefnugesti og slíkt.
Já, er það ekki? Var svona erfitt að segja þetta?
Kannski verður Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, nemi við Háskóla Íslands og ættleitt dóttir Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, bráðum kölluð hægriöfgamaður, og jafnvel fasisti og nasisti og rasisti. En ef ekki, frábært! Þá geta aðrir sagt það sama og Hrafnhildur án þess að hætta á að einhver smelli á þeim þessa algengu stimpla sem margir munda svo gjarnan.
Væri það ekki hressandi?