Arnar, Þóra og þriðji maðurinn á RÚV, upptaka af játningu

frettinDómsmál, Fjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson3 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tilfallandi fékk upptöku af játningu fyrrum eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar þar sem hún lýsir því hvernig hún þann 4. maí 2021 afhenti Arnari Þórissyni starfsmanni RÚV síma skipstjórans. Hér er endurrit upptökunnar þar sem afhending símans er rædd:

Eiginkonan: Ég sest þarna niður með þessum manni, þessum Arnari, og hann fer fram og nær í Þóru [Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks]. Þóra kemur þarna og við förum öll þrjú inn á aðra skrifstofu. Þar er maður sem tók við símanum, sem ég veit ekkert hver er.

Viðmælandi:Sem þú veist ekkert hver er?

Eiginkonan: Nei, og ég fór daginn eftir og sótti símann.

[...]

Viðmælandi: Þessi þriðji maður, tók hann við símanum úr höndunum á Arnari?

Eiginkonan: Þóru.

Viðmælandi: Arnar tekur við símanum frá þér og lætur Þóru fá hann...

Eiginkonan:... og Þóra lætur þennan mann hafa símann.

Upptakan er frá í sumar. Í framhaldi var eiginkonan fyrrverandi boðuð í skýrslutöku lögreglu þar sem hún staðfesti frásögnina. Í fyrri yfirheyrslum hjá lögreglu, sú fyrsta var 4. október 2021, hafði konan neitað að tjá sig um samskiptin við starfsmenn RÚV. Eftir að lögregla hafði yfirfarið upplýsingar og borið saman við önnur gögn var Arnar Þórisson boðaður til yfirheyrslu með stöðu sakbornings.

Arnar er enn starfsmaður RÚV. Þóra, sem var yfirmaður hans, hætti skyndilega störfum í febrúar á síðasta ári. Tilkynning RÚV um starfslok var fáorð og sagði ekki raunverulega ástæðu brotthvarfs Þóru sem hafði starfað í aldarfjórðung á RÚV. Ástæðan var að lögreglurannsókn leiddi í ljós að Þóra hafði keypt Samsung-síma, samskonar og síma Páls skipstjóra, áður en byrlun og stuldur fóru fram. Þóra keypti Samsung-símann fyrir hönd RÚV í apríl 2021 en skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021.

Flogið var með skipstjórann í sjúkraflugi frá Akureyri til Reykjavíkur og hann lagður í öndunarvél á gjörgæslu Landsspítalans. Á meðan Páll skipstjóri var meðvitundarlaus fór eiginkonan með símann á Efstaleiti, steinsnar frá Landsspítalanum. Þar var sími skipstjórans afritaður á Samsung-síma Þóru. Daginn eftir fær konan símann tilbaka og skilar honum á sjúkrabeð skipstjórans, sem er enn meðvitundarlaus. Skipulagið gerði ráð fyrir að Páll skipstjóri yrði þess ekki var að sími hans var í þjófahöndum á meðan hann var rænulaus á gjörgæslu og barðist fyrir lífi sínu.

Þóra og RÚV frumbirtu engar fréttir upp úr síma skipstjórans. En það gerðu aftur Stundin og Kjarninn. Fréttir Stundarinnar og Kjarnans birtust samtímis morguninn 21. maí. Án upplýsinga frá RÚV hefðu engar fréttir úr síma skipstjórans birst í Stundinni og Kjarnanum. Einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson, er skráður höfundur fréttarinnar á Stundinni. Aðalsteinn var undirmaður Þóru á Kveik en skipti skyndilega um starf 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans.

Hálft fjórða ár er byrlunar- og símastuldsmálið á borði lögreglu. Tafir á rannsókninni stafa ekki síst af blaðamönnum sem neituðu að mæta í yfirheyrslu. Aðalsteinn, Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson og Þóra Arnórsdóttir voru boðuð í yfirheyrslu í febrúar 2022 en mættu ekki fyrr en í ágúst og september.

Er ekki kominn tími til að RÚV geri hreint fyrir sínum dyrum, líkt og Morgunblaðið hvatti til í leiðara um helgina? Eða segir í reglum Stefáns útvarpsstjóra að eitt hlutverk ríkisfjölmiðilsins sé að tefja framgang réttvísinnar?

3 Comments on “Arnar, Þóra og þriðji maðurinn á RÚV, upptaka af játningu”

  1. Ennþá er þessi sorglegi greinarhöfundur að hjakkast í þessu máli. Það væri nú gaman að heyra hvað honum finnst um glæpi Samherja og skipstjórans, mun náttúrulega ekki gerast því það er ekki það sem Samherji borgar honum fyrir.

  2. Björn B, það má vel vera að Samherji hafi framið glæpi eins og öll hin stóru útgerðafélögin.

    Enn ég spyr þig Björn B, hvaða glæp framdi Páll Steingrímsson?
    Er það glæur að vera skipsstjóri hjá Samherja eða starfsmaður í fiskvinnslunni?

    Það er merkilegt hvað fólk er vitlaust að tengja þessa byrlun á Páli Steingrímssyni við einhverja umfjöllun um meint skattalagabrot Samherja?

    Þessir anskotans fjölmiðlamenn drápu næstum því manninn!

    Og það er hreint með ólíkindum að þetta fólk sleppi við refsingu, mér þætti gaman að vita ef einhver sem myndi lenda í greipum fjölmiðlana myndi afgreiða viðkomandi fjölmiðlamenn á sama hátt?

  3. Sæll Ari,

    Tek 100% undir þetta svar frá þér.. Engu við það að bæta.

Skildu eftir skilaboð