Jón Magnússon skrifar:
Ríkisbankinn Landsbanki Íslands reið á vaðið og breytti vöxtum af ýmsum útlánum sínum þá aðallega til hækkunar og óhagræðis fyrir skuldara. Áður en dagur var að kvöldi kominn höfðu hinir stóru bankarnir Arion og Íslandsbanki elt Landsbankann í sambærilegum vaxtaákvörðunum.
Hvar er nú samkeppnin og hvar er nú neytendaverndin. Má ekki vera með öllu ljóst, að það er engin samkeppni á milli helstu fjármálastofnana landsins og hefur ekki verið.
Á sínum tíma töluðu vinstri menn um hversu nauðsynlegt það væri að a.m.k. einn banki væri ríkisbanki til hagsbóta fyrir neytendur. Það sýnir sig heldur betur núna -hann sker sig heldur betur úr.
Lána- og vaxtakjör eru orðin óbærileg fyrir venjulegt fólk og fyrirtæki. Hafa raunar lengst af verið það, en nú ríður um þverbak.
Ríkisstjórnin virðist ekki hafa áhyggjur af okurstarfsemi íslensku banakana og hefur það helst til málanna að leggja varðandi neytendavernd hvað þetta varðar að efla skuli fjármálalæsi.
Fólk borðar ekki fjármálalæsi, en það missir hús sín og fyrirtæki vegna okurvaxta.