Frjálshyggjumaðurinn Jón Gnarr

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Þegar Jón Gnarr segist vera frjálshyggjumaður og anarkisti þá ætla ég ekki að hrópa „lygari“ eða neitt slíkt. Hann hefur sagt þetta áður, líka áður en hann gerðist borgarstjóri í Reykjavík og aðstoðaði vinstrimenn við að knésetja borgina. Orðið „frjálshyggja“ rúmar margt, sem er bæði kostur og ókostur, og menn geta því kallað sig frjálshyggjumenn af mörgum ástæðum og trúað því í mikilli einlægni.

Nei, í stað þess að hrópa „lygari“ ætla ég einfaldlega að fagna því að Jón Gnarr kalli sig frjálshyggjumann. Hann trúir svo sannarlega á málfrelsið, eða ég man t.d. ekki eftir að hann á veirutímum hafi fallið í gildrur þeirra sem vildu ritskoðun og skoðanakúgun. Hann hefur búið til persónu með fimm háskólagráður sem er um leið andstyggileg manneskja sem veit í raun ekkert betur en aðrir, og má kannski sjá þar gert grín að aðdáun okkar á doktorsgráðum og prófessoratitlum - sérfræðingaveldinu sem á að vita allt betur en aðrir. Frjálshyggjutaugin er kannski sterk í honum þótt stjórnmálin, sem geta verið ruglandi, en hafa togað í hann í fjöldamörg ár, setji hann á bekk með vinstrimönnum og Evrópusambandsaðdáendum. 

Megi fleiri sem hafa svolitlar taugar ennþá til frjálsra samskipta og viðskipta, málfrelsis og efasemda til sérfræðingavaldsins gefa sig fram sem frjálshyggjumenn! Það er svo hægt að taka samtalið um hvað frjálst samfélag er í raun, en byrjunin er að vilja tilheyra þeim hópi fólks sem styðja slíkt samfélag.

Skildu eftir skilaboð