Mjúkt vald vestrænt og harkan sex

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, Stríð1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Í Úkraínu stendur mjúkt vestrænt vald, fjármagn og vopn ásamt efnahagsþvingunum, andspænis hörðu rússnesku hervaldi og fer halloka. Í Miðausturlöndum hefur mjúkt vestrænt vald haldið aftur af herskáum Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sem eftir fjöldamorð Hamas 7. október á síðasta ári kýs hart stríð á stórum skala fremur en smáskærur. Drápið á Nasralla var ,,sögulegur vendipunktur," segir Netanjahú.

Frá lokum kalda stríðsins fyrir rúmum þrjátíu árum ræður ferðinni í heimsmálum mjúkt vald vestrænt. Stríðsátök eru hófleg og afmörkuð. Efnahagsmáttur vesturlanda, veita fjármunum hér en beita efnahagsþvingunum þar, nægði til að halda lokinu á mestu óöldinni í flestum heimshornum.

Innrás Rússa í Úkraínu fyrir bráðum þrem árum skoraði á hólm vestrænt vald mjúkt. Naetanjahú í Ísrael dregur þá ályktun að fordæmið frá Úkraínu sé nothæft í stríðinu við öfgamúslíma, einkum Hams á Gasa og Hisbolla í Líbanon. Helsti bakhjarl hryðjuverkasamtakanna er Íran, sem á þessari öld hefur fært út áhrifasvæði sitt og látið sér í léttu rúmi liggja mýktina í vestrænni andstöðu.

Einleikur Netanjahú er auðveldari sökum þess að helsti handhafi vestræna mjúka valdsins, forseti Bandaríkjanna, er leigjandi fremur en húsráðandi i Hvíta húsinu.

Í skugga mjúka valdsins óx á vesturlöndum samúð með hörðu valdi hryðjuverkasamtaka á borð við Hamas og Hisbolla. Samúðin kemur einkum frá vinstrimönnum. Þeir eru feitir af velmegun, gefnir fyrir sjálfshirtingu og finna upphafningu í manngerðu loftslagi, trans og Hamas-Hisbolla. Samkrulluð hálfvitaspeki einkennir vinstrimenn allt frá dögum Marx.

Hægrimenn sjá í Netanjahú ljósbera. Ísrael berst fyrir vestrænni siðmenningu, skrifar Charles Moore i Telegraph. Í sömu útgáfu skrifar sjálfur Jordan Peterson grimma greiningu á íslamblæti vestrænna vinstrimanna og hvetur til upprætingar á aðalóvini vestursins, sem er Íran og öfgamúslímar.

Klerkarnir í Íran eru taktískir bandamenn Pútín Rússlandsforseta. Frá Íran hafa Rússar fengið drónatækni sem hentar vel á vígvellinum í Úkraínu. Þegar öll spjót standa á Íran og hryðjuverkafélögum vilja klerkarnir ólmir fá rússneskar hljóðfráar eldflaugar til að herja á Ísrael og hentug bandarísk skotmörk. Hingað til fær Íran ekki eldflaugarnar. Ástæðan er að vestrið hefur enn ekki leyft Úkraínu að nota langdrægar eldflaugar, bandarískar og breskar, á skotmörk djúpt í Rússlandi. Vestrænn ótti í Miðausturlöndum veldur hiki í Úkraínu.

Netanjahú mun vera í þokkalegu talsambandi við Pútín. Ísraelski forsætisráðherrann er herskár en ekki dómgreindarlaus. Pútín er raunsær, lítt gefinn fyrir öfgamúslíma en réttir klerkum spámannsins hæfilega hjálparhönd í baráttu við sameiginlegan óvin. Fái Úkraína heimild frá vestrinu að nota langdrægar eldflaugar á Rússland fær Íran hljóðfráar flaugar frá Rússum. Enginn segir neitt upphátt en sumir eru huglausir, trúa ekki á málstaðinn.

Harkan sex í Jerúsalem og Kreml er ríkjandi, hinsegin vald mjúkt og vestrænt er á undanhaldi.

One Comment on “Mjúkt vald vestrænt og harkan sex”

  1. Páll Vilhjálmsson, eins og þessi pistill þinn er skrifaður hefur þú frekað takmarkaða vitneskju á þessum málum!

    Hér er maður sem ætti að geta skólað þig til í þessum málum ef þú ert viljugur að kynna þér sannleikann.
    https://www.youtube.com/watch?v=-RedeAoICcw

Skildu eftir skilaboð