Jóhannes er fallin stjarna í Namibíu, ekki á RÚV

frettinErlent, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fyrrum stjarna ákæruvaldsins í Namibíu, Jóhannes uppljóstrari Stefánsson, er fallin, segir í fyrirsögn namibíska dagblaðinu Informaté, sem viðtengd frétt byggir á. Framhald fyrirsagnarinnar: eiturlyfjafíkill með ólögmæta friðhelgi.

Ákæruvaldið í Namibíu virðist hafa gefið Jóhannesi friðhelgi eftir að hann játaði á sig stórar sakir í nóvember 2019 í Kveiks-þætti Helga Seljan og Aðalsteins Kjartanssonar. Jóhannes hefur ekki látið reyna á friðhelgina, aldrei komið til Namibíu eftir að hann hvarf þaðan sumarið 2016 og skildi eftir sig sviðna jörð.

Frétt Informaté, og viðtengd endursögn Mbl.is, er um ráðstöfun á söluandvirði togarans Heina­ste sem namibísk yfirvöld kyrrsettu og var seldur með samkomulagi málsaðila. Dótturfélög Samherja koma við sögu í þessu dómsmáli en ekki sem sakborningar heldur hagaðilar er eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta.

Stóra dómsmálið þar syðra er eingöngu með namibískum sakborningum, eins og tilfallandi rakti í bloggi. Þar er ekki réttað yfir Samherja heldur namibísku stjórnarfari.  

Líferni Jóhannesar og um leið trúverðugleiki hans sem heimildar er þekkt. En ekki á RÚV sem spinnur enn frásögn um að héraðssaksóknari sé á lokametrunum með rannsókn á ásökunum Jóhannesar á hendur Samherja. Samkvæmt RÚV var Namibíurannsókn að ljúka í nóvember fyrir tveim árum. Í fyrradag heitir það á RÚV að rannsóknin ,,sé langt komin". Fréttin er brandari; RÚV segir fyrir tveim árum að Namibíurannsókn sé um það bil að ljúka. Samsærisbrandari í formi frétta er sérgrein RÚV-ara.

Í byrlunar- og símamálinu voru sex blaðamenn með stöðu sakborninga frá febrúar 2022 til september í ár. Það þótti voðalega langur tími og reyndi á sálarlíf viðkomandi, samkvæmt fjölda frétta. Í Namibíumálinu eru níu með stöðu sakborninga frá 2019 en það eru engar fréttir um að þeim kunni að þykja óþægilegt að sitja í fimm ár undir ásökunum Jóhannesar og RSK-miðla sem héraðssaksóknari tók góðar og gildar. Engar fréttir eru um að ákæruvald og fjölmiðlar séu i vafasömu samkrulli með ótrúverðugri heimild og teygi lopann til að halda í gíslingu mannorði fólks sem ekki byrlaði, stal engu og afritaði ekkert - heldur vann vinnuna sína.

Skildu eftir skilaboð