Geir Ágústsson skrifar:
Lengi vel hefur okkur verið sagt að opinber gögn séu hinn heilagi sannleikur. Yfirvöld safni saman tölfræðilegum upplýsingum og geri aðgengilegar án þess að hafa myndað sér skoðun á þeim. Gögnin eru gögnin. Túlkunin? Hún er svo eitthvað annað.
Þannig mátti til dæmis treysta því að fjöldi Íslendinga væri nokkuð áreiðanleg tala úr potti opinberra gagna. Fjöldi smitaðra. Fjöldi látinna. Lífslíkur. Glæpatíðni. Bara gögn, ekki satt? Opinber gögn sem hafa verið sannreynt, eru birt og svo má túlka þau að vild.
En er það svo? Eru opinber gögn einfaldlega gögn - staðreyndir sem má vinna með?
Nei, segja margir, og færa fyrir því góð rök. Ég fjalla um það betur seinna en vil sem upphitun bara benda á að opinber gögn eru bara gögn sem hið opinbera framleiðir. Þau eru afurð skapara þeirra. Þau má aðlaga, leiðrétta fyrir ýmsu, birta að öllu leyti eða að hluta, setja saman á nýjan hátt og auðvitað falsa.
Stundar íslenska ríkið einhverjar leikfimisæfingar með gögnin eins og þau raunverulega eru? Kannski.
Það fræ sem ég sái hérna er: Opinber gögn eru ein tegund gagna. Aðrar tegundir eru til. Mögulega betri. Mögulega ekki.
Sem sagt: Opinber gögn eru ekki endilega hin raunverulegu gögn.
Og hverjum á að treysta þá?