Lög­brot ís­lenskrar stjórn­sýslu og dóm­stóla

frettinAðsend grein, Innlent, StjórnarfarLeave a Comment

Huginn Þór Grétarson skrifar:

Lögbrot lögreglu og dómara

Það er á margra vitorði að karlmönnum er mismunað í allri málsmeðferð bæði hjá lögreglu og dómstólum í málum er tengjast forsjá og ofbeldisásökunum. Reynslusögurnar eru ófáar af slíku óréttlæti. Rannsóknir á þessu voru gerðar árið 2011 í kringum meistararitgerð Helgu Völu fyrrv. Alþingismanns og nokkrir dugandi lögmenn hafa jafnframt bent á það nýverið að dómarar dæmi menn í fangelsi án þess að nokkur haldbær gögn liggi fyrir. Viljinn til að refsa er orðinn svo mikill að dómarar trúa orðum kvenna í blindni, nokkuð sem tónar við Metoo hugmyndafræðina, en ekki við lög landsins.

Í Stjórnarskrá Íslands er mismunun út frá kyni bönnuð. Einnig er það brot á lögum skv. hegningarlögum (130 gr) ef handhafi dómsvalds tryggir ekki réttláta málsmeðferð. Þar þarf að gæta að hlutleysi og að dæma menn eingöngu seka ef sekt sannast. Þessa meginreglu réttarkerfisins er þó sveigt eftir nýrri hugmyndafræði og dómarar seilast lengra og lengra í því að dæma eftir orðum kvenna einum saman. 

Þegar dómar eru skoðaðir kemur einnig fram bersýnileg mismunun, karlar og konur fá ekki sömu málsmeðferð. Lögregla sinnir ekki kærum karlmanna, þó þær séu studdar gögnum, en gefur á sama tíma út ákærur þar sem engin gögn liggja fyrir önnur en orð konu. Um er að ræða stórfelld lögbrot er snerta gríðarlega hagsmuni.

Virðast dómstólar vera farnir að haga sér eins og dómstóll götunnar, og fyrirtæki í landinu dansa eftir sama háttalagi og eru farin að svipta einstaklinga vinnu án þess að skoða ásakanir kvenna í garð karlmanna. Konum er trúað í blindni. Refsing fer á undan dómum.

Fjallaði Huginn Þór Grétarsson um þessi lögbrot lögreglu og dómstóla í ítarlegum skoðanapistli sem birtist á Visir.is. Tengill : Lögbrot íslenskrar stjórnsýslu og dómstóla - Vísir (visir.is)

Forsjármál og lögbrot stjórnsýslu og dómara í þeim málum

Má nefna nokkur dæmi um bersýnilega mismunun lögreglu og dómstóla. 

Hundruð karlmanna eru tálmaðir á Íslandi og fá ekki að hitta börn sín, oft að ósekju. Engin úrræði eru hjá íslenskri stjórnsýslu, Sýslumaður bregst sjaldnast við og barnaverndir vilja ekkert gera í þessum alvarlegu lögbrotum. Karlmenn hafa kært konur til lögreglu, bæði fyrir að svipta þá sem forsjárforeldri umgengni, en einnig fyrir brottnám barna. Allt hefur endað með sama hætti. Ekkert er gert, sjaldnast ákært og ef svo er, þá eru konur sýknaðar.

En svo gerir karlmaður það, að halda barni frá móður. Í því tilfelli hafði móðirin þegar tálmað og eyðilagt samband mannsins við eldri dóttur hans. Barnið, yngri dóttirin, kvartaði undan ofbeldi móður og vildi vera hjá föður. En yfirvöld bregðast við, taka barnið úr umsjá föður og dæma hann í fangelsi fyrir.

Hér er svart og hvítt hvernig tekið er ólíkt á málum, allt eftir því hvort um konu eða karl er að ræða. Konur komast upp með slík lögbrot í hundruðatali og ljóst að um alvarlega mismunun er að ræða sem nær í gegnum allt réttarkerfið.

Öll þekkjum við svo nokkur brottnámsmál þar sem yfirvöld styðja við konur eða framfylgja ekki refsingu að utan, sbr. mál Eddu Bjarkar, Hjördísar Svan og greinarhöfundar sjálfs. Dómstólar og lögregla hafa beinlínis stutt við brotamanneskjur, konur, þegar þær nema börn á brott.

Meiðyrðamálin

Í meiðyrðamálum eru lögbrotin jafn augljós. Ein og sama kona, María Lilja Þrastardóttir,  hefur margsinnis verið sökuð um ógeðfelldar opinberar árásir á fólk. Þegar kona þoldi níðummæli frá henni, voru þau ógild og María Lilja dæmd fyrir. Dómstólar dæmdu eftir lögum. En þegar þessi sama kona réðst á karlmenn í viðkvæmri stöðu, sem vöktu athygli á slæmri réttarstöðu sinni og börðust fyrir réttindum barna sinna, þá var hún sýknuð. Þá töldu dómstólar mikilvæga umræðu að hún væri að fullyrða að fjórir menn væru að BERJA konur og börn. Dómstólar mismuna fólki, og dæma ekki eftir meiðyrðalöggjöfinni eða Stjórnarskrá Íslands, sem gerir kröfu um að fólk ábyrgist tjáningu sína. Tjáningin var ósönn og María Lilja gat ekki ábyrgst ummælin, en dómarar dæma þvert á lög því níðið beindist gegn karlmönnum! 

Skv. lögum mega dómarar bara dæma eftir lögum og eru því sjálfir orðnir brotlegir við lög með slíku háttalagi. Þeir bæði mismuna fólki út frá kyni, en dæma jafnvel þvert á lög til að hygla konu.

Fleiri dæmi eru nefnd um fráleita mismunun í meiðyrðamálum út frá kyni. Afi nokkur segir frá eigin upplifun, tálmunum barnsmóður sonar hans sem hljóti að mega rekja til andlegra veikinda, og er dæmdur fyrir meiðyrði. Karlmaður mátti ekki tjá sig, þó hann þoldi siðferðislega ámælisverða hegðun og tálmanir. En á sama tíma fullyrða konur um stórfelld lögbrot karlmanna, segja þá ofbeldismenn og annað eins, og eru allar sýknaðar! 

Sami dómari, Ragnheiður Harðardóttir, dæmir öll Metoo mál í Landsrétti, og efast greinarhöfundur um að það sé tilviljun. Það er ekki eðlilegt að hún sitji í öllum sambærilegum málum, þar sem hún virðist trúa konum í blindni og dæmir ekki eftir lagabókstafnum. Hún mótar þannig dómaframkvæmd og samræmir hana hugmyndum Metoo, en ekki lögum landsins.

Eina málið, þar sem ummæli sem kona setti fram, og gat ekki ábyrgst, eru ómerkt, er þegar ummælin beindust að annarri konu. Kona sagði að önnur kona hefði reynt að nauðga henni. Ummælin voru ómerkt. Dómstólar réttilega leyfa ekki meiðandi ummæli í garð konu, sem ekki var hægt að ábyrgjast, en gerast svo freklega brotlegir við lög, þegar þeir leyfa slíkt ítrekað gagnvart karlmönnum. Þá mega þær tjá sig opinberlega með níðslegum hætti, þó engin lög heimili slíkt, en meiðyrðalöggjöfin tekur sérstaklega fyrir slíka hegðun.

Tjáningafrelsið

Dæmi eru um mjög ljóta orðræðu frá konum sem starfa innan grunnskóla, háskóla og hins opinbera (og Reykjavíkurborg). Konum virðist leyfast niðrandi orðræða í garð karla og eru ekki reknar. Karlmaður sem tjáði sig um áhyggjur, en hann hafði sætt opinberu níði frá konum, hann var rekinn. En þó hann hafi notið réttinda sem opinber starfsmaður og átt að fá viðvaranir og annað, áður en honum væri vikið úr starfi, dæmdu dómstólar ekki eftir lögum og gögnum málsins, heldur af geðþótta. Þeim líkaði illa við karlmanninn, því samfélagið góðkennir ekki tjáningu karlmanna, á meðan tal um feðraveldi, líklega nauðgara og annað eins niðrandi gagnvart karlkyni, er endurvarpað af miklum þrótti í fjölmiðlum. Dómarar gerast ítrekað sekir um að dæma eftir geðþótta.

Fíkniefnainnflutningur

Helga Vala nefndi í viðtölum dæmi um afgerandi mismunun sem hún sá við rannsóknir sínar. Systkini voru fundin sek um innflutning fíkniefna, en þó ekki mætti sjá stórfelldan mun á þátttöku, fékk karlmaðurinn langtum þyngri dóm! 

Ofbeldismálin

Lögregla er að vísa frá kærum karlmanna vegna ofbeldis, jafnvel þó það séu vottorð um áverka og vitni að árásum! Á sama tíma er lögregla að gefa út ákærur þegar konur kæra, án nokkurra gagna. Orð kvenna duga til að mál séu send til dómstóla, en það sama á ekki við um orð karlmanna. 

Karlmenn hafa verið dæmdir til langra fangelsisvista þó gögn máls bendi ekki til þess að þeir hafi verið að brjóta af sér. Hugsýki dómara eftir Metoo áróðurinn sést bersýnilega, og dansa þeir eftir vilja háværra öfgahópa sem krefjast fleiri sakfellinga, jafnvel þó gögn styðji ekki slíka dóma.

Á sama tíma er kona sýknuð í nýlegum dómi þó hún játi að hrinda manni og rekast jafnvel með hönd í andlit hans, en læknisvottorð staðfestir áverka sem maðurinn sagðist hafa fengið þegar konan kýldi hann ítrekað. Hún var samt sýknuð  (mál. S-1112/2024). Dómararnir réttlæta slíkt með því að karlmaðurinn hafi verið stærri og sterkari. Dómarar virðast þannig haldnir þeirri ranghugmynd að karlmenn geti ekki þolað ofbeldi.

Karlmaður sem hefði vaðið út og ráðist á konu, hrint henni og kýlt, hefði aldrei sloppið með sama hætti. Hér er um grímulausa mismunun á milli karla og kvenna, brot framin af dómurum landsins.

Stafrænt ofbeldi / hefniklám

Allt öðruvísi er tekið á hefniklámi eftir því hvort kona eða karl gerist sekt um slík brot. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness var kona sýknuð þó hún dreifði nektarmyndum (hefndarklám) mál nr. S-1532/2022.

Karlmenn hafa þó verið dæmdir fyrir sambærileg brot sbr. mál í Héraðsdómi Reykjavíkur (S-3887/2021). 

Kona er sýknuð, karl er fundinn sekur, en brotin eru sambærileg.

Kynferðisbrot

Vilji ákæruvaldsins til að gefa út ákærur í kynferðisbrotum, þó engin gögn styðji við slíkt, er ámælisverður á sama tíma og lögregla og saksóknari vísa frá alvarlegum lögbrotum er karlmenn þola, þar sem mikið magn gagna staðfestir brotin. Hér virðist ráða för persónuleg afstaða ákæruvaldsins, líklega er þetta hugsýki í anda Metoo um að trúa eigi konum, og neita karlmönnum um að rétta hlut sinn þó þeir geti sannað sakleysi sitt. 

Dæmi um þetta er mál Alberts Guðmundssonar en þar voru engin haldbær gögn en saksóknari keyrði samt málið áfram. 

Enn er bent á hvernig dómstólar gera mikinn greinarmun á því hvort karlkyn eða kvenkyn þolir kynferðisbrot. Dæmi um slíkt er dómur S-989/2011 en þar var karlmaður dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að reka fingur upp í rass á konu. En í öðru máli, þar sem sjómenn tuskuðu ungan strák til og ráku fingur upp í rass hans, fékk sá er þyngsta dóminn hlaut, einungis 3 mánaða dóm. Þegar þolandi er karlmaður, líta dómstólar slíkt vægari augum heldur en ef þolandi er kvenkyns, jafnvel þó um barn sé að ræða! Allt er þetta hluti af bersýnilegri mismunun gagnvart kynjunum í öllu kerfinu.

Rangar sakargiftir

Menn sem lenda í opinberu níði hafa ekki getað leitað réttlætis hjá dómstólum. Menn sem lenda í röngum sakargiftum hafa heldur ekki fengið tækifæri á réttlæti, málum þeirra er vísað frá. Dæmi um þetta er mál Árna Loga Sigurbjarnarsonar, en hann var sakaður um nauðgun, og voru gefnar upp tvær ólíkar dagsetningar, en hann hafði fjarvistarsönnun aðra dagsetninguna og var á sjúkrahúsi hinn daginn. En lögregla vísaði kærunum vegna rangra sakargifta frá, þó ásakanirnar gátu ekki verið sannar. Fleiri slíkum málum þar sem lagðar eru fram sannanir á röngum ásökunum hefur verið vísað frá og lögregla aðhefst ekkert. 

Það er ekki í anda Metoo að konur ljúgi, og lögreglan virðist fylgja slíkum hugsjónabylgjum fremur en lögum. 

Hafa slík mál nokkur endað með því að menn fremji sjálfsmorð. Þeir geta ekki hreinsað mannorð sitt og líf þeirra er á margan hátt lagt í rúst. Dómstólar virðast góðkenna opinbert níð, ef konur segjast vera að hefna sín (hafi þolað eitthvað). Jafnvel þegar hægt er að sanna að slíkt er ósatt, eru engar afleiðingar við þessum grafalvarlegu lögbrotum. 

En aftur sannast misréttið með nýlegu dæmi. Kona lagði fram kæru um rangar sakargiftir. Engin gögn virðast hafa staðfest orð hennar m.v. úrskurð Landsréttar, en engu að síður gaf lögregla út ákæru og Héraðsdómur dæmdi manninn sekann! Landsréttur sneri þeim dómi við og benti á að ekkert lægi fyrir sem staðfesti að maðurinn hefði lagt fram rangar sakir. Vekur dómur héraðsdóms því upp margar spurningar, og virðist saklaus maður hafa verið dæmdur án nokkurra málsgagna er studdu við slíkan dóm. 

Eftir stendur að kona fékk allt aðra málsmeðferð, þó engar sannanir lægju fyrir á meðan mál karlmanna eru eyðilögð í meðferð lögreglu.

Fjárkúganir afleiðing af lögbrotum lögreglu

Vegna þess að lögregla tekur ekki á röngum ásökunum, og vegna þess hve gríðarleg áhrif opinberar ásakanir hafa haft á líf karlmanna, þá verður til hvati til að kúga menn um fé. Nokkur dæmi hafa verið um fjárkúganir, þar sem fyrrv. forsætisráðherra, fótboltamaður og viðskiptajöfrar hafa verið krafðir um fé, ellegar fari konur í fjölmiðla með ásakanir um nauðganir eða kynferðisbrot. Menn eru í slæmri stöðu því refsing fer á undan dómi í íslensku samfélagi, og fjölmiðlar útvarpa einhliða ásökunum kvenna og neita karlmönnum um að svara fyrir sig. 

Konur vita hvers konar skaða þær geta valdið mönnum og nota þetta ofurvald til að kúga menn um fé. Á meðan yfirvöld taka ekki á alvarlegum glæpum á borð við opinbert níð og röngum sakargiftum munu einhverjar konur sjá sér leik á borði og hóta mönnum um að rústa lífi þeirra.

Benti greinarhöfundur jafnframt á mismunun gagnvart kynjunum í meðferð stjórnsýslu, t.d. hjá Sýslumanni og barnaverndum. Slíkt er alþekkt og hafa margir karlmenn kvartað undan óréttlátri meðferð hjá þessum stofnunum.

Allt kynningarefni lögreglunnar ber með sér gríðarlega skekkju, þar sem lögreglan beinlínis dregur upp staðalímyndir af karlmönnum sem gerendum og konum sem þolendum. Var vísað á upplýsingasíðu lögreglunnar þar sem nær allir þolendur ofbeldis voru teiknaðar konur. 

Greinarhöfundur bendir jafnframt á að fólk sem hefur predikað hugmyndafræði Metoo getur varla talist hlutlaust í meðferð dómsmála eða mála innan lögreglu. En innan lögreglunnar og stjórnsýslu starfa konur sem aðhyllast Metoo, hugmyndir um að trúa eigi konum í blindni og lofa eigi opinberar ásakanir þar sem karlmenn fá ekki varið sig.

Engin raunhæf úrræði þegar dómarar brjóta af sér

Fjallað er um hvernig lögregla vísar málum frá á hendur opinberum starfsmönnum án skoðunar, þó sannað sé að viðkomandi aðilar hafi brotið af sér. Vísar lögregla einu máli frá innan 24 tíma þó í dómsorði séu lögbrot konunnar staðfest. Lögregla á jafnframt að sinna kærum á hendur dómurum, en gerir ekki. 

Dómstólasýslan á að hafa eftirlit með dómurum, en þar eru dómararnir sjálfir og þeir eru ófærir um að taka á eigin lögbrotum. 

Kerfið er beinlínis byggt þannig upp að spilling, klíkuskapur og samtrygging grasserar. Dómarar velja sjálfir næstu dómara inn í hópinn, þeir ákvarða hver fær stöðuhækkun og meta sjálfir kvartanir sem koma upp gagnvart dómurum. Þeir eru nánir kollegar sem standa saman og neita að taka á alvarlegum lögbrotum innan stéttarinnar. Afgerandi dæmi eru um að dómarar dæmi ekki eftir lögum, heldur refsi einstaklingi fyrir gagnrýni á þá sjálfa eða kollega þeirra. Dómarar ganga svo langt í lögbrotum sínum að þeir fullyrði að einstaklingur njóti ekki stjórnarskrárbundinna réttinda, en engar heimildir eru í lögum fyrir að skerða slík réttindi. En einstaklingur sem gagnrýndi dómarana, sætti slíkri valdníðslu. 

Bendir greinarhöfundur á að ýmsir dugmiklir lögmenn hafi bent á vankanta kerfisins. En flestir lögmenn þora ekki að tjá sig um þessa slæmu stöðu réttarkerfisins, þeir séu í of viðkvæmri stöðu og dómstólar geti refsað þeim.

Geðþóttadómar eru ekki afmarkaðir við kynbundna mismunun. Líkt og áður segir refsa dómarar einstaklingi fyrir að benda á lögbrot kollega þeirra. Dómarar búa til aðalatriði máls með að fullyrða þvert á málsgögn, ef þeim hugnast svo. Dómarar þekkja iðulega ekki málsgögn og fella þá dóma af fáfræði. Nóg geti verið að dómurum líki illa við manneskju, eða fari eftir neikvæðu almenningsáliti, og felli geðþóttadóma eftir því en ekki gögnum mála. 

Óstarfhæft réttarkerfi

Huginn Þór Grétarsson bendir á að íslenskt réttarkerfi er óstarfhæft. Ekkert raunveruleg eftirlit sé með dómurum, og þeir hafi vanist því að komast upp með að dæma eftir eigin skoðunum, þvert á lög. Þar til tekið verði á þessari mismunun gagnvart fólki, og á meðan dómarar geti dæmt þvert á lög án afleiðinga, séu dómstólar í raun óstarfhæfir. 

Menn sem hafa þurft að þola að líf þeirra er lagt í rúst fá ekki réttláta úrlausn sinna mála, og tapa jafnvel milljónum eða tugmilljóna vegna óréttlætisins. Sumir fremja sjálfsmorð.

Nauðsynlegar aðgerðir

Greinarhöfundur telur nauðsynlegt að endurskoða hvernig dómarar eru valdir inn til starfans. Einnig þurfi að bæta allt eftirlit með dómurum. Þeir geti ekki sinnt því sjálfir. Það þarf að vera raunhæf leið til að leita réttar síns þegar dómarar fara ekki að lögum.

Greinin er stytt útgáfa sem birtist á Visir 18.10.2024

Baráttumaður gegn spillingu og lögbrotum dómara.

Skildu eftir skilaboð