Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Um fjórðungur íbúa Bandaríkjanna eru kaþólskrar trúar og mun það hlutfall fremur hækka en hitt með innstreymi innflytenda frá Suður- Ameríku. Því kom það flestum á óvart að forsetaframbjóðandinn Kamala Harris ákvað að brjóta hefðina og mæta ekki á svokallaðan Al Smith Dinner sem er árleg fjársöfnunarsamkunda fyrir kaþólsk góðgerðasamtök sem styrkja bágstödd börn í New York. Umræddur Alfred Smith sem þannig er heiðraður árlega ólst upp í sárri fátækt en varð fyrsti kaþólikkinn til að verða tilnefndur til forsetaframboðs (1928 fyrir Demókrata) og varð síðar borgarstjóri New York borgar.
Donald Trump mætti hins vegar með spúsu sinni og reytti af sér brandarana. Meðal annars stríddi hann Chuck Schumer, sessunaut sínum, og sagði að ef Kamala hefði ekki erindi sem erfiði þá gæti hann orðið fyrsta konan til að verða forseti. Erkibiskup New York borgar, Timothy M. Dolan, lýsti yfir vonbrigðum sínum með að Kamala vildi ekki koma, það væri leitt því að eðli þessa kvölds væri að ná fram samstöðu fólks og jafnvel hún talaði sjálf um að leggja biturleika og flokkadrætti að baki. Hann sagði að margir héldu að þetta væri kaþólskur viðburður en svo væri ekki, þátttakan endurspeglaði hverjir byggju í New York.
Reyndar gæti svo virst sem Kamala sé andsnúin kristni yfirleitt því er einhver kallaði "Jesus is Lord" á kosningafundi hennar þá svaraði hún glottandi: "Þú ert á röngum fundi. Þú hefur ætlað að fara á minni fundinn neðar í götunni." Ríkisstjóri Michigan, Gretchen Whitmer sem er einnig demókrati, náði einnig að strjúka kaþólskum biskupum öfugt með myndbandi þar sem hún virðist hæðast að hinu heilaga sakramenti. Í myndbandinu má sjá Whitmer leggja Doritos flögu í munn feministans og kynjafræðingsins Liz Plank sem krýpur með helgisvip á andlitinu og kaþólikkarnir í Michigan lýstu því sem sagt yfir að þeir væru vonsviknir og sármóðgaðir.
Enn eitt sem hefur ekki farið vel í kaþólikkana er hinn harði dómur er Bevelyn Beatty Williams fékk fyrir að taka þátt í tveggja daga mótmælum gegn fóstureyðingum í New York í júní 2020 er hún stillti sér upp fyrir framan inngang Planned Parenthood og varnaði fólki inngöngu. Henni finnst það hábölvað að öðru hverju svörtu fóstri í New York skuli eytt. Hún hefur nú hafið þriggja og hálfs árs afplánun fyrir mótmælin og þarf að skiljast við smábarnið sitt. Bevelyn komst í fréttirnar er hún ataði Black Lives Matter götuskreytinguna í New York svartri málningu og sagðist alfarið á móti fólki sem boðaði marxisma, niðurbrot fjölskyldunnar og vildi þar að auki losna við lögregluna. Sjálf ólst hún upp án föður í hverfi þar sem var mikið um glæpi, varð fyrir misnotkun, fór í þrjár fóstureyðingar, þá fyrstu 15 ára, og komst í kynni við lögin áður en hún frelsaðist og ákvað að fylgja Jesú Kristi.