Björn Bjarnason skrifar:
Nú óttast Kristrún að Dagur skyggi á sig í fyrstu kosningabaráttunni undir hennar stjórn. Hún hefur sett hann „på plads“ þar sem hann samþykkir að dúsa án afsökunar frá henni fram yfir kosningar.
Á ruv.is segir í dag, 29. október, í fyrirsögn á samtali við Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar að það sé „óheppilegt“ að einkaskilboð hennar til kjósanda um að strika yfir nafn Dags B. Eggertssonar á kjörseðli „hafi verið gerð opinber“.
Það er skrýtið að fréttastofu ríkisútvarpsins þyki þetta fyrirsagnarefnið þegar formaður Samfylkingarinnar vegur að reynslumesta frambjóðanda flokks síns, fyrrverandi borgarstjóra og þeim sem er næstur formanninum á framboðslista. Fréttamatið fellur þó að þeirri skoðun áfallahjálparliða flokksins að þessi uppákoma innan Samfylkingarinnar sé í raun „engin frétt“ eða að minnsta kosti ekki annað en „stormur í vatnsglasi“.
Í inngangi fyrrnefndrar fréttar á ruv.is er jafnframt vitnað til þeirra orða Kristrúnar að „samskipti við kjósendur um mögulega frambjóðendur séu þekkt aðferð í íslenskum stjórnmálum“. Þetta er enn ein aumkunarverða tilraunin til að setja skilaboð flokksformannsins í eitthvert afstætt samhengi og drepa umræðum um þau á dreif.
Í fréttinni stendur:
„Aðspurð hvort hún hafi beðið Dag afsökunar á skilaboðunum segir hún að hún og Dagur hafi sammælst um að óheppilegt sé að skilaboðin hafi birst með þessum hætti.“
Er þetta ekki fréttapunkturinn? Að Kristrún hafi ekki beðið Dag afsökunar en þau séu sammála „um að óheppilegt sé að skilaboðin hafi birst með þessum hætti“. Kristrún segist „alveg “ geta tekið undir að það sé „ekkert gaman þegar persónuleg samskipti sem geta verið mjög hreinskilin og umbúðalaus, koma svona fram“.
Mánudaginn 28. október sagði Dagur B. að sér hefði brugðið þegar hann sá fréttirnar um gagnrýni Kristrúnar. Í Silfri RÚV að kvöldi mánudagsins talaði Dagur B. eins og bugað fórnarlamb sem hefði þó þrek til að kasta svona hlutum aftur fyrir sig. Hann hefði rætt við Kristrúnu og þau hefðu verið sammála um að skilaboðin hefðu ekki verið heppileg. Þegar Dagur var spurður hvort Kristrún hefði beðið hann fyrirgefningar svaraði hann:
„Já, það má segja það, allavega vorum við sammála um að þetta væri ekki heppilegt.“
Af þessum orðum má enn ráða að Kristrún sá ekki ástæðu til að biðja Dag B. afsökunar. Þau sitja áfram hlið við hlið á framboðslistanum og vilja breiða yfir ágreining sinn í von um að geta sýnt Samfylkinguna sameinaða gagnvart háttvirtum kjósendum.
Þau hafa hins vegar ólíka sýn. Kristrún er ekki altekin af sama hatri á Sjálfstæðisflokknum og brýst jafnan fram í máli Dags B. Hann kenndi meira að segja sjálfstæðismönnum um að Kristrún talaði svona illa um sig!
Áður en Kristrún var krýnd formaður Samfylkingarinnar lá í loftinu að formennskan væri Dags B. Hann naut ekki trausts. Nú óttast Kristrún hins vegar að hann skyggi á sig í fyrstu kosningabaráttunni undir hennar stjórn. Hún hefur sett hann „på plads“ þar sem hann samþykkir að dúsa án afsökunar frá henni fram yfir kosningar.