Trump og Khan gegn Djúpríkinu

frettinAðsend grein, Erlent, Ingibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Barátta tveggja þjóðarleiðtoga gegn hinu alþjóðlega djúpríki hefur tekið mismunandi stefnu. Trump stefnir aftur á forsetastólinn hinn 20. janúar og hefur tilnefnt fjölda eindreginna stuðningsmanna til að stjórna hinum ýmsu embættum en Imran Khan situr enn í fangelsi. Báðir hafa sætt hinum fjölbreytilegustu ákærum og báðir hafa þeir særst í morðtilraun.

Þegar Trump var handtekinn hinn 24.ágúst 2023 í Georgíufylki vegna ákæru um að hafa hagnast með ólögmætum hætti og hin fræga fangamynd tekin af honum þá höfðu honum verið birtar ákærur í Flórída, meðal annars vegna skjala er FBI fann við húsleit á heimili hans í Mar-a-Lago, og í Washington D.C. þar sem hann var ákærður um samsæri og um að hindra réttvísina en eftir að ljóst varð að Trump yrði forseti þá virðist sérstakur saksóknari, Jack Smith, hafa fellt niður allar kærur á hendur honum.

Til að tryggja að FBI endurtaki ekki leikinn (Melania Trump er enn reið yfir að gramsað hafi verið í nærfataskúffum hennar) þá hefur Trump tilnefnt harðan gagnrýnenda FBI, Kash Patel, til að leiða stofnunina á næsta kjörtímabili. Á síðasta ári gaf hann út bókina "Government gangsters", gagnrýni á það hvernig djúpríkið beitir alríkisstjórninni fyrir sig, eins og gerðist er Trump sat undir ásökunum um að vera handbendi Rússa. Í henni er kafli um hvernig standa skuli að uppstokkun FBI.

Líkt og Trump hefur Khan verið lýst sem þjóðernissinnuðum populista. Hann komst til valda eftir að Panamaskjölin sýndu að börn forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, og fólk tengt bróður hans, Shehbaz Sharif, áttu verðmætar eignir erlendis er skráðar voru á átta aflandsfélög en var settur af sem forsætisráðherra Pakistans í apríl 2022 og Shehbaz Sharif tók við stjórnartaumunum. Khan hefur nú setið í fangelsi í meira en ár og til að koma í veg fyrir að hann komist aftur á forsetastólinn var hann fyrst kærður fyrir brot á hryðjuverkalögum, síðan um spillingu, svo um að taka við gjöfum erlendis frá, næst um að gera ríkisleyndarmál opinber og loks um brot á íslömskum lögum með hjúskap sínum - samtals um 150 ákæruliðir.

Khan fullyrðir að Bidenstjórnin hafi komið sér frá völdum, hún vilji frekar meðfærilega spillingarpésa en ekki sig sem hafi neitað Bandaríkjastjórn um aðstöðu til árása á Talíbana og hafnað því að slíta öllu sambandi við Rússa (þurfa ódýrt eldsneyti þaðan). Flokksmenn Khan, í Pakistan Tehreek-e-Insaf, telja að stjórnvöld hafi svindlað í kosningunum sem fóru fram í fyrr á þessu ári og efndu nýverið til mikilla mótmæla sem kona hans Bushra Bibi leiddi. Mótmælendurnir brutu sér leið inn á D-Chowk torgið í Íslamabad þar sem helstu stjórnarskrifstofurnar eru en þurftu að hverfa á braut sakir myrkurs og táragassúpu en lofa að koma aftur.

Grunsamlegt var að Bill Gates kom í sína fyrstu heimsókn til Pakistan í febrúar 2022. Opinberlega tengdist það bólusetningu við lömunarveiki en í þakkarbréfi til forseta landsins, Arif Alvi, (dagsettu eftir að ákveðið var að Imran skyldi settur af) fyrir góðar móttökur segir Gates að stofnun sín vilji gjarnan dýpka tengsl landanna hvað varðar sameiginlega hagsmuni. "Ég hlakka til að sjá fram á nánari samvinnu við stjórnvöld Pakistans," sagði hann.

Eflaust er sú samvinna með ýmsu móti. Nýverið benti Vivek Ramaswami, sem er með Elon Musk í sparnaðar- og hagræðingarteymi á vegum Trump, á að New York borg greiði pakistanska ríkinu 220 milljónir dala fyrir að hýsa farendur/ólöglega innflytjendur í hóteli sem Flugfélag Pakistans eignaðist á Manhattan um síðustu aldamót en hafði staðið autt. Samkvæmt Fox Business er sá samningur hluti af 1,1 milljarða björgunarpakka IMF til að halda pakistanska ríkinu á floti.

Skildu eftir skilaboð