Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Reform UK, flokkur Nigel Farage, hefur verið á mikilli siglingu eftir að hann fékk traustan fjárhagslegan bakhjarl. Með sínum gamla flokki Ukip náði Nigel mest 46.000 skráðum félögum en snemma í desember sýndu skoðanakannanir að hann hefði fleiri stuðningsmenn en Verkamannaflokkurinn og um jólin var tilkynnt að fleiri væru skráðir í Reform UK en í Íhaldsflokkinn, fleiri en 131,680 sem sagt, en það var sá fjöldi er skráður var í flokkinn er Kemi Badenoch hlaut leiðtogasætið á síðasta ári. Samkvæmt Guardian voru u.þ.b. 2.8 milljónir skráðar í Íhaldsflokkinn og 1 milljón í Verkamannaflokkinn uppúr miðri síðustu öld, svo pólitískum áhuga hefur hnignað mjög í Bretlandi.
Í kosningunum síðasta sumar vann Verkamannaflokkurinn stórsigur, fékk 174 sæta meirihluta, enda höfðu Íhaldsmenn stjórnað landinu illa. Samkvæmt októberskýrslu OECD var því spáð að verg landsframleiðsla ykist aðeins um 0.1 % 2024 þrátt fyrir að 906,000 manns hefðu bæst við íbúafjölda landsins á 12 mánaða tímabili að júní 2023. Sú kenning Íhaldsmanna að innflutningur fólks auki hagvöxt heldur ekki vatni og allra síst á þeim tíma er iðnaðarframleiðslu er útvistað til Asíuríkja í nafni grænnar hugmyndafræði. Íhaldsmenn hafa ítrekað lofað að minnka aðstreymi fólks niður í tugi þúsunda en ekki staðið við það og það er auðvelt fyrir Farage að benda á síaukinn þrýsting á húsnæðismarkaðinn, heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið og segja að svona gangi hlutirnir ekki lengur.
Sem dæmi um lélega stjórnun Íhaldsmanna síðustu 14 árin er að hið opinbera tannlækningakerfi virðist hrunið. Í nýlegri grein í Telegraph segir að í Devon og Cornvall taki það að meðaltali tæp 4 ár að koma börnum á skrá hjá tannlækni. Samkvæmt sömu heimild voru 33.5% þeirra er reyndu að komast inn í kerfið í bráðri þörf og 21.3% sögðust vera með tannpínu.
Það var reyndar Tony Blair sem galopnaði landamærin 2004 eftir að átta fyrrum Sovétríki, þar á meðal Pólland og Litháen, gengu í ESB og Keir Starmer arftaki hans virðist fylgja sömu stefnu um opin landamæri. Ofan á það bætist viljaleysi til að koma glæpamönnum úr landi. Á nýársdag birti GB News frétt um síbrotamanninn Alius Ambulta frá Litháen sem þrátt fyrir að framfleyta sér með glæpum og hafa 17 dóma á bakinu fæst ekki sendur úr landi því til þess þurfi hann að hafa hlotið 12 mánaða fangelsisdóm, eða lengri.
Fyrst eftir kosningarnar í sumar naut Keir Starmer og ríkisstjórn hans vinsælda en síðan þá eigi svo mjög. Samkvæmt nýársgrein í Independent þá telja aðeins 12% Breta að stjórn Verkamannaflokksins hafi staðið sig vel. Fljótlega eftir að Starmer tók við embætti voru 3 litlar stúlkur stungnar til bana í Southport. Fyrst gaf lögreglan ekkert upp um árásarmanninn og sögur um að hann væri hælisleitandi, nýkominn frá Calais, fóru á flug og sums staðar urðu óeirðir. Í ljós kom síðar að morðinginn er sonur hælisleitenda frá Rúanda. Starmer kenndi hægri öfgamönnum um óeirðirnar og fjöldi manna fékk á sig dóma, m.a. fyrir að dreifa falsfréttum. Í framhaldinu tilkynnti Starmer svo að fangelsin væru yfirfull og sleppa þyrfti afbrotamönnum fyrr en ætlað var. Meðal annars var gengjameðlimi sem hafði fengið 9 ára dóm fyrir að fela byssu er notuð var til að drepa unga konu, Elle Edwards að nafni, sleppt eftir 3 ár.
Síðar kom sú óvinsæla sparnaðaraðgerð að afnema húshitunarstyrk til flestra elli - og örorkulífeyrisþega og erfðafjárskattur settur á bændur, hvort tveggja aðgerðir sem skila litlu í ríkiskassann öfugt við það sem uppstokkun hælisleitendakerfisins myndi skila en kostnaður við það eykst stöðugt og en sagður hafa staðið í 5.38 milljörðum punda 2023-24 og hafa aukist um 36% milli ára. Finnst mörgum að þeir sem koma yfir sundið frá Frakklandi og henda skilríkjum sínum á leiðinni svo erfitt verði að senda þá til heimalandsins eigi ekki að fá neina þjónustu aðra en far til baka til Frakklands.
Nýverið er það svo hneykslun Elon Musk á að bresk yfirvöld hafi leyft pakistönsku barnanauðgaragengunum að athafna sig nær óáreittum áratugum saman. Hann bendir á að sem saksóknari krúnunar frá 2008 til 2013 hefði Starmer mátt sýna meiri vilja til að lögsækja óbótamennina og fletta ofan af því sem var að gerastí kjördæmum Verkalýðsflokksins í stað þess að þegja til að rugga ekki bátnum. Eftir að Jess Phillips, innanríkisráðherra, hafnaði beiðni bæjarfulltrúa í Oldham um opinbera rannsókn um kynferðisglæpi er beinst hafi að börnum síðustu áratugina þá hefur Kemi Badenoch, leiðtogi Íhaldsmanna, kallað eftir heildstæðri rannsókn á landsvísu á "nauðgaragengja hneykslinu."
Ásakanir Musk hafa vakið athygli víða um heim og telur t.d. Hindustan Times að leiðtogar Verkamannaflokksins hafi fórnað stúlkubörnum er stóðu illa félagslega fyrir atkvæði innflytjenda frá löndum múslima en vitað er að sjálfsmyndarhópar kjósa gjarnan eins - þá sem bjóða þeim besta fyrirgreiðslu. Musk hefur reyndar kallað eftir því að Farage víki sem leiðtogi því Farage virðist telja það sjálfsagt að Tommy Robinson hafi fengið langan fangelsisdóm fyrir að gefa út heimildamynd sem sýnir hvernig heilum grunnskóla var fórnað fyrir æru eins sýrlensks hælisleitenda. Reikna má með að múslimski auðjöfurinn Zia Yusuf, helsti fjárhagslegi bakhjarl Farage, sé ekki hrifinn af íslamgagnrýnandanum Tommy Robinson og Farage því sammála.
Pólitíkin verður stöðugt meira spennandi.