Halla snúið við á mánuði

frettinGeir Ágústsson, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Vestræn stjórnmál og allt þeirra tal um hagræðingu, endurbætur og baráttu gegn verðbólgu og sóun á skattfé og öðru slíku hljóma sífellt hjákátlegri. Af hverju? Af því að í Argentínu hefur forseta tekið að snúa frá áratugalöngu misferli á opinberum fjármálum og öllu sem því tengist: Óðaverðbólga, verðlagshöft, fölsk skráning gjaldmiðils, innflutningshöft, opinber spilling og þjóðnýting. Á Íslandi og flestum vestrænum ríkjum er talað um að hallalaus fjármál þurfi að bíða í einhver ár, og eftir það í einhver fleiri ár. Ekkert nema orð.

Forseti Argentínu var búinn að koma ríki sínu á rétta braut á einum mánuði þegar hallareksturinn var stöðvaður og á einu ári eru öll þarlend stjórnmál að snúast á hans band því hann sýndi fram á árangur og var heiðarlegur allan tímann - sagði að tímar myndu versna áður en þeir batna - og almenningur stóð með honum, og stjórnmálaflokkarnir af þessum hefðbundna skóla sjá fram á að þurrkast út í komandi kosningum nema þeir vakni úr rotinu.

Við heyrum stundum talað um Trump-áhrifin en Milei, forseti Argentínu, hefur haft áhrif á Trump, svo kannski mætti tala um Milei-áhrifin sem eru að breiðast út á heimsvísu.

Vestrænir blaðamenn eiga auðvitað í miklum vandræðum með að útskýra ástandið í Argentínu. Þeir geta ekki afneitað hagtölunum og skoðanakönnunum en geta bent á að Milei lagði niður ráðuneyti jafnréttismála (og raunar helming allra ráðuneyta þegar hann tók við) og réttindi minnihlutahóp því í stórhættu! Einmitt það já.

Nú er að vísu embætti forseta Argentínu töluvert valdameira en embætti forsætisráðherra Íslands (nokkuð sem vinstrimönnunum í Argentínu fannst sniðugt fyrirkomulag á meðan þeir réðu ríkjum svo áratugum skipti). En þingheimur eða meirihluti þingheims sem hefur einhverja sýn og raunhæfa áætlun og auðvitað hugrekki ætti ekki að vera í vandræðum með að gera nauðsynlegar breytingar á opinberum fjármálum og regluverkinu með rösklegri lagasetningu. Mögulega þýða slík áform að hagur almennings versnar áður en hann batnar, en ekki er alltaf hægt að forðast timburmenn.

Að forsætisráðherra Íslands tali núna um að augljósar aðgerðir sem er hægt að hrinda í framkvæmd á morgun og skila árangri í næstu viku þurfi að bíða fram á vor segir kannski sína sögu. Þá verða landsmenn væntanlega búnir að gleyma hinu ævintýralega samráði sem afhjúpaði bæði sóun og spillingu og eyðilagði þögult samkomulag innan hins opinbera um að sumir keyri hundrað kílómetra á dag á milli hverfa og eigi að fá fyrir það aksturspeninga, og að frændi yfirmannsins sé besti mögulegi sumarstarfsmaðurinn á skrifstofunni og eigi jafnvel að fastráða.

Úbbs, hugsa þeir innan stjórnsýslunnar sem leyfðu þessu að gerast. Nú er voðinn vís! En óttist ekki. Við munum hafa gleymt öllu í vor.

Skildu eftir skilaboð