Páll Vilhjálmsson skrifar:
Á Ramstein-fundi í Þýskalandi í fyrradag hitti Selenskí forseti Úkraínu vestræna bakhjarla sína. Ramstein-fundir eru reglulega haldnir um framgang stríðsins, eru orðnir 25 frá upphafi innrásar Rússa í febrúar fyrir þrem árum. Selenskí óskaði eftir beinni aðild Nató-ríkja að átökunum.
Fundurinn í fyrradag er merkilegur fyrir þær sakir að hann er sá síðast fyrir embættistöku Trump forseta eftir tíu daga. Samkvæmt heimasíðu Selenskí eru Bretar jákvæðir að senda hermenn til Úkraínu. Vitað er að fjöldi Nató-hermanna starfa sem sérfræðingar í hátæknivopnum á vígvellinum og all nokkrir hafa fallið. Selenskí vill fá fótgönguliða frá Nató-ríkjum til að berjast í skotgröfum Úkraínu. Við það yrði formlegt stríð milli Nató og Rússlands.
Nánast óhugsandi er að Nató-ríkin sendi fótgönguliða til að berjast í austri. Ósk forseta Úkraínu hermenn frá bakhjörlum sínum lýsir örvæntingu en ekki raunsæi.
Úkraínuher stendur höllum fæti á allri víglínunni. Liðhlaup eru algeng og baráttuþrekið fer þverrandi. Á Ramstein-fundinum var rædd áætlun um stuðning við Úkraínu næstu tvö árin, til 2027. Þýskur varnarmálasérfræðingur segir slíka áætlun tilgangslausa sjái Bandaríkin sig um hönd, krefjist friðar.
Fyrrum ofursti í Bandaríkjaher, Daniel L. Davis, heldur úti youtube-rás um Úkraínustríðið. Hann fékk til sín fyrrum sendiherra, Chas Freedman, til að ræða stöðu mála. Þeir segja að stjórnin í Kænugarði sé búin að vera. Engar líkur séu á hagfelldri niðurstöðu fyrir Selenskí og félaga - og vestræna bakhjarla. Spurningin sé aðeins hve slæm útkoman verður.
Davis og Freedman draga upp dökka mynd af ástandinu, kannski er þar eitthvað ofmælt. Diplómatískt orðalag er að segja alla kosti Úkraínu slæma. Vafi leiki á um framtíð úkraínska þjóðríkisins.
Félagarnir, líkt og þorri stjórnarmálaskýrenda, telja Trump forseta ráða miklu, ef ekki öllu, um framvindu mála í austurvegi. Í kosningabaráttunni sagðist Trump ljúka stríðinu innan 24 stunda eftir embættistöku. Nú er talað um páska eða jafnvel næsta hálfa árið.
Haldi Trump og Pútín Rússlandsforseti fund, fljótlega eftir embættistöku Bandaríkjaforseta, er orðspor beggja í húfi. Pútín kemst ekki upp með, gagnvart rússnesku þjóðinni, að gefa frá sér landvinninga sem hafa kostað ómældar blóðfórnir. Trump þarf að skila friði sem felur í sér að Úkraína verði áfram sjálfstætt þjóðríki. Einn fundur slær ekki botninn í Úkraínustríðið. Aftur er líklegt að fyrirsjáanleg eftirgjöf Trump á úkraínsku landi í þágu friðar hafi áhrif á stöðuna á vígvellinum. Ekki Úkraínu í hag.