Kristrún kokgleypir ESB-áróðri um Úkraínu

frettinEvrópusambandið, Innlent, Peningaþvætti, Stjórnmál, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Kristrún forsætis fer nærri að stunda falsfréttamennsku á vef stjórnarráðsins. Þar er haft eftir henni: ,,Ógnir í norðanverðri Evrópu hafa stigmagnast á undanförum misserum, ekki síst í kjölfar árásarstríðs Rússa í Úkraínu."

Norðanverð Evrópa er vanalega skilgreind sem Norðurlönd og eftir atvikum Norður-Atlantshaf. Bretlandseyjar eru gjarnan taldar með. Úkraína hefur aldrei talist til Norður-Evrópu.

Hvers vegna fleiprar Kristrún um ógnir á nærsvæði Íslands vegna Úkraínustríðsins? Ástæðan er að nýorðinn forsætisráðherra kokgleypir áróðri Evrópusambandsins. Í Brussel er sannfæring manna að Úkraínustríðið skipti sköpum fyrir Evrópusambandið - sem fyrst og fremst er meginland Evrópu plús Svíþjóð, Finnland og úteyjan Írland.

Bretland, Noregur, Færeyjar, Ísland og Grænland eru ekki hluti Evrópusambandsins. Þessar þjóðir áttu enga aðild að útþenslu og yfirgangi ESB í austurvegi þar sem úkraínsk stjórnvöld voru véluð til samstarfs.

Rússar eru ekki í landvinningahug í Norður-Evrópu og af þeim stafar engin hætta þjóðum á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin, undir forystu Trump, eru aftur áhugasöm að koma ár sinni betur fyrir borð í hafinu í kringum okkur. Skemmst er að minnast orða Trump að hann vilji kaupa Grænland.

Augljóst er hvað fyrir Trump vakir; að treysta varnir Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi. Bandaríkin líta ekki lengur á meginland Evrópu sem kjarnasvæði sitt er verði að halda uppi hervörn fyrir. Nýja línan í Washington er að Evrópa eigi að ráða fram úr eigin vanda. Í raun var þetta stefna Bandaríkjanna allt til byltingarársins 1917 er þáverandi forseti, Woodrow Wilson, ákvað að ganga til liðs við Frakka og Breta í stríði þeirra við Þjóðverja. Eftir seinna stríð ábyrgðust Bandaríkin lönd vestan megin járntjalds. Nú er ekkert járntjald í Evrópu, aðeins stórveldahagsmunir; Rússlands annars vegar og hinsvegar ESB. Bandaríkin ætla ekki að skipta sér af.

Skilji Kristrún lítt hvar raunverulegir öryggishagsmunir Íslands liggja er utanríkisráðherra hennar hálfu sljórri. Þorgerður Katrín er í henni Brussel að sækja um aðild Íslands að Evrópusambandinu, segir okkur RÚV. Þær stöllur leiða Ísland fram af bjargbrúninni verði af ESB-áætlunum þeirra. Í pólitík yrðum við hjáríki hnignandi ESB en landfræðilega á áhrifasvæði Bandaríkjanna. Ísland gæti sem hægast orðið bitbein stórveldahagsmuna. Það er alversta staða sem smáríki getur ratað í.

Skildu eftir skilaboð