Orkuskortur er ekki slys

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Hvers vegna er stöðnun í Evrópusambandinu (ES) og Bretlandi á meðan allt annað er að gerast í Bandaríkjunum. Mismunurinn hvað varðar orkumál er áberandi. Bretland og ES ríkin gera allt til að rýra samkeppnishæfni sína á grundvelli kolefnisjöfnunar (net zero)en á sama tíma lofar Trump að styrkja orkugeirann til að koma á efnahagslegum stöðuleika, betri lífskjörum og framförum.

Orkuskortur Evrópu er ekki slys heldur afleiðing af röngum ákvörðunum og forgangsröðun á grundvelli grænu hugmyndafræðinnar sem er látin ráða umfram heilbrigða skynsemi. Þetta rugl knúði líka dyra hjá okkur og náði hámarki með innleiðingu orkupakka ES og margvíslegri löggjöf til að leggja hömlur á eðlilega orkuöflun. Afleiðing þess sést m.a. í því að ekki má lengur virkja álitlegar sprænur vegna innleiðingar ES reglna og óvandaðrar lagasetningar Alþingis m.a. vegna bullhugmynda Vinstri grænna með meðábyrgð Sjálstæðis- og Framsóknarflokks. 

Forsenda velfarnaðar er að standa utan ES sem sjálfstæð fullvalda þjóð og neita að taka upp regluverk sem er kyrkingaról um framleiðslu, skattlagningu og lífskjör í landinu.

ES er ekki tilbúið til að móta stefnu styrkleika eins og Trump ætlar sér að gera í Bandaríkjunum. Eftir að ES hefur verið í stöðugri afturför miðað við aðrar iðnvæddar þjóðir væri ánægjulegt að heyra nýar og framsæknar raddir frá Brussel, en það gerist því miður ekki. Þar vantar forustu og nýja nálgun. 

Evrópa á merkustu söguna vegna þess að fólk og þjóðir höfðu hugrekki til að tryggja almenn mannréttindi, frelsi atvinnulífsins og samkeppni til að fullkomna þá möguleika sem voru og eru fyrir hendi. Við eigum að vera kyndilberar þess sem gerði Evrópu sterka með því að sýna hugvit, dirfsku og skynsemi. Það gerum við utan ES af því að þangað er ekkert að sækja.

Við þurfum allra síst að fara yfir bæjarlækinn til að sækja ráð hjá þeim, sem eru að glutra öllu niður um sig.

Skildu eftir skilaboð