Páll Vilhjálmsson skrifar:
Byrlunar- og símamálið, þar sem sex blaðamenn eru með stöðu sakborninga, er á borði ríkissaksóknara. Lögreglan hætti rannsókn í september með sérstakri yfirlýsingu. Brotaþolinn í málinu, Páll skipstjóri Steingrímsson, kærði ákvörðun lögreglu til ríkissaksóknara. Embættið birtir niðurstöðu sína í dag eða næstu daga.
Í yfirlýsingu lögreglunnar frá í september kemur fram að afbrot voru framin á Páli skipstjóra; byrlun, sem telst líkamsárás ef ekki banatilræði, síma hans var stolið og hann afritaður á RÚV sem ekki birti stafkrók upp úr gögnum skipstjórans. Tveir fjölmiðlar, RÚV óviðkomandi, Stundin og Kjarninn, sáu um að birta fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Stundin og Kjarninn birtu efnislega sömu fréttina, um skæruleiðadeild Samherja, snemma morguns 21. maí 2021.
Aðgerðin öll, frá byrlun skipstjórans 3. maí til frétta Stundarinnar og Kjarnans 21. maí, ber þess merki að miðlæg stjórnstöð sá um skipulag og framkvæmd. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti í apríl Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem beið tilbúinn á Efstaleiti er Páli skipstjóra var byrlað. Þóra fékk á símann númerið 680 2140, en númer Páls var 680 214X.
Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra, sem glímir við andleg veikindi, hefur játað að byrla eiginmanninum, stela síma hans og færa Þóru á Efstaleiti. Eftir afritun á RÚV fékk konan símann á ný og skilaði honum á sjúkrabeð Páls skipstjóra sem lá meðvitundarlaus í öndunarvél handan götunnar, á Landsspítala. Úr afritunarsímanum, 680 2140, var reynt að komast yfir persónuleg gögn skipstjórans, s.s. aðgang að samfélagsmiðlum og bankareikningum. Þá var síminn notaður til samskipta við veiku konuna. Í yfirheyrslum lögreglu neita blaðamenn að tjá sig um málsatvik. Fjórir blaðamenn fengu stöðu sakbornings í febrúar 2022, síðar bættust tveir við.
Í gögnum lögreglu eru margvísleg samskipti milli blaðamanna og veiku konunnar. En ekki nærri öll. Lögreglurannsókn hófst sumarið 2021 og fór hægt af stað. Fyrsta yfirheyrslan var ekki á dagskrá fyrr en í byrjun október. Blaðamenn og byrlari höfðu nægan tíma til að eyða gögnum úr snjallsímum og tölvum. Ein ástæða fyrir hægagangi rannsóknarinnar er að lögregla neitaði í fyrstu að trúa að íslenskir blaðamenn, með RÚV í fararbroddi, stunduðu blaðamennsku er fól í sér byrlun og gagnastuld.
Í dag eða næstu daga kemur í ljós hvaða mat embætti ríkissaksóknara leggur á byrlunar- og símamálið. Erlendir fjölmiðlar sýna meiri áhuga á málinu en íslenskir. Hvers vegna skyldi það vera?