Jón Magnússon skrifar:
Í dag 20. janúar, verður Donald Trump settur í embætti forseta Bandaríkjanna (USA) í annað sinn. Fróðlegt verður að hlusta á innsetningarræðu hans, en sú staðreynd að hann skyldi hafa verið endurkjörinn forseti hefur þegar valdið gríðarlegum breytingum í alþjóðastjórnmálum. Vonandi gengur honum vel og vonandi áttar hann sig á, að það gengur ekki að vera með tuddagang gagnvart vinum og bandamönnum Bandaríkjanna hvort heldur það er Danmörk eða önnur vinveitt ríki.
Með endurkomu Trump hættu mörg af risafyrirtækjum USA að vera með dyggðaflöggun fyrir woke mál. Nú er stefnt að meiri háttar áherslubreytingum í stjórnmálum USA. Áhersla er lögð á vöxt og velmegun.
Fróðlegt verður að sjá hve vel Elon Musk nýtist í sparnaðarmálaráðuneyti, en hann hefur talað um að leggja niður fjölda ríkisstofnana.
Áhersla er lögð á orkumál og það sé jafnan til gnægð ódýrrar orku og orkumálaráðherra Trump, Doug Burgum hefur varað við því að USA muni tapa fyrir Kína hvað varðar gervigreind, ef ekki kemur til gnægð ódýrrar orku. Trump hefur lofað að raforkuverð lækki um helming fyrstu 12 mánuði eftir að hann tekur við embætti. Hugmyndir um kolefnishlutleysi eða „net zero“, sem Evrópa er heltekin af verða ekki á dagskrá.
USA mun því eiga alla möguleika að skáka Evrópu algjörlega og stinga af í efnahagslegu tilliti og fleiru á meðan „stjórarnir“ í Brussel verða uppteknir við að finna sem djöfullegustu reglur stöðnunar og kyrrstöðu, varðandi „kyn“ og „hamfarahlýnun“.
Fróðlegt verður að sjá hvernig Trump og félögum gengur að minnka ríkisbáknið og ná markmiðum sínum í orkumálum, til þess að auka hagvöxt og arðsemi, það er að mörgu leyti undirstaða þess að önnur stefnumál ríkisstjórnar Donald Trump nái fram að ganga.