Ný aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra samþykkt í borgarstjórn

frettinFréttatilkynning, InnlentLeave a Comment

Borgarstjórn samþykkti einróma í dag endurskoðaða aðgerðaáætlun með stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, sem gildir til ársins 2027. Skaðaminnkandi, valdeflandi og batamiðuð nálgun sem og hugmyndafræðin um húsnæði fyrst verður áfram leiðarljós í allri þjónustu við hópinn. Auka á áherslu á þjónustu við konur og einstaklinga af erlendum uppruna og þá verður áfram unnið að því að þrepaskipta þjónustunni, þannig að eitt úrræði taki við af öðru eftir þörfum einstaklinga. Markmiðið með því er meðal annars að draga úr þörf á neyðarrýmum samhliða því að fjölgun verði á tímabundnu húsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum.

Mikil fjölgun úrræða frá því að stefnan var samþykkt 2019

Reykjavíkurborg samþykkti stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir árið 2019. Enn sem komið er er sú stefna sú eina sem til er á landinu en hvorki ríkið né önnur sveitarfélög hafa sett sér stefnu í málaflokknum. Mikil framþróun hefur átt sér stað innan borgarinnar síðan. Til að mynda voru 101 rými í úrræðum velferðarsviðs fyrir hópinn árið sem stefnan var samþykkt, en þau eru 187 í dag. Hvort tveggja hefur verið bætt við tímabundnu neyðarhúsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum, sem hefur fækkað þeim sum þurfa að nýta gistiskýli.

Margt fleira hefur áunnist. Sem dæmi má nefna að árið 2022 var nýtt áfangaheimili fyrir 14 konur tekið í notkun og þá var tímabundið neyðarhúsnæði fyrir karlmenn tekið í notkun í lok árs 2023. Jafnframt hefur markviss leit staðið yfir að nýju húsnæði fyrir Konukot. Í ársbyrjun 2023 var tekin ákvörðun um að hækka gistináttagjald annarra sveitarfélaga fyrir gistingu í neyðarskýlum og um svipað leyti gerðu Heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og Sjúkratryggingar Íslands með sér samning um heilbrigðisþjónustu á vettvangi fyrir heimilislaust fólk. Í árslok 2023 hafði verið úthlutað í öll smáhúsin 20 sem komið hefur verið fyrir á víð og dreif um borgina, og í fyrravetur var gengið var til samstarfs við Samhjálp um vetraropnun á Kaffistofu Samhjálpar, þangað sem gestir neyðarskýla geta leitað á meðan þau eru lokuð. Þess má geta að hjálparsamtök bjóða einnig fleiri möguleika. Hjálparstarf kirkjunnar rekur Skjólið sem er dagdvöl fyrir konur og Hjálpræðisherinn er öllum opinn.

106 nýjar húsnæðiseiningar fyrir árslok 2027

Frá því árið 2021 hefur stýrihópur um endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar unnið að tillögum eða breyttum aðgerðum, forgangsröðun þeirra og kostnaðarmati. Aðgerðirnar í endurskoðaðri aðgerðaáætlun fela eftirfarandi í sér:  

  • Stefnt er að uppbyggingu 106 nýrra húsnæðiseininga fyrir árslok 2027.
  • Búið verður til nýtt verklag um mat á því hvort einstaklingur falli undir markhópinn heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
  • Nýtt neyðarskýli fyrir heimilislausar konur verður tekið í notkun sem tekur við af Konukoti.
  • Gerð verður þarfagreining á nýju neyðarskýli fyrir karlmenn í stað þeirra sem eru nú opin.
  • Dregið úr þörf fyrir neyðarskýli samfara húsnæðis- og þjónustuuppbyggingu.
  • Gerð verði þarfagreining fyrir sólarhringsþjónustu / íbúðakjarna fyrir heimilislausa karlmenn með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
  • Stöðugildum í Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar verði fjölgað, meðal annars svo hægt verði að koma á næturþjónustu, en teymið sinnir bæði vettvangsþjónustu og húsnæðisstuðningi.
  • Lögð verði fram tímasett og kostnaðarmetin áætlun um með hvaða hætti megi koma í veg fyrir heimilisleysi ungmenna.
  • Mótaðar verði tillögur um hvernig hægt sé að tryggja heimilislausum, með langvarandi stuðningsþarfir vegna fötlunar og vímuefnavanda, viðeigandi búsetuúrræði.
  • Komið verði á auknu samtali, samráði og stuðningi við íbúa borgarinnar sem búa í nágrenni við úrræði sem veita heimilislausum þjónustu.
  • Stuðlað verði að opnun virkniúrræðis fyrir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir, þar sem Reykjavíkurborg yrði einn samstarfsaðila.
  • Komið verði á auknu samtali við ríkið vegna þjónustu við einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir, sem jafnan hafa þörf fyrir hvort tveggja velferðar- og heilbrigðisþjónustu.
Barist verður fyrir þátttöku annarra opinberra aðila 

Heiða Björg Hilmisdóttir,  formaður velferðarráðs, hefur lagt mikla áherslu á málaflokk heimilislausra í sínum störfum. Tillaga um að hún taki við formennsku í borgarráði liggur fyrir  fundi borgarstjórnar í dag. Samþykkt nýrrar aðgerðaáætlunar var því eitt af hennar síðustu verkum sem formaður velferðarráðs. Hún segist afar ánægð með þann árangur sem náðst hafi í hennar formannstíð. Reykjavíkurborg hafi haft algera forystu í stefnumótun í málaflokknum og hafi að mestu leyti staðið fyrir uppbyggingu á þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Tími sé til kominn að ríkið og önnur sveitarfélög komi að henni að mun meira leyti. „Reykjavíkurborg hefur borið hitann og þungann af þeirri þjónustu sem veitt er heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir," segir Heiða. „Það er mikilvægt að ríkið móti stefnu í málaflokknum og auki fjármagn til hans. Einnig að önnur sveitarfélög setji sér áætlanir um viðbrögð því að heimilislaust fólk með lögheimili utan Reykjavíkur sæki þjónustu til höfuðborgarinnar. Einstaklingar sem búa við heimilisleysi eru mun líklegri en aðrir til að glíma við geðrænar áskoranir, líkamleg veikindi, vímuefnavanda og þunga áfallasögu og þess vegna er þörf er á aukinni samvinnu milli kerfa til að hægt sé að veita þessum hópi viðeigandi þjónustu. Við þurfum öll að eiga heimili, svo við þurfum öll að leggjast á eitt og útrýma heimilisleysi. Það er flókið verkefni sem getur ekki eingöngu verið á höndum Reykjavíkurborgar," segir Heiða.

 

Skildu eftir skilaboð