RÚV þegir um hlut Þóru í skæruliðafréttinni

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fréttin um skæruliðadeild Samherja frumbirtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum, að morgni dags 21. maí 2021. Fréttin, efnislega samhljóða í báðum miðlum, vísaði í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, einkum samtöl við samstarfsmenn. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV fékk síma skipstjórans til afritunar 4. maí 2021.

Kveikur er fréttaskýringaþáttur. Hvers vegna notaði Þóra ekki efni úr síma skipstjórans í fréttaskýringu um skæruliðadeild Samherja? Hvers vegna var fréttin send á Stundina og Kjarnann til birtingar? Fjölmiðlar vinna aldrei þannig að einn fjölmiðill aflar heimilda, vinnur fréttina og sendir hana á aðra fjölmiðla til birtingar. Allir blaðamenn vita að svona vinnubrögð eru aldrei stunduð á fjölmiðlum.

Lifibrauð fjölmiðla er fréttir. Fjölmiðill sem situr einn að frétt en gefur hana frá sér til annarra fjölmiðla er augljóslega ekki að stunda fréttamennsku. Eitthvað annað en að upplýsa almenning býr að baki.

Af öllum fjölmiðlum á Íslandi ber RÚV mesta ábyrgð að upplýsa þjóðina, eiganda ríkisfjölmiðilsins, hvers vegna starfsmenn RÚV tóku við síma, sem fékkst með byrlun, afrituðu efni símans, unnu frétt og sendu tvær útgáfur hennar á Stundina og Kjarnann.

Í gærkvöld birti RÚV fréttaskýringu um staðfestingu ríkissaksóknara að lögreglurannsókn er hætt á hlut blaðamanna í byrlunar- og símamálinu. RÚV birtir mynd af Þóru ásamt öðrum sakborningum en fjallar ekkert um hlut hennar að málinu.

Þóra fékk stöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu í febrúar 2022, ásamt blaðamönnum á Stundinni og Kjarnanum. Í ársskýrslu RÚV er staða Þóru sem sakbornings útskýrð. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri eru skrifaðir fyrir eftirfarandi:

Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, [...]Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna.(feitletrun pv)

Réttlæting Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttarstjóra gengur út á að verjandi sé að fjölmiðill taki við illa fengnu efni sem eigi ,,erindi til almennings." Þóra Arnórsdóttir tók við gögnum, það viðurkenna Stefán og Heiðar Örn, en Þóra og RÚV birtu enga frétt.

Er fjölmiðill veitir gögnum viðtöku er tilgangurinn að birta frétt, eigi efnið ,,erindi til almennings." Þar sem efnið var ekki birt á RÚV hlýtur það að hafa verið mat Þóru að skæruliðafréttin ætti ekki erindi til almennings. Ályktunin liggur í augum uppi. Staðfest í orðum Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttastjóra annars vegar og hins vegar verkum Þóru - að birta ekki skæruliðafréttina.

Þóra hélt stöðu sinni sem ritstjóri Kveiks í heilt ár eftir að hún varð sakborningur í febrúar 2022. Svo gerist það ári síðar, 6. febrúar 2023, að RÚV birtir frétt um að Þóra sé hætt:

Þóra Arnórsdóttir lét í dag af starfi sem ritstjóri Kveiks. Þeirri stöðu hafði hún gegnt frá því þátturinn hóf göngu sína 2017 ef undan er skilið eitt ár þegar hún var í leyfi.

Þóra fékk fullan stuðning Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnar fréttastjóra eftir að hún varð sakborningur í febrúar 2022 en ári síðar hættir hún störfum fyrirvaralaust og án skýringa.

Hvað breyttist?

Jú, tilfallandi útskýrði það í bloggi stuttu eftir grunsamleg starfslok Þóru:

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.  

Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.

Þóra Arnórsdóttir á RÚV var ekki saklaus viðtakandi stolins síma, sem fékkst með byrlun. Hún vissi fyrirfram að sími Páls skipstjóra var væntanlegur. Skipulagið gekk út á að afrita með hraði illa fenginn síma og skila tilbaka á sjúkrabeð skipstjórans sem lá meðvitundarlaus á Landspítalanum í Fossvogi, steinsnar frá Efstaleiti, dagana 4.-6. maí 2021.

Þóra vissi að sími skipstjórans var væntanlegur og það var einnig búið að ákveða fyrirfram að RÚV myndi ekki birta frétt upp úr stolnu gögnunum. Skipulagið gerði ráð fyrir að afritun og fréttavinnsla færi fram á Efstaleiti en að Stundin og Kjarninn skyldu sjá um birtingu.

Stefán útvarpsstjóri og Hreiðar Örn fréttastjóri studdu Þóru með sérstakri yfirlýsingu í febrúar 2022 og áttu vitanlega að gefa aðra yfirlýsingu ári síðar um að Þóra hefði fyrirfram vitað af afbrotinu gegn Páli skipstjóra. Í ljósi fyrri yfirlýsingar var það fagleg og siðferðisleg skylda útvarpsstjóra og fréttastjóra að upplýsa um málsatvik. En báðir þögðu. Alveg eins og sakborningarnir sex í yfirheyrslum lögreglu. 

Aðalsteinn Kjartansson, einn sakborninga, var undirmaður Þóru á Kveik, þangað til þremur dögum fyrir byrlun. Föstudaginn 30. apríl 2021 fór Aðalsteinn af Kveik yfir á Stundina, sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrði. Aðalsteinn er skráður höfundur skæruliðafréttarinnar sem birtist í Stundinni. Að kveldi 21. maí 2021, daginn sem Stundin og Kjarnin birtu skæruliðafréttina, deildi Þóra frétt Aðalsteins á Facebook og skrifaði eftirfarandi færslu:

Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir.

Fréttin sem hún fékk sem ritstjóri Kveiks var komin í loftið í öðrum fjölmiðli og Þóra lætur eins og hún sjái hana i fyrsta sinn. Færslan á Facebook er til að afvegaleiða og blekkja. Ekki undir nokkrum kringumstæðum mátti það fréttast að sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti og að aðgerðin öll var skipulögð.  

Fréttamaðurinn sem vann fréttaskýringu RÚV í gær heitir Brynjólfur Þór Guðmundsson. Hann er sami fréttamaðurinn og skrifaði fréttina um fyrirvaralaus starfslok Þóru Arnórsdóttur 6. febrúar 2023.

Brynjólfur Þór fréttamaður veit meira en hann lætur uppi um óvænt starfslok Þóru og aðkomu hennar að byrlunar og símamálinu. En það er ekki fréttamennska sem Brynjólfur Þór stundar, ekki frekar en Þóra vorið 2021. Fagmennskan á Glæpaleiti snýr að öðru en fréttaflutningi.

Skildu eftir skilaboð