Nú verður skákað í skjóli Trumps

frettinGeir Ágústsson, Innlent, Pistlar, TrumpLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Einn óheppnasti álitsgjafi og pistlahöfundur Íslands þessi árin er Sigmundur Ernir Rúnarsson, ræðumaður. Hann vildi á veirutímum mismuna fólki eftir vali á lyfjagjöf, og boðar auðvitað allt þetta venjulega: Hærri skatta, lægri skatta, meira frelsi og minna frelsi. Staðfastur eða ekki, og drifinn áfram af hugsjónum eða andrúmslofti dagsins.

Nýlega sleppti hann lausum pistli þar sem hann varar við nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Heimsendir er í nánd, ef marka má Sigmund Erni:

Mannréttindasigrum síðustu áratuga, sem hafa unnist með blóði, tárum, dauða og útlegð, verður snúið í tap. Líklega afhroð.

Úff! Blóð!

Það er búið að gefa út leyfi til að láta hvað eina út úr sér.

Ónei! Það er búið að gefa út leyfi! Leyfi! 

Fyrir vikið munu hatursglæpir aukast. Og þeir verða hræðilegri en áður hefur þekkst.

Af því það er búið að gefa út leyfi fyrir glæpi? Það fylgir ekki sögunni.

Það skal þegar snúið af þeirri beinu braut mannréttinda þar sem hlustað er á allar raddir samfélagsins.

Ekki satt?

Og vel að merkja, hér eftir eru kynin aðeins tvö, karl og kona.

Jæja þá, líffræðikennslan mín í grunnskóla var þá ekki algjör vitleysa. Eftir stendur hugtakið kynvitund, sem öllum er þannig séð sama um: Fólk á hafa hvaða þá vitund sem það kærir sig um. Kynin verða áfram tvö.

Það læðist að manni sá grunur að ræðumaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson hafi verið hér að verki sem pistlahöfundurinn Sigumundur Ernir Rúnarsson, en látum það liggja á milli hluta.

Margir eru enn að fara á taugum yfir niðurstöðum forsetakosninga í Bandaríkjunum. Gott og vel, forseti Bandaríkjanna er valdamikill og áhrifamikill. En kannski reynslan af fyrri forsetatíða sama manns gefi ástæðu til að taka því rólega. Á þeirri forsetatíð hófust engin ný stríð og sum vopnlaus átök tóku jafnvel enda. Allt tal um að taka þetta og hitt er samningatækni manns sem hefur rifist við byggingaverktaka í áratugi og beitir núna sömu aðferðafræði sem stjórnmálamaður. Hvort það virki eða ekki kemur í ljós, og í lýðræðisríki afhjúpa kjósendur skoðun sína á því í næstu kosningum. Köllum það lýðræði, hvort sem okkur líkar betur eða verra. 

Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður eða andstæður núverandi Bandaríkjaforseta en frekar rólegri en hitt að það tókst að moka út fráfarandi strengjabrúðunni sem var að steypa heiminum svolitla ringulreið, mögulega í svefni.

Sjáum bara hvað setur, segi ég. 

Skildu eftir skilaboð