Mætir útvarpsstjóri í viðtal hjá Stefáni Einari?

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Páll skipstjóri Steingrímsson gerir grein fyrir sinni hlið í byrlunar- og símamálinu. Í viðtali við Stefán Einar í Spursmálum, sjá viðtengda frétt, fer hann yfir lífsreynsluna að vera byrlað í þágu blaðamanna, til að hægt væri að stela síma hans og afrita á RÚV.

Stefán Einar segir á Facebook eftir viðtalið:

Næsta vers er að ræða við útvarpsstjóra og aðra þá sem málinu tengjast. Auðvitað verður að fá úr því skorið hver aðkoma RÚV var að þessum hryllilega harmleik sem hefði næsta auðveldlega getað endað með því að Páll hefði týnt lífi. Það er í raun kraftaverk að hann hafi lifað eitrunina, sem hann varð fyrir í maí 2021, af.

Orð Stefáns Einars gefa væntingar um að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fái boð um að mæta í viðtal til að gera grein fyrir sinni hlið. Útvarpsstjóri ber sem yfirmaður RÚV ábyrgð á allri starfsemi ríkisfjölmiðilsins. Útvarpsstjóri hefur aldrei tjáð sig um þá vitneskju sem hann býr að um byrlunar- og símamálið.

Stefán skrifaði undir yfirlýsingu með Heiðari Erni Sigurfinnssyni fréttastjóra RÚV um að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hafi í maí tekið við síma Páls skipstjóra. Yfirlýsingin var gefin út í febrúar 2022, þegar Þóra varð sakborningur í lögreglurannsókn. Þeir Stefán og Heiðar segja að Þóra hafi verið í fullu rétti að taka við síma skipstjórans með þessum rökum:

Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, líkt og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin (feitletr. pv)

Í viðtalinu við Stefán Einar vekur skipstjórinn máls á þessari játningu útvarpsstjóra og fréttastjóra, að sími hans var afritaður á Efstaleiti og þar urðu til gögn. En RÚV frumbirti enga frétt úr síma skipstjórans. Afritun og úrvinnsla, þ.e. fréttaskrif, fóru fram á RÚV en Stundin og Kjarninn birtu samtímis fréttina morguninn 21. maí 2021. Ef upplýsingarnir úr síma skipstjórans áttu ,,erindi til almennings," eins og segir í yfirlýsingu útvarpsstjóra og fréttastjóra, hvers vegna birti RÚV ekki upplýsingarnar?

Svarið er augljóst. Byrlunar- og símamálið lýtur skipulagi sem búið var að ákveða áður en skipstjóranum var byrlað. Þóra Arnórsdóttir keypti í apríl 2021 Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu er stolið símtæki skilaði sér á Efstaleiti 4. maí. Ekki mátti grunur vakna um að aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti. Gagna var aflað með lögbrotum og siðleysi af einum fjölmiðli, RÚV, en þar birtust engar fréttir. Aðgerðin var skipulögð á Efstaleiti en látið líta svo út að Stundin og Kjarninn hefðu með sjálfstæðum hætti aflað heimilda fyrir sömu fréttina - um meinta skæruliðadeild Samherja. Almenningur var blekktur til að halda að glæpsamleg aðför væri heiðarleg blaðamennska.

Í fyrirsögn þessa bloggs er spurt hvort Stefán útvarpsstjóri mæti í Spursmál hjá nafna sínum og svari fyrir aðild RÚV að byrlunar- og símamálinu. Líklega ekki. En Stefán útvarpsstjóri getur ekki skorast undan að mæta fyrir rannsóknanefnd alþingis.

Skildu eftir skilaboð