Stjórn RÚV spyr Stefán um kostun, ekki byrlun

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Í nýjustu fundargerð stjórnar RÚV er sagt frá fyrirspurn stjórnarmanns til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra um kostun á dagskrárefni, hvaða reglur gildi og ,,hvernig ritstjórnarfrelsi stofnunarinnar sé tryggt þegar RÚV fær greitt fyrir umfjöllun."

Hér er tæpt á ritstjórnarstefnu og sjálfstæði RÚV og samskipti við aðila utan stofnunarinnar. Beðið er um upplýsingar fimm ár aftur í tímann.

Fyrirspurnir stjórnarmanna til útvarpsstjóra af þessu tagi eru algengar eins og sjá má af fundargerðum.

Stefán útvarpsstjóri hefur þó aldrei verið spurður um byrlunar- og símamálið af stjórn RÚV. Fyrir liggur, staðfest með lögreglurannsókn, að sími Páls skipstjóra Steingrímssonar var afhentur RÚV. Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri staðfestu með yfirlýsingu í febrúar 2022 að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks hafi tekið við símanum. Einnig er staðfest að RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Þóra tók við símanum í öðrum tilgangi en að vinna frétt fyrir RÚV.

Fréttin, um meinta ófrægingarherferð svokallaðar skæruliðadeildar á hendur blaðamönnum, birtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum 21. maí 2021, 17 dögum eftir að gögnin, sem vísað er í, komu í hús á Efstaleiti. Hlutverk RÚV er ekki að afla gagna með vafasömum hætti, svo vægt sé til orða tekið, og framselja fréttir upp úr þeim gögnum í hendur annarra fjölmiðla. Það er ekki viðurkennd ritstjórnarstefna, hvorki á RÚV né öðrum miðlum.

Ófrávíkjanleg regla fjölmiðla er að birta sjálfir þær fréttir sem unnar eru á ritstjórn fjölmiðilsins. Í húfi er traust og trúverðugleiki. Af ástæðum, sem enn hafa ekki verið útskýrðar af RÚV, ákvað Þóra, líklega með vitund fréttastjóra, að fréttin sem vísaði í gögn úr síma skipstjórans skyldi fara í tvíriti til Stundarinnar og Kjarnans en ekki birtast á RÚV. Ríkisfjölmiðillinn blekkti almenning, vann frétt en sendi hana til birtingar á jaðarfjölmiðla. Hvers vegna þessi feluleikur?

Ári eftir játningu Stefáns útvarpsstjóra og Heiðars Arnars fréttastjóra, um að Þóra hefði tekið við síma skipstjórans, var upplýst að Þóra hefði keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, í apríl 2021, áður Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið. Þóru-síminn var notaður til að afrita síma skipstjórans. Eftir að upp komst um þessa aðild Þóru var hún án skýringa látin fara frá RÚV.

Hvers vegna spyr enginn í stjórn RÚV Stefán útvarpsstjóra um málavöxtu? Aðkoma ríkisfjölmiðilsins að byrlun og gagnastuldi er margfalt mikilvægari en álitamál um kostun á dagskrárefni.

Í viðtengdri frétt er haft eftir Páli skipstjóra að hann undirbýr að stefna RÚV fyrir dóm vegna aðildar ríkisfjölmiðilsins að byrlunar- og símamálinu. Af hálfu RÚV væri meiri bragur að stíga fyrsta skrefið og upplýsa um málsatvik. Óviðunandi er að saklausir borgarar, sem verða fyrir barðinu á RÚV, þurfi að leita til dómstóla til að rétta sinn hlut.

Fordæmið, sem útvarpsstjóri og stjórn RÚV setja, með því að sópa málinu undir teppið, er verulega slæmt. Nánast er sagt að landslög og almennt siðferði gildi ekki er RÚV á hlut að máli.

Skildu eftir skilaboð