Tapað tjáningarfrelsi í Evrópu og á Íslandi

frettinEvrópusambandið, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Evrópa hefur misst sjónir á eigin grunngildum og berst við ímyndaða ógn frá Rússum. Tapað tjáningarfrelsi er meiri ógn fyrir almenning í Evrópu en sú hætta sem stafar að Rússlandi.

Á þessa leið mæltist J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna á öryggisráðstefnu í München. Allir bjuggust við að Vance talaði um ytri ógnir, s.s. Rússlands og e.t.v. Kína. En, nei, varaforsetinn tók dæmi af Svíþjóð, Englandi, Belgíu og Skotlandi þar sem frjáls tjáning er skert ef ekki bönnuð til að þóknast sérhagsmunum.

Í Evrópu, sagði Vance, nota menn hugtök eins og hatursræðu og upplýsingaóreiðu til að kæfa frjálsa tjáningu. Eftir að hafa rætt hörð kjör frjálsrar orðræðu í Evrópu ræddi Vance útlendingamál í álfunni, einkum innflutning á múslímskri trúarmenningu, og tilraunum til að kæfa andóf gegn rangri stefnu stjórnvalda. Ræðan er ekki nema um 18 mínútur. Ræða Vance er mál málanna í Evrópu þessa helgi. Ef einhver skyldi halda að Trump forseti sé annarrar skoðunar en varaforsetinn þá styður Trump boðskap Vance.

Ísland hefur smitast af Evrópuelítunni sem vill setja frjálsri umræðu harða kosti í málaflokkum sem elítan gerir að sínum. Mannlíf hefur eftir Samtökunum 78 að fimm einstaklingar hafi verið kærðir til lögreglu fyrir að gagnrýna lífsskoðunarfélagið með einum eða öðrum hætti.

Ákæruvaldið ákvað að taka mark á kærum Samtakanna 78 í stað þess að henda þeim í ruslið. Tilfallandi bloggari er einn þeirra sem er ákærður af ríkisvaldinu í kjölfar kæru Samtakanna 78. Allt að tveggja ára fangelsi eru viðurlögin og fjársekt í ofanálag. Tilfallandi gerði grein fyrir ákærunni í bloggi:

Með ákærunni hlutast lögreglan til um opinbera umræðu frjálsra borgara um samfélagsleg málefni. Lögreglan tekur að sér í verktöku fyrir Samtökin 78 að þagga niður í þeim sem andmæla lífsskoðunarfélaginu og sértrúarboðskap þeirra í leik- og grunnskólum.

Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að lífsskoðunarfélag eins og Samtökin 78 kæri mann og annan. Orðið er frjálst - líka til að skrifa kærur. Annað og alvarlegra mál er að ríkisvaldið, ákæruvaldið, tekur upp á því að ákæra einstakling fyrir að hafa skoðun. Ríkissaksóknari, æðsti handhafi ákæruvaldsins, á ekki að stunda nornaveiðar í þágu lífsskoðunarfélags. Málfrelsið er hornsteinn annarra mannréttinda. Fari tjáningarfrelsið forgörðum á Íslandi er fokið í flest skjól frjálsra borgara.

Mál tilfallandi er komið lengst af þeim fimm er sæta ákæru fyrir rangar skoðanir. Ég mun mæta fyrir héraðsdóm Reykjavíkur í lok mánaðarins til að svara fyrir þær sakir að hafa andmælt starfsemi Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum. Öðrum þræði grátbroslegt, hinum þræðinum harmleikur lýðræðisríkis þar sem ákæruvaldið misþyrmir frjálsri orðræðu.

Skildu eftir skilaboð