Heimatilbúin vandamál í nafni umhverfisverndar

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Vestræn samfélög geta verið lausnamiðuð. Menn geta lagt hausinn í bleyti og lagst á árar saman og leyst alveg ótrúleg vandamál. Þannig tókst Íslendingum að fara í næstum því 100% orkuskipti yfir í endurnýjanlega og umhverfisvæna orku með notkun fallvatna og jarðvarma - hið agnarlitla sem eftir er í formi jarðefnaeldsneytis knýr svo hagkvæman flota af bílum og skipum og er til ráðstöfunar sem varaafl. Í evrópsku samhengi hugsa ég oft til Hollendinga sem tekst með tækni og hugviti að flytja út meira af matvælum en nokkurt annað ríki veraldar ef Bandaríkin eru undanskilin, og þeir sem þekkja Holland á landakorti botna ekkert í því hvernig svona agnarsmátt frímerki getur staðið undir slíkri framleiðslu. Þar hefur mönnum líka tekist vel að halda hafinu frá láglendi sínu með notkun áveituskurða, dælukerfa og annarrar tækni.

Hugvitinu eru nánast engin takmörk sett þegar kemur að því að leysa stór og erfið vandamál og sagan er troðfull af dæmum um slíkt.

En hugvitinu má líka beina í andstæða átt: Því að framleiða vandamál. Heimatilbúin, manngerð vandamál. Slík vandamál auka kostnað, draga úr stöðugleika, valda óþægindum og yfirleitt kosta þau líka fleiri auðlindir en gömlu og hagkvæmu lausnirnar vegna innleiðingar á lélegri endingartíma.

Hérna má nefna sem augljóst dæmi alla sóunina og ringulreiðina í kringum sorphirðu og -förgun, að ónefndum kostnaðinum og óþægindunum, en annað augljóst dæmi er lagning vega. Áður fyrr var hægt að leggja góða og sterka vegi sem entust svo árum skiptir. Í dag grotna vegir niður á nokkrum misserum og viðvörunarskilti sem vara til banvænni hálku nauðsynleg þegar er nýbúið að leggja malbik.

Ég les í skrifum manna sem þekkja til vegamála að hérna séu yfirvöld að búa til stór og mikil vandamál. Ekki má lengur nota steinolíu í malbikið, en hún þornaði hratt og skildi eftir sig sterkt malbik. Þess í stað eru lífolíur notaðar, og þær þorna lítið sem ekkert. Niðurstaðan er lélegur vegur. Er þetta gert í nafni umhverfisverndar og niðurstaðan er sama sóunin og ringulreiðin og gildir í kringum sorphirðu, en að auki er öryggi fólks ógnað.

Í nánast öllum tilvikum þar sem yfirvöld taka úr sambandi góðar og þaulreyndar lausnir og innleiða í staðinn lélegar og kostnaðarsamar lausnir, gjarnan með stuttan líftíma, þá er hægt að rekja orsökina til umhverfisverndar. Út með góð hráefni, inn með léleg. Út með endingu, inn með grænt bókhald sem segir að loftslaginu sé hlíft. Út með uppbyggingu á innviðum og orkuframleiðslu, inn með hækkandi rafmagnsverð og skerðingar á raforku.

Menn gera stöku sinnum hlé á þessu rugli, svo sem þegar reisa þarf veggi til að verjast hrauni og halda innviðum í gangi þegar eldsumbrot ganga yfir, en yfirleitt ekki. Óteljandi leyfi þarf frá óteljandi opinberum einingum sem herskáir þrýstihópar geta tafið með endalausum kæruferlum.

Ég velti því fyrir mér hvað þurfi að gerast til að sparka þessa spilaborg niður. Forstjórar og aðrir yfirmenn í atvinnulífinu mættu gjarnan tjá sig meira um raunveruleikann. Kannski vantar frambjóðanda til þings sem kann að halda á vélsög. Eða hvað? Er hið óumflýjanlega gjaldþrot sem er svo sannarlega endastöðin á þessari vegferð eina leiðin út? Vonum ekki.

Skildu eftir skilaboð