Selenskí og Trump – himnaríki og helvíti

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, Trump, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tilboð Selenskí að segja af sér forsetaembættinu flýtir falli Úkraínu. Landið fær ekki Nató-aðild út á afsögnina. Innrás Rússa hófst fyrir þremur árum til að koma í veg fyrir að Úkraína yrði Nató-ríki.

Ástæðan fyrir tilboði Selenskí um afsögn er ekki Rússland heldur Trump. Sitjandi Bandaríkjaforseti hlaut kosningu í nóvember á síðasta ári m.a. út á loforð um að binda endi á Úkraínustríðið.

Úkraína var viljugt verkfæri Evrópusambandsins og Biden fráfarandi Bandaríkjaforseta til að knésetja Rússland. Verkaskiptingin var að vestrið útvegaði fé, vopn og efnahagsþvinganir gegn Rússum en Selenskí hermenn og vígvöll. Fyrst eftir að stríðsátök brutust út, í febrúar 2022, mátti ekki á milli sjá hvor stríðsaðili hefði betur. Annað stríðsárið, 2023, var þrátefli. En á síðasta ári var öllum ljóst að Rússar stóðu af sér efnahagsþvinganir, vestræn vopn og fjármuni. Víglínan hreyfist ekki hratt en hún breytist jafnt og þétt Rússum í vil. Gnótt er af vopnum og skotsilfri Úkraínumegin en skortur á mannafla. Fyrir stríð taldi Úkraína 40 milljónir manna. Rússland er 140 milljónir.

ESB og Selenskí hugðust beita þeirri herfræði á Trump að leiða hann í smáskrefum inn í stríðsbröltið og gera hann samábyrgan. Trump ákvað að virða kosningaloforðið og sneri sér beint til Pútín Rússlandsforseta með friðartilboð. ESB og Úkraína voru sett út í kuldann. Selenskí brást ókvæða við, nánast skoraði Trump á hólm en býður nú afsögn sína. ESB bryður jaxlana, vitandi að án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínustríðið gjörtapað. ESB mun sitja uppi með öflugt Rússland í túnfætinum gangi fram rússneskur friður.

Eina sem bjargað getur Selenskí og ESB er að snuðra hlaupi á þráðinn í viðræðum Bandaríkjanna og Rússlands. Það gæti gerst en þá myndu Pútín og sérstaklega Trump tapa andlitinu, verða ótrúverðugir. Orðspor beggja forseta er í húfi.

Samninganefndir Bandaríkjanna og Rússlands fjalla ekki fyrst og fremst um frið í Úkraínu. Aðalatriðið er samskipti stórveldanna að gefnum stríðslokum. Ef og þegar samkomulag næst um gagnkvæma hagsmuni stórveldanna verður hugað að útfærslu á Úkraínufriði. Ástæðan fyrir móðursýki ESB er að í Brussel óttast umboðslausir tæknikratar að Bandaríkin yfirgefi Evrópu er stríði linnir.

Á meðan viðræður Bandaríkjanna og Rússlands standa er áfram barist í Úkraínu. Vígstaða Rússa styrkist dag frá degi. Trump og Pútín geta stytt eða lengt sínar viðræður um vikur ef ekki mánuði. Tíminn vinnur með fyrirsjáanlegum friði. Baráttuþrek Úkraínuhers eykst ekki við að Selenskí forseti bjóðist til að segja af sér.

Í upphafi stríðsátaka fyrir þrem árum talaði vestrið fjálglega um að lýðræði og frelsi vesturlanda væri í húfi á gresjum Garðaríkis. Enginn nennir lengur að halda hugsjónablekkingunni á lofti.

Um hvað er þá barist? Tvennt. Í fyrsta lagi öryggishagsmuni og valdajafnvægi i Austur-Evrópu. Í öðru lagi hráa viðskiptahagsmuni, sbr. kröfu Trump um að Úkraína afsali sér náttúruauðlindum og innviðum til Bandaríkjanna fyrir veitta aðstoð.

Í menningarpólitísku samhengi er Úkraínustríðið milli hugsjónamanna og raunsæismanna. Hugsjónfólk fylkti sér um Selenskí og Úkraínu. Raunsæismenn töldu stríð óþarfa. Auðvelt var að semja um öryggishagsmuni og valdajafnvægi í Austur-Evrópu án vopnaskaks. Hugsjónafólkið vildi blóð og landvinninga. Eftir innrás Rússa fyrir þrem árum töldu raunsæismenn farsælast að Rússar hefðu betur. Ástæðan er einfaldur reikningur. Rússneskt niðurlæging á vígvellinum þýddi kjarnorkustyrjöld og/eða að kjarnorkuveldið leystist upp í innanlandsófriði og vopnabúrið færi á flakk til misáreiðanlegra aðila. Í báðum tilvikum eru afleiðingarnar stórum hrikalegri en að Selenskí forseti bíði lægri hlut og land skipti um yfirráð. Orðaskrautið um frelsi og lýðræði var aldrei trúverðugt í augum raunsæismanna.

Hugsjónafólk skilur ekki að pólitík gengur út á skásta kostinn, sá besti er aldrei í boði. Pólitík er tilraun til mannlífs í samlyndri siðmenningu. Um manninn gildir að hann er pólitískt dýr, sagði Aristóteles fyrir 2500 árum. Sagt með öðrum orðum; dýrslegt félagseðli mannsins gefur færi á siðmenningu en tryggir hana ekki. Raunsæismenn kunna þessa lexíu og vinna með manneðlið eins og þar. Hugsjónamenn skrifa handrit að fegurri nýrri veröld. Himnaríki er lofað en efndirnar eru helvíti á jörð.

Skildu eftir skilaboð