Stefán, Þóra og Samsung síminn

ritstjornInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fyrstu sakborningarnir í byrlunar- og símamálinu voru fjórir. Af Stundinni og Kjarnanum voru það blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson. Þessir þrír blaðamenn birtu samtímis sömu fréttina í sínum miðlum morguninn 21. maí 2021 með vísun í gögn úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV er fjórði sakborningurinn. Hún frumbirti enga frétt.

RÚV sagði fréttina um sakborningana fjóra 14. febrúar 2022. Ef Þóra birti enga frétt hvers vegna var hún sakborningur? Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV útskýrðu fyrir alþjóð, fimm dögum eftir að Þóra varð sakborningur, hver ástæðan var fyrir réttarstöðu ritstjóra Kveiks. Fréttatilkynning Stefáns og Heiðars Arnar er í heild svohljóðandi:

Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, líkt og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna. (feitletr. pv)

Með þessari yfirlýsingu tekur Stefán fulla ábyrgð á starfsháttum Þóru í byrlunar- og símamálinu. Þegar yfirlýsingin er skrifuð, í febrúar 2022, liggur fyrir í málinu að Þóra tók ekki við efni/gögnum/upplýsingum heldur heilu símtæki sem var persónuleg eign Páls skipstjóra. Páll er óbreyttur borgari, ekki með önnur mannaforráð en yfir áhöfn á fiskiskipi. Skipstjórinn er ekki valdamaður í samfélaginu. Þóra vissi vel hver átti símann, hún tók við honum úr hendi eiginkonu skipstjórans. Þóra fletti ekki símanum í leit að tilteknum gögnum sem ættu ,,erindi til almennings" heldur afritaði hún símann í heild sinni með öllum persónulegum gögnum skipstjórans.

Í febrúar 2022 liggur einnig fyrir að Þóra á RÚV frumbirti ekki eina einustu frétt sem vísaði í efni úr síma skipstjórans. Stefán segir í yfirlýsingunni að fjölmiðlum  er ,,rétt að fjalla um" efni sem á ,,erindi til almennings" og að RÚV hafi þau ,,sjónarmið að leiðarljósi." En Þóra á RÚV fjallaði ekki um eitt eða neitt úr síma skipstjórans. Fréttin var send í tveim útgáfum til samræmdrar birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Hvers vegna þessi feluleikur með ,,efni sem á erindi til almennings"? Varla er það ,,leiðarljós" RÚV að blekkja almenning, afla heimilda fyrir fréttum og vinna þær en flytja fréttirnar með leynd yfir á aðra fjölmiðla til birtingar?

Allt þetta lá fyrir í febrúar 2022. En Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri gáfu Þóru fullan stuðning til starfshátta sem ekki standast faglega skoðun. Óheimil afritun á síma er lögbrot. Þóra starfaði áfram á RÚV sem sakborningur í sakamálarannsókn, líkt og ekkert hefði í skorist.

Ári síðar, í janúar 2023, spyr lögreglan Stefán útvarpsstjóra um tiltekinn Samsung síma með númerið 680 2140. Númerið er leyninúmer, hvergi skráð opinberlega. Þóra átti í margháttuðum samskiptum við byrlara Páls skipstjóra með þeim síma, sem einnig var notaður til að afrita síma skipstjórans. Fyrst neitaði útvarpsstjóri lögreglu um upplýsingar en áttaði sig á að þar með hindraði hann framgang réttvísinnar, eins og rakið var í bloggi.

Í beinu framhaldi af samskiptum útvarpsstjóra og lögreglu í janúar 2023 var Þóra látin fara frá RÚV. Örfrétt birtist á RÚV um skyndilegt brotthvarf ritstjóra Kveiks frá stofnun. Engin skýring á óvæntum starfslokum ritstjóra eina fréttaskýringarþáttar RÚV. 

Stefán útvarpsstjóri tók afgerandi ákvörðun mánaðarmótin janúar/febrúar 2023, þegar hann lét Þóra fara eftir að hafa haldið yfir henni hlífiskildi sem sakborningi í heilt ár.

Hver er skýringin?

Stefán er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Eftir að hafa fengið fyrirspurn frá lögreglu um Samsung símann með númerinu 680 2140 og gengið úr skugga um að síminn var í umsjón Kveiks hefur Stefán spurt Þóru um símann. Svör Þóru hafa verið þess eðlis að hún varð að víkja úr starfi fyrirvaralaust.

Hverju svaraði Þóra Stefáni útvarpsstjóra um símann?

Aðeins tveir möguleikar eru í stöðunni.

a. Samsung síminn með númerinu 680 2140 er á Kveik en búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið apríl 2021 til október 2021.

b. Samsung síminn er týndur.

Víst er að ef Samsung síminn væri heill og óskaddaður, ekki búið að eyða úr símanum gögnum, væri hann í fórum RÚV, ef ekki lögreglu, og sýndi með óyggjandi hætti hvaða samskipti fóru milli byrlara Páls skipstjóra annars vegar og hins vegar Þóru og annarra starfsmanna RÚV. Símtalaskrá í gögnum málsins staðfesta að samskiptin fóru fram.

En Samsung síminn er ekki heill og óskaddaður á Efstaleiti. Annað tveggja er síminn týndur og tröllum gefinn eða búið er að eyða úr símanum gögnum yfir tímabilið sem byrlun, afritun og yfirhylming fór fram.  Þess vegna varð Þóra að víkja fyrirvaralaust úr starfi á RÚV í byrjun febrúar 2023.

Skildu eftir skilaboð