Páll Vilhjálmsson skrifar:
Kristrún forsætis er sammála Pútín Rússlandsforseta um að vopnahlé í Úkraínustríðinu „á hvaða forsendum sem er gengur ekki upp.“ Að öðru leyti er íslenski forsætisráðherrann ólíkt herskárri í orðum en þjóðhöfðingi Bjarmalands. Orðfærið sækir Kristrún til Brussel.
Tilvitnunin i Kristrúnu um vopnahlé er eftirfarandi:
Kveðst Kristrún hafa fullan skilning á vilja fólks til að stoppa stríð og blóðsúthellingar. „Ég held að það sé mjög mannleg krafa, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem erum mjög fjarlægir þessum viðburði. Við erum ekki með her, við eigum ekki mikla sögu af svona samskiptum. En það skiptir samt miklu máli að hafa í huga að vopnahlé, á hvaða forsendum sem er, gengur ekki upp,“ segir Kristrún ákveðin.
Pútín Rússlandsforseti segir sama hlutinn, vopnahlé eitt og sér skilar engu. Átök blossa upp án fyrirvara ef ástæður stríðsins eru ekki ræddar og komist að niðurstöðu um hvernig varanlegur friður líti út.
Rússar setja fram þríþætt skilyrði fyrir friði. A. Úkraína verði ekki Nató-ríki. B. Landvinningar Rússa í austurhluta Úkraínu, sem er rússneskumælandi, verði viðurkenndir. C. Heildstætt samkomulag um öryggis- og varnarmál í Evrópu verði hluti af friðarsamningi.
Trump Bandaríkjaforseti hefur í meginatriðum samþykkt nálgun Rússa sem geti orðið undirstaða friðarsamkomulags. Annað gildir um Evrópusambandið, sem óttast hrun eftir rússneskan frið í Úkraínu.
Kristrún forsætis hefði vitanlega átt að fagna friðarútspili Trump forseta. Illu heilli er íslenski forsætisráðherrann múlbundinn á klafa Evrópusambandsins. Líkt og ESB-vinirnir vill Kristrún meira blóð og eyðileggingu en segist í hinu orðin friðelskandi. Pólitískur kleyfhugi í stól forsætisráðherra eftir tvo mánuði í starfi er líklega Íslandsmet.
Evrópusambandið ætlaði sér landvinninga í austurvegi. Bandaríkin áttu að skaffa flest vopnin og mest fjármagnið og Úkraínumenn karla til að deyja á vígvellinum. Evrópskur vinstrifemínismi í framkvæmd. Trump hefur minni áhuga á manndrápum en forveri hans Biden og afturkallar bandarískan stuðning við stríðsaðgerðir. Trump vil frið og evrópska-elítan gengur af göflunum, kisulórurnar á Arnarhvoli hvæsa með.
Í þágu Kristrúnar og Þorgarðar Katrínar, óvíst hvort Inga sé memm, eru settar á flot ESB-ættaðar hugmyndir um íslenskan her. Frá samfylkingarskólanum á Bifröst kemur krafa um ,,sterkan íslenskan her" og leyniþjónustu að auki. Fjöldahandtökur og misþyrming á málfrelsi er ekki í tillögum sem Bjarni Már Magnússon lagaprófessor er skráður fyrir - en stappar nærri.
Hugvíkkandi efnin sem samfylkingar- og viðreisnarliðið tekur í Brussel-skömmtum valda ofsóknaræði. Auðvelt er sjá hvers vegna. Evrópusambandið er einangrað. Hvorki Trump né Pútín ætla sér að semja við ESB. Brussel mun sitja uppi með afleiðingarnar af markaðri stefnu Trump að Rússland sé stórveldi en ESB héraðsríki.
Alþjóðlega umpólunin þessa dagana er að Rússland er viðurkennt stórveldi af Bandaríkjunum. Fyrir aðeins tíu árum sagði áhrifamikill bandarískur stjórnmálamaður, John McCain, að Rússland væri stór bensínstöð í líki þjóðríkis. Á fréttamannafundi Trump og Starmer forsætisráðherra Bretlands í gær spurði Trump hvort Bretar réðu einir við Rússa og uppskar hlátur. Bretland er hernaðarlegur dvergur; ESB-ríkin eru handfylli dverga.
Í Úkraínu berjast tveir herir, um og yfir milljón hermenn hvor. Talað er um að evrópskir friðargæsluliðar komi á vettvang til að ganga á milli. Frakkar geta sent 25 þúsund hermenn og Bretar kannski annað eins. Þjóðverjar enga, síðasta herleiðangri þeirra í austurvegi lauk með falli Berlínar. Dvergaher Frakka og Breta breytir engu á þúsund kílómetra víglínu sem telur tvær milljónir hermanna. Kristrún og Þorgerður Katrín virðast halda að tylft skátahermanna frá Bifröst ríði baggamuninn.
Séð frá Íslandi ættu menn að horfa rólega og yfirvegað á þróun mála á meginlandi Evrópu, sem er fjarlægur hreppur. Um ESB-sinna gildir annað, þeir eru í móðursýkiskasti, vita að aðeins heimskasta tíund íslensku þjóðarinnar styður vegferð Samfylkingar og Viðreisnar til dvergahælisins í Brussel, sem á allt sitt undir að Rússar láti sér nægja Úkraínu.