Páll Vilhjálmsson skrifar:
Trump Bandaríkjaforseti ætlar sér frið í Úkraínu fyrr en seinna. Skilaboðin frá Washington eru að friði verði komið á með eða án Selenskí Úkraínuforseta og helstu bakhjarla hans, Bretlands og ESB-Evrópu.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands reynir að feta milliveg, bjóða upp á vopnahlé sem undanfara friðarsamninga. Á meðan friðarviðræður standa yfir muni breskt og franskt herlið gæta víglínunnar. Tillaga Starmer á neyðarfundi í London í gær er sambærileg og Macron Frakklandsforseti lagði fram í París fyrir hálfum mánuði. Í báðum tilvikum er hugmyndin að Bandaríkin taki óbeinan þátt, tryggi öryggi bresku og frönsku hermannanna.
Ekkert bendir til að Bandaríkjamenn taki undir með Starmer og Macron. Báðir heimsóttu Hvíta húsið nýverið og reyndu að selja húsbóndanum þar sínar hugmyndir en fengu kurteist afsvar. Rússar segja nei við skammtíma vopnahléi með evrópskum her til að gæta víglínunnar.
Breska dagblaðið Telegraph segir breska forsætisráðherrann brátt kominn í þá stöðu að velja á milli Trump og Selenskí. ESB-Evrópa er í sömu stöðu.
Trump átti símtal við Pútín Rússlandsforseta fyrir þrem vikum. Aðdragandi var að samtalinu, Steve Witkoff, trúnaðarmaður Bandaríkjaforseta átti fundi með æðstu ráðamönnum í Kreml.
Eftir símtalið tók Trump ákvörðun um að færa samskiptin við Rússland í eðlilegt horf. Friður í Úkraínu er nauðsynlegur þáttur stefnubreytingarinnar. Hvorki Selenskí né ESB-Evrópa vilja frið á bandarískum-rússneskum forsendum. Þeir óttast, líklega með réttu, að friðarsamningar munu hafa yfirbragð uppgjafar.
Úkraínustríðið hefur staðið yfir í þrjú ár og nokkrum dögum betur. Á vígvellinum gengur flest Úkraínu í óhag. Rússar hafa hertekið um 20 prósent landsins. Framsókn Rússa er hæg en stöðug.
Án bandarískra vopna og fjármagns er Selenskí bjargarlaus. ESB-Evrópa og Bretland geta bætt í baukinn en hergögn eru af skornum skammti.
Trump getur, án fyrirvara, stöðvað fjármagns- og vopnaflutninga til Úkraínu. Stutt yrði í endalok Úkraínustríðsins gangi það eftir. Bretland og ESB-Evrópa geta í mesta lagi framlengt stríðið í fáeinar vikur eða mánuði. Nú þegar Bandaríkin hafa gert hlé á hernaðaraðstoðinni er deginum ljósara að ekki verður aftur snúið.
Leiðtogar Bretlands og ESB-Evrópu freista þess á neyðarfundi eftir neyðarfundi að fá Trump ofan af fyrirætlan sinni að taka upp eðlileg samskipti við Rússland og ljúka Úkraínustríðinu. Trump gefur sig ekki og vill, ef eitthvað er, hraða framvindu mála.
Úkraínumál á Íslandi taka fremur óvenjulega stefnu, svo ekki sé meira sagt. Utanríkisráðherra telur herskáa en vanmáttuga ESB-Evrópu gilda ástæðu fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef fórna skal fullveldi og sjálfstæði væri nær að gera dollar að lögeyri og sækja um að verða 51sta fylki Bandaríkjanna.